Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Geir var frábær í dag með 9 mörk13. febrúar 2013 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri með magnaðan sigur á FH - Komnir í Undanúrslit! Nú rétt í þessu var að ljúka stórleik Akureyrar og FH í 8-liða úrslitum Símabikarsins og má með sanni segja að leikurinn hafi staðið undir nafni sem stórleikur en gríðarleg spenna var í leiknum og mikil stemning í Höllinni. Þetta var fimmta árið í röð sem liðin mætast í Bikarnum og hafði FH unnið þrjá af fjórum leikjum liðanna og þá var FH liðið búið að vera á mikilli siglingu í deildinni og því margir sem töldu FH líklegri til að fara með sigur af hólmi í leiknum. Akureyri byrjaði sterkt og eftir 7 mínútna leik hafði liðið forystu 5-3 og hélt yfirhöndinni næstu mínútur. Hinsvegar þegar leið á fyrri hálfleikinn fór FH að spila betur og náði á endanum forskoti sem liðið hélt út hálfleikinn og leiddi 13-14 þegar flautað var til hlés. Ekki veit ég hvað gerðist í klefanum hjá Akureyri í hálfleik en liðið kom ótrúlega vel stemmt til leiks í síðari hálfleik og skoraði 8 mörk á móti einungis einu marki FH-inga sem breytti stöðunni í 21-15 fyrir okkar menn og eftir það var ekki litið til baka. FH náði reyndar að minnka muninn aðeins, mest niður í þrjú mörk, en Akureyrarliðið hélt bara áfram og spilaði mjög yfirvegað þegar mest reyndi á. Að lokum uppskar Akureyri glæsilegan sigur 30-26 og er því komið áfram í Undanúrslit Bikarkeppninnar sem er magnaður árangur. Það sem uppskar helst sigurinn í dag var mjög góður varnarleikur og frábær markvarsla. Þá gekk sóknarleikurinn líka betur en oft áður og nokkuð ljóst að spilamennska Akureyrarliðsins er að smella flott saman nú þegar líða er farið á mótið. Geir Guðmundsson var markahæstur með 9 mörk, Guðmundur Hólmar skoraði 7 mörk, Bergvin Þór og Heimir Örn skoruðu báðir 5 mörk og þá skoruðu Hreinn Þór og Andri Snær báðir 2 mörk. Jovan Kukobat varði 20 skot í leiknum og þá kom Stefán Guðnason sterkur í markið á lokamínútunum og varði 2 skot, þar af eitt víti. Það var alveg magnað að fylgjast með Akureyrarliðinu í dag, það var alveg sama hvaða leikmaður var inn á, allir gáfu allt sitt í leikinn og voru óhræddir við að gera mistök. Það er hreint út sagt frábært að liðið sé komið í Undanúrslitin en á sama tíma slógu ÍR-ingar út núverandi Bikarmeistara Hauka, 24-20. 1. deildarlið Stjörnunnar hafði áður tryggt sér sæti í Undanúrslitunum. 1. deildarliðin ÍBV og Selfoss berjast svo um síðasta sætið. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvernig Bikardrátturinn verður enda ljóst að tvö Úrvalsdeildarlið verða í pottinum á móti tveimur 1. deildarliðum. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook