Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Til hamingju Beggi og Gulli



20. nóvember 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Bergvin og Guðlaugur í úrvalsliði 8. umferðar

Morgunblaðið og Handbolti.org hafa nú birt val sitt á úrvalsliði 8. umferðar N1-deildarinnar. Akureyri Handboltafélag á þar tvo fulltrúa. Báðir aðilar völdu Bergvin Þór Gíslason bestu vinstri skyttuna en Bergvin átti magnaðan leik gegn FH síðastliðinn fimmtudag. Morgunblaðið valdi Bergvin auk þess besta leikmann umferðarinnar.


Bergvin í baráttu við Ásbjörn Friðriksson. Mynd: mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðlaugur Arnarsson, sem tók fram skóna á ný í síðustu viku, sýndi og sannaði að það lifir lengi í glæðunum því hann batt Akureyrarvörnina rækilega saman og var fyrir vikið valinn besti varnarmaður umferðarinnar hjá Morgunblaðinu, ekki amaleg endurkoma það.

Úrvalsliðið að mati Morgunblaðsins er þannig skipað, talan í sviganum segir til um hversu oft viðkomandi hefur verið valinn í úrvalsliðið:

Vinstri hornamaður: Bjarki Már Elísson, HK (3)
Vinstri skytta: Bergvin Þór Gíslason, Akureyri
Miðjumaður: Tjörvi Þorgeirsson, Haukum (3)
Línumaður: Jón Þorbjörn Jóhannsson, Haukum (4)
Hægri skytta: Ólafur Víðir Ólafsson, HK
Hægri hornamaður: Sigurjón Björnsson, ÍR
Markvörður: Kristófer Fannar Guðmundsson, ÍR (2)
Varnarmaður: Guðlaugur Arnarsson, Akureyri
Besti leikmaður: Bergvin Þór Gíslason, Akureyri

Handbolti.org hefur sömuleiðis birt sitt val á liði 8. umferðarinnar og eins og gengur eru menn sammála um sumt en ekki annað. Úrvalslið umferðarinnar lítur þannig út að mati handbolti.org:
Markvörður: Daníel Freyr Andrésson, FH (2)
Línumaður: Jón Þorbjörn Jóhannsson, Haukum (3)
Vinstri hornamaður: Bjarki Már Elísson, HK (3)
Vinstri skytta: Bergvin Þór Gíslason, Akureyri (1)
Miðjumaður: Valdimar Fannar Þórsson, Val (2)
Hægri skytta: Sverrir Hermannsson, Aftureldingu (2)
Hægri hornamaður: Sigurjón Friðbjörn Björnsson, ÍR (1)

Við óskum Bergvin og Guðlaugi til hamingju með viðurkenningunar svo og öllum ofantöldum leikmönnum.

Í tilefni af valinu ræddi Tómas Þór Þórðarson, blaðamaður Morgunblaðsins við Bergvin og fer viðtalið hér á eftir:

„Það var kominn tími á sigur. Við vorum komnir með bakið upp að vegg þannig að þetta var mjög góður og kærkominn sigur,“ segir Bergvin Þór Gíslason, leikmaður Akureyrar í N1-deild karla í handbolta, um sigur norðanmanna gegn FH í áttundu umferð deildarinnar. Akureyri hafði fyrir leikinn tapað þremur leikjum í röð en komst aftur á sigurbraut með sigri í Kaplakrika. Bergvin lék afar vel í liði Akureyrar, bæði í vörn og sókn, en hann er leikmaður 8. umferðar hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leiknum.
„Við erum komnir í annað sæti og eigum mikilvægan leik á móti Fram næst. Það er bara þannig að allir leikir í þessari deild eru hörkuleikir,“ segir Bergvin.

Með meira sjálfstraust
Bergvin skaut vel á markið gegn FH en hann skoraði sex mörk úr átta skotum. „Ég fann mig vel í leiknum og er alltaf að finna mig betur og betur heilt yfir. Ég er að taka meira af skarið núna og er kominn með aðeins meira sjálfstraust,“ segir Bergvin sem hrósar þó liðinu fyrir mikla samstöðu í leiknum.

„Við höfum verið að fá menn aftur úr meiðslum en okkur vantar ennþá Hreinsa [Hrein Þór Hauksson]. Hann var ekki með gegn FH en við náðum samt að vinna þá. Liðið spilaði mjög vel saman og það er það sem við þurfum að gera. Við verðum allir að spila af 100 prósent krafti, við getum ekki leyft okkur að fara af hálfum huga í þessa leiki,“ segir Bergvin.

Gömlu mennirnir lúnir
Akureyri komst í aðra umferð bikarkeppninnar eftir ævintýralegan, tvíframlengdan leik gegn 1. deildar liði Víkings en var ekkert erfitt að gíra sig upp í deildaleik eftir slíkan spennuleik?

„Nei, í rauninni ekki. Við reyndum bara að hafa svolítið gaman af þessu. Það hefur verið þungt yfir mönnum undanfarið en við reyndum að hafa þetta sem skemmtilegast. Það var aðalmarkmiðið. Jákvæðnin var mikil í liðinu fyrir leikinn og þá var virkilega gaman að spila,“ segir Bergvin. Voru menn þá ekkert lúnir eftir tvíframlengdan leik á mánudegi og stórleik í deildinni á fimmtudegi?

„Jú, menn voru kannski aðeins þreyttir. Það voru samt meira þeir gömlu eins og Gulli [Guðlaugur Arnarson] og Heimir [Örn Árnason]. Þeir voru aðeins þreyttari,“ segir Bergvin og hlær við.

Meiri ábyrgð í liðinu
Bergvin er 21 árs gamall og er að upplagi hornamaður. Fyrir tímabilið komu þjálfararnir Bjarni Fritzson og Heimir Örn Árnason að máli við Bergvin og létu hann vita að hann fengi stórt hlutverk í liðinu í vetur.



Bergvin skorar úr horninu á móti Val

„Þeir töluðu við mig og sögðu að ég yrði mikið notaður í vetur. Ég er uppalinn hornamaður en þeir vildu nota mig í skyttunni, sem er mjög gaman. Ég fór því að einbeita mér meira að skyttunni en horninu,“ segir Bergvin sem hefur leikið bæði skyttu og horn í yngri flokkum.

„Ég spilaði báðar stöður með 2. flokknum þannig að ég kann þetta alveg. Ég get alveg skotið á markið en það sem ég vil og þarf að bæta er að senda boltann niður í hornið og sjá línuna betur. Það eru breyttar áheyrslur hjá mér við að spila aðra stöðu,“ segir Bergvin sem var hluti af Íslandsmeistaraliði 2. flokks Akureyrar í vor.

Vilja 2. sæti og heimavöllinn
Þrátt fyrir þrjá tapleiki í röð eftir ágæta byrjun er Akureyri sem stendur í 2. sæti deildarinnar þannig að skaðinn vegna meiðslanna hefur verið takmarkaður.

„Menn hafa verið að tala um að við spilum illa en samt erum við í 2. sæti í deildinni og komnir áfram í bikar. Það sýnir að hluta styrkleika liðsins,“ segir Bergvin en annað sætið er nokkuð sem Akureyringar vilja halda í til að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

„Haukarnir virðast vera að stinga af en annars er þetta mjög jöfn deild. Markmiðið hjá okkur eins og held ég flestum liðum í deildinni er að komast í úrslitakeppnina en helst viljum við annað sætið og þannig vera með heimaleikjarétt í undanúrslitum. En fyrsta markmið er alltaf bara að koma sér í úrslitakeppnina,“ segir Bergvin Þór Gíslason.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson