Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Til hamingju Kristján og Gunnar15. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifarKristján Orri leikmaður 4. umferðar Olís-deildar Morgunblaðið birti í dag val sitt á úrvalsliði 4. umferðar Olís-deildar karla og að þessu sinni á Akureyrarliðið tvo fulltrúa í liðinu. Kristján Orri Jóhannsson er valinn besti hægri hornamaðurinn og Gunnar Malmquist Þórsson besti varnarmaðurinn. Þar að auki er Kristján Orri valinn leikmaður umferðarinnar. Lið Morgunblaðsins er þannig skipað: (talan innan svigans táknar hve oft viðkomandi hefur verið í liði umferðarinnar). Vinstra horn: Sturla Ásgeirsson, ÍR (2) Vinstri skytta: Róbert Aron Hostert, ÍBV Leikstjórnandi: Sigfús Páll Sigfússon, Fram Hægri skytta: Einar Rafn Eiðsson, FH (2) Hægri hornamaður: Kristján Orri Jóhannsson, Akureyri (2) Línumaður: Jón Heiðar Gunnarsson, ÍR Markvörður: Daníel Freyr Andrésson, FH Varnarmaður: Gunnar Malmquist Þórsson, Akureyri Besti leikmaður umferðarinnar: Kristján Orri Jóhannsson, Akureyri Við óskum Kristjáni og Gunnari til hamingju með útnefningarnar svo og öllum leikmönnunum. Í tilefni þess að vera valinn leikmaður umferðarinnar ræddi Tómas Þór Þórðarson , blaðamaður Morgunblaðsins við Kristján Orra og fer viðtalið hér á eftir: „Það var mikilvægt fyrir okkur að komast aftur á sigurbraut eftir tvö töp. Þessi deild verður þannig að öll stig verða mikilvæg - sérstaklega á útivelli,“ segir Kristján Orri Jóhannsson, hægri hornamaður Akureyrar, í samtali við Morgunblaðið um sigur norðanmanna á HK í Olís-deildinni í handbolta síðastliðinn fimmtudag. Kristján Orri fór á kostum í leiknum og skoraði níu mörk úr tíu skotum. Hann er leikmaður 4. umferðar hjá Morgunblaðinu fyrir sína frammistöðu en í heildina hefur hann staðið sig afspyrnu vel á sínu fyrsta tímabili með Akureyri. Eftir fjórar umferðir er hann markahæstur í liðinu með 22 mörk eða 5,5 mörk að meðaltali í leik, sem þýðir að hann er í 4.-5. sætinu yfir markahæstu menn deildarinnar, átta mörkum á eftir þremur efstu mönnum. „Það gekk vel að slútta í þessum leik. Maður á sína góðu daga og slæmu en ég skoraði í þessum leik,“ segir þessi 19 ára gamli drengur hógvær.Hent í djúpu laugina Kristján Orri er handboltamaður af sjaldgæfri tegund. Hann er nefnilega uppalinn Þróttari og með mikið Þróttarahjarta. Sautján ára gamall þurfti hann að róa á önnur mið til að geta spilað alvöru handbolta í meistaraflokki og gekk þá í raðir Gróttu árið 2010. Liðið lék þá í úrvalsdeildinni. „Það var svolítið mikið djúpa laugin að fara úr B-deild 3. flokks í úrvalsdeildina í leik á móti Val. Það var frekar mikið stökk. Ég spilaði líka meira þá en ég bjóst við því sá sem var á undan mér meiddist. Ég var þá bara eini leikmaðurinn eftir í minni stöðu,“ segir Kristján Orri sem skilaði þó 32 mörkum í efstu deild og var svo markahæstur hjá liðinu í 1. deildinni í fyrra með 86 mörk.Kristján Orri í leik með 2. flokki Gróttu gegn Akureyri síðastliðið vor þar sem hann skoraði 11 mörk
Engum líður illa á Akureyri Hann vildi svo komast aftur í úrvalsdeildina. „Það heillaði að fara aftur í efstu deild og vera á stóra sviðinu,“ segir Kristján en hvernig endaði hann á Akureyri? „Það var bara haft samband við mig og ég sló til. Tímasetningin var líka góð því ég var að klára MS og var á milli skóla. Ég ætlaði í skóla í Reykjavík en fór í staðinn bara í Háskólann á Akureyri,“ segir hornamaðurinn en það er nú ekki á hverjum degi sem borgarbörnin láta plata sig út á land að spila eins og oft hefur verið fjallað um. „Ef þú hefðir talað við mig fyrir fimm mánuðum hefði ég aldrei hugsað til þess að flytja til Akureyrar en þetta er engu að síður algjör snilld. Bærinn hefur komið vel á óvart og mér líður vel hérna. Það líður engum illa á Akureyri. Þetta er öllu rólegra líf en í borginni,“ segir Kristján Orri.Í þessu til að vinna Akureyringar eru með fjögur stig í Olís-deildinni eftir fjóra leiki en hvert er stefnt? „Við erum ekki með nein útgefin markmið. Okkar aðalmarkmið er bara að gefa okkur alla í hvern einasta leik og telja svo stigin í lokin. En maður er að sjálfsögðu í þessu til að vinna titla og svona. Markmiðið er ekkert að halda sér í deildinni,“ segir Kristján Orri sem er ánægður með stemninguna í hópnum. „Það er mikil stemning og hópurinn er virkilega flottur. Það eru engin risanöfn þarna en menn eru virkilega seigir. Þetta eru bara drulluflottir strákar,“ segir Kristján Orri Jóhannsson.Kristján Orri að skora eitt af fjölmörgum mörkum fyrir Akureyri
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook