Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Athyglisverðar pælingar hjá Siguróla

9. júlí 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Of seint er að byrgja brunninn, þá handboltinn er dottinn í hann

Siguróli Magni Sigurðsson, fyrrum markvörður Akureyrar Handboltafélags skrifaði nýlega áhugaverðan pistil á Sport.is þar sem hann veltir fyrir framtíð deildarkeppninnar í íslenskum handbolta. Við tökum okkur það bersaleyfi að birta pistilinn hér á síðunni:

Handboltatímabilið 2011-2012 verður mönnum lengi í minni en þetta ár gerðist margt merkilegt. Enn og aftur náðu landslið okkar Íslendinga frábærum árangri á stórmótum, bæði karla og kvenna. HK varð Íslandsmeistari í karlaflokki í fyrsta sinn í sögu félagsins á meðan Valur vann alla titla sem í boði voru í kvennaflokki. Hins vegar voru sögulega fá lið skráð til leiks í deildarkeppni og veldur það undirrituðum virkilegum áhyggjum. Aðeins 14 (þetta er ekki stafsetningarvilla) lið voru skráð til leiks í N1- og 1. deild karla og aðeins 9 lið tóku þátt í deildarkeppni kvenna. Til samanburðar má nefna að 30 lið taka þátt í deildarkeppninni karla í handbolta hjá frændum okkar í Færeyjum en þeir halda úti þremur 10 liða deildum í karlaflokki. Á Íslandi búa u.þ.b. 320.000 manns en aðeins tæplega 50.000 búa í Færeyjum.

Hvar liggur vandi íslenskrar deildarkeppni í handbolta og hvað er til ráða? Það eru nokkrir hlutir sem undirritaður vill benda á og leggja til hvað betur mætti fara.

Í fyrra voru 18 lið skráð til leiks í utandeild karla í handbolta og 9 í utandeild kvenna í handbolta. Hvers vegna eru þessi lið ekki í úrvals-, fyrstu- eða annarri deild? Margir bera fyrir sig að þarna sé aðeins um dútl að ræða en höfundur þessa pistils hefur leikið undanfarin 2 ár í deildinni og kæmu gæði hennar mörgum á óvart. Í þessari deild eru menn sem hafa ekki haft tíma í að æfa sex til tíu sinnum í viku, hafa meiðst og átt erfitt uppdráttar eða hafa einfaldlega ekki fengið sénsinn hjá þjálfara sínum þegar þeir komu upp úr unglingastarfi viðkomandi félags. Þess vegna hafa þessir menn leitað á önnur mið, í utandeildina. Menn eru tvítugir þegar þeir koma upp úr 2.flokki. Enginn þarf að segja mér að allir leikmenn séu fullþroskaðir handboltaleikmenn þegar þeir eru tvítugir. Þeir sem þurfa nokkur ár í viðbót áður en þeim er kastað í djúpu laugina hafa því miður um allt of fáa möguleika að velja.

Tökum lið eins og Akureyri sem dæmi. Flottur klúbbur sem hefur náð góðum árangri síðastliðin 2 ár. Hópurinn er vel skipaður, með góða blöndu yngri og eldri leikmanna. Árangur þeirra í 2. flokki er ekki minna eftirtektarverður en í vor urðu þeir Íslandsmeistarar og fjögur af síðustu fimm árum hefur lið Akureyringa í 2. flokki farið alla leið í úrslitaleik Íslandsmótsins. Í fyrravetur voru 36 strákar, á aldrinum 17-20 ára á æfingarskrá 2. flokks hjá Akureyri. Hvaða möguleika hafa þessir strákar, þegar þeir ganga upp úr 2. flokki en fá ekki sénsinn með sterku aðalliði félagsins? Ef þeir flytja ekki suður yfir heiðar eru möguleikarnir engir. Eitt undandeildarlið hefur verið starfandi á Akureyri síðastliðin ár en í fyrra gáfust þeir upp á ferðakostnaði og drógu lið sitt úr keppni.

Ekki vantar handboltaáhugann á Íslandi en sem dæmi má nefna að íslenska landsliðið leikur fyrir fullri höll í hvert sinn sem þeir etja að kappi á fjölum Laugardalshallarinnar. Áhuginn er mun meiri en á t.d. íslenska A-landsliðinu í knattspyrnu. Samt sem áður eru 66 lið skráð í úrvals, fyrstu, aðra og þriðju deild í knattspyrnu. Þarna eru lið eins og Grindavík, Keflavík, ÍA, Snæfell, BÍ/Bolungarvík, Víkingur Ólafsvík, Völsungur, Einherji, Fjarðarbyggð, Hamar og ég gæti talið endalaust áfram. Hvar eru þessi lið í handboltanum? Hvar eru lið eins og KR, Breiðablik og Fylkir? Enginn skal segja mér að fólk utan af landi eða fólk í Árbænum eða Vesturbænum fylgist ekki með handbolta.

Sjálfur hefur undirritaður gegnt stöðu þjálfara hjá yngriflokkum Handknattleiksfélags Reykjanesbæjar, sem og leikið með þeim í utandeildinni. Hjá HKR voru u.þ.b. 80 iðkendur á skrá í vetur, þrátt fyrir að meistaraflokkur liðsins sé nánast enginn. Yngriflokkastarf er hjá Fylki, Þrótti og KR. Einnig hefur Hörður frá Ísafirði verið að senda iðkendur á yngriflokkamót. Þessi lið eru nauðsynleg fyrir deildarkeppni meistaraflokka áður en í óefni verður komið. Með áframhaldandi þróun verður aðeins ein deild, bæði í karla og kvennaflokki í handbolta og samkeppni verður lítil sem engin.

Eins og alltaf skipta peningar höfuðmáli en þeir eru, eins og flestir vita, af skornum skammti í flestum kimum þjóðfélagsins. Dómarakostnaður er þó nokkur, sem og leiga á sal til þess að stunda æfingar. Einnig þarf að borga þjálfara laun (gæti verið spilandi þjálfari til þess að minnka kostnað) og kaupa útbúnað eins og bolta og búninga. Þegar þessi kostnaður er tekinn saman, fyrir eitt tímabil, er hann rúmlega milljón. (Ábendingar eru vel þegnar ef farið er með rangt mál.)

Undirritaður hefur komið með þá tillögu, eftir að HSÍ hætti að leyfa „unglingaliðum“ stóru liðanna að taka þátt í 1. deildinni, að stóru klúbbarnir fari í samstarf við þá minni. Tökum núverandi bæjarfélag mitt, Keflavík, sem dæmi. Aðeins tekur 24 mínútur að keyra frá Keflavík til Hafnarfjarðar, mekka handboltans. Yngriflokkastarf Hafnarfjarðarliðanna, Hauka og FH, er til fyrirmyndar en þeir glíma við sama vandamál og önnur lið: Of margir komast ekki í aðallið félagsins og þurfa kannski 1-3 ár í að þroskast sem leikmenn. Hvernig væri að Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar (HKR) og Haukar færu í samstarf, að 2. flokksleikmenn Hauka, ásamt þeim sem eru komnir upp úr 2. flokki en þykja ekki nægilega góðir fyrir aðallið Hauka, myndu manna lið HKR ásamt heimastrákum? Fleiri dæmi er hægt að taka t.d. með KR og Val, HK og Breiðablik, Fylki og ÍR. Blanda af heimastrákum (eldri strákum) og svo upprennandi leikmönnum sem ekki fá tækifæri annars staðar. Að minni klúbbar ættu sér svokallaðann foreldraklúbb (e. feeder club) þangað sem þeir gætu sent leikmenn sem vilja afla sér reynslu fyrir átökin í efstu deild.

Það er að mörgu að huga þegar kemur að þessum málum og efast undirritaður um að hann hafi verið að finna upp hjólið. Hins vegar er það staðreynd að margar hendur vinna létt verk og það þurfa allir áhugamenn og velunnarar handboltans að leggjast á eitt þegar kemur að því að fjölga liðum. Með fleiri meistaraflokkum fjölgar yngriflokkaiðkendum í ákveðnum hverfum/bæjarfélögum. HSÍ gæti komið til móts við minni klúbba með lægri kostnað vegna dómara og þar fram eftir götunum. Landsbyggðin má heldur ekki verða undir, en þar spilar ferðakostnaður rosalega stórt hlutverk og er það efni í annan pistil. Undirritaður ætlar að láta hér við sitja og vonast til þess að gripið verði til aðgerða áður en það verður um seinan.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson