Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Það fæst ekkert gefins á móti Haukum4. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri sækir Hauka heim á fimmtudaginn Það verður ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar Akureyri heldur í Hafnarfjörðinn og mætir Haukum, toppliði Olís-deildar karla. Haukarnir hafa verið býsna stöðugir í sínum leik það sem af er, unnið 9 leiki af tólf en einungis tapað tveim. Í fyrstu umferðinni töpuðu þeir fyrir Valsmönnum, síðan gegn Fram í 3. umferð, gerðu jafntefli við Val í 8. umferð en annars hafa þeir unnið sannfærandi sína leiki býsna sannfærandi. Helstu markamaskínur Haukanna eru Sigurbergur Sveinsson með 68 mörk, Árni Steinn Steinþórsson 55 mörk, Elías Már Halldórsson 42 mörk og línutröllið Jón Þorbjörn Jóhannsson með 36 mörk. Þar stutt undan eru Tjörvi Þorgeirsson með 28 mörk, Einar Pétur Pétursson 25 mörk og Þórður Rafn Guðmundsson 24 mörk. Enda er það eitt af einkennum Hauka að hópurinn er breiður og þó að einhver sé ekki að finna sig þá tekur bara sá næsti við. Aðalmarkvörður Hauka er Giedrius Morkunas og samkvæmt tölfræði Morgunblaðsins er hann í öðru sæti með 160 varða bolta í Olís deildinni. Þess má reyndar geta að okkar maður, Jovan Kukobat er í 3. sæti með 158 varða bolta en hefur leikið einum leik færra. Haukarnir virtust vera að misstíga sig í síðasta leik þar sem þeir mættu ÍR, voru undir í hálfleik en völtuðu síðan yfir ÍR-inga í seinni hálfleik og unnu sannfærandi. Gengi Akureyrarliðsins var hins vegar þveröfugt í síðustu umferð. Liðið lék glimrandi flottan handbolta fyrstu tuttugu mínútur leiksins gegn Val en átti mjög dapran leik afganginn af leiknum. Það sem liðið sýndi í upphafi leiksins gefur hins vegar von um að liðið geti á góðum degi virkilega látið finna fyrir sér. Leikur Hauka og Akureyrar hefst klukkan 18:00 í Schenkerhöllinni, fimmtudaginn 6. febrúar. Við hvetjum stuðningsmenn Akureyrar á höfuðborgarsvæðinu til að bregða sér í Hafnarfjörðinn og styðja strákana í leiknum. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook