Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Elías Már átti glimrandi leik í dag11. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri lokaði á Framara og vann sigur Akureyri mætti norður í Safamýrina í lokaleik 6. umferðar Olís Deildarinnar. Fram hafði tapað illa gegn HK í síðasta leik á meðan Akureyri tapaði naumlega fyrir ÍBV á heimavelli. Fram einungis með 2 stig og Akureyri 4, það var því ansi mikilvægt fyrir bæði lið að vinna sigur í þessum leik. Akureyri byrjaði leikinn virkilega vel, vörnin var fantasterk og sóknin var að virka. Eftir 8 mínútna leik var staðan 2-5 og ekkert sem benti til annars en að Akureyri myndi bæta við forskotið. Þá fór hinsvegar vörnin að hiksta aðeins og sóknin missti marks, Framarar nýttu sér þetta og komust 9-7 yfir. Akureyri náði að minnka muninn í 10-9 áður en flautað var til hálfleiks. Kristófer markvörður Fram var mjög góður í fyrri hálfleiknum og var kominn með 10 varin skot. Síðari hálfleikur hinsvegar byrjaði ákaflega vel hjá okkar mönnum, vörnin lokaði enn betur og Tomas hrökk í gang í markinu. Sóknarleikurinn fór að líta betur út og Sissi sem hafði lítið látið til sín taka náði að setja inn nokkur mörk. Akureyri komst í 10-13 og eftir það var í raun ljóst að Akureyri væri með leikinn í sínum höndum. Fram minnkaði muninn einu sinni niður í eitt mark en þá gáfu okkar menn bara aftur í og náðu fimm marka forskoti 15-20 þegar tíu mínútur voru eftir.Vörn og markvarsla stóðu fyrir sínu í dag. Mynd: Eyjólfur Garðarsson, Sport.is
Á lokamínútum leiksins gekk liðunum erfiðlega að skora og á endanum vannst sigur 17-23. Sóknarlega var liðið ansi reikandi, á löngum köflum leit sóknarleikurinn ansi illa út og ekkert gekk. Hinsvegar komu frábærir kaflar þar sem tókst að splundra vörn Framara og fá auðveld mörk. Varnarleikurinn var heilt yfir alveg frábær og Tomas átti mjög góðan leik og endaði með 21 varið skot. Þá verð ég að minnast á að Elías Már Halldórsson var virkilega góður í þessum leik og mjög ánægjulegt að sjá hann komast í gang. Elías var markahæstur okkar manna með 7 mörk, en ekki má gleyma frábærri innkomu Sigþórs í seinni hálfleik þar sem hann skoraði öll sín 5 mörk.Elías Már Halldórsson átti frábæran leik í dag. Mynd: Eyjólfur Garðarsson, Sport.is
Eitt er þó víst, ef vörnin verður áfram svona og ef Tomas nær að halda stöðugleika í markinu þá mun Akureyri ná að hala inn ansi mörgum stigum í næstu leikjum. Þá verð ég líka að minnast á frábæra stuðningsmenn Akureyrar í dag, það var mættur góður fjöldi af Akureyringum í stúkuna sem létu vel í sér heyra. Akureyri gjörsamlega átti stúkuna og var frábært að sjá strákana fagna sigrinum fyrir framan okkar áhorfendur.Sjá myndir frá leiknum á sport.is .
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook