Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Stjörnumenn eru væntanlegir norður22. september 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarHeimaleikur gegn Stjörnunni á fimmtudaginn Fyrsti heimaleikur Akureyrar á þessu tímabili er á fimmtudaginn þegar Stjarnan úr Garðabæ mætir til leiks. Stjarnan vann sig upp í úrvalsdeild síðastliðið vor eftir að hafa leikið í 1. deild í fjögur tímabil þar á undan. Stjarnan var í harðri baráttu við Aftureldingu um toppsætið í 1. deild í fyrra en missti naumlega af efsta sætinu. Stjarnan tók í kjölfarið þátt í umspili um sæti í Olís-deildinni og vann þar sigur á Selfyssingum en töpuðu lokaeinvíginu við ÍR, sem kom þó ekki að sök þar sem fjölgað var í deildinni. Akureyringum er að sjálfsögðu minnistætt tapið gegn Stjörnunni í fjögurra liða úrslitum bikarkeppninnar 2013 og ætla örugglega að kvitta fyrir þá niðurlægingu á fimmtudaginn. Kjarninn í liði Stjörnunnar eru ungir leikmenn eins og Egill Magnússon, Andri Hjartar Grétarsson, Starri Friðriksson og Víglundur Jarl Þórsson. Í sumar hefur Stjarnan fengið til sín nokkra reynslubolta og þar skal fyrstan telja hægri hornamann íslenska landsliðsins, Þóri Ólafsson sem sneri heim frá Póllandi. Frá HK komu markvörðurinn Björn Ingi Friðþjófsson, skyttan Eyþór Magnússon og nú síðast kom galdramaðurinn Daníel Berg Haraldsson. Frá Val kom línumaðurinn Gunnar Harðarson eftir eins árs hvíld. Þannig að óhætt er að segja að Stjarnan sé með athyglisverða blöndu ungra og reyndari leikmanna.Eyþór Magnússon, Björn Ingi, Þórir Ólafsson, Gunnar Harðarson ásamt Vilhjálmi Halldórssyni formanni meistaraflokksráðs Stjörnunnar Mynd: mbl.is
Nýr þjálfari, Skúli Gunnsteinsson tók við liðinu í sumar eftir að hafa stýrt kvennaliði Stjörnunnar með flottum árangri undanfarin ár en áður gerði Skúli karlalið Aftureldingar að Íslandsmeisturum 1999. Þórir Ólafsson er aðstoðarþjálfari Skúla. Eftir tvær umferðir er Stjarnan með tvö stig, töpuðu í fyrstu umferð fyrir Aftureldingu 29-22 en unnu HK í annarri umferðinni 27-26. Atkvæðamestir Stjörnumanna í þessum tveim leikjum hafa verið Andri Hjartar Grétarsson með 11 mörk, Egill Magnússon með 8 og Ari Magnús Þorgeirsson með 7 mörk.Andri Hjartar Grétarsson í leiknum gegn Aftureldingu. Mynd: fimmeinn.is
Egill Magnússon í leiknum gegn Aftureldingu. Mynd: fimmeinn.is
Við bjóðum Stjörnumenn velkomna norður og ekki að efa að það verður mikið fjör á fjölum Íþróttahallarinnar á fimmtudaginn og um að gera fyrir fjölmarga stuðningsmenn Akureyrarliðsins að fjölmenna og taka virkan þátt í að skapa stemmingu í húsinu. Leikurinn hefst klukkan 19:00 á fimmtudaginn.
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook