Það er fátt skemmtilegra en að fylgjast með handboltaleik í fullri Íþróttahöllinni að maður tali ekki um þegar úrslitin falla réttu liði í hag. En til að leikurinn geti farið fram þarf að sinna býsna mörgum verkum og ekki víst að allir geri sér grein fyrir þeirri vinnu sem fjöldi fólks innir af hendi við undirbúninginn.
Þórir Tryggvason hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf í fjölmörg ár við að mynda flestalla íþróttaviðburði hér í bænum og og svo sannarlega er hann einn af fólkinu á bak við tjöldin hvað þetta varðar. Þórir tók sig til fyrir leik Akureyrar og Aftureldingar á fimmtudaginn og smellti af nokkrum myndum frá undirbúningi leiksins.

Við urðum að setja með eina mynd af Þóri sjálfum. Jón Óskar Ísleifsson tók þessa mynd
Fyrir hvern leik þarf að setja upp auglýsingaspjöld og fána bæði meðfram vellinum og á veggina. Ingólfur Samúelsson stýrir harðsnúnu liði sem sér um uppsetningu auglýsinganna og síðan þarf að hafa hraðar hendur eftir leik að ganga frá öllu saman aftur.

Ingólfur og Guðni raða saman auglýsingalengjunni meðfram vellinum. Logi með rauðu húfuna fylgist vel með þeim. Þess má geta að Ingólfur hannaði og smíðaði einnig festingarnar.



Gestur Davíðsson og Kristján Davíðsson eru sérfræðingar í auglýsingafánunum.


Það veitir ekki af því að hafa vinnupalla til verksins.

Vigdís tekur Heiðbjörtu dóttur sína með í að stilla upp aðstöðu fyrir tímavarðarborðið.

Það er stutt í brosið hjá Vigdís enda er ánægjan einu launin fyrir þessi störf.
Strákarnir í 2. flokki sinna ekki bara gæslustörfum í stúkunni meðan á leik stendur heldur aðstoða þeir líka við að standsetja stúkuna.

Aron Tjörvi og Róbert fjarlægja grindverkið þegar búið er að draga út neðri stúkuna.

Heimir lætur sitt ekki eftir liggja.
Tímavarðarborðið er einn mikilvægasti staðurinn meðan á leik stendur og mikilvægt að þar sé allt eins og best verður á kosið.

Kiddi og Heimir skella tímavarðaborðinu upp á pallinn.
Á tímavarðaborðinu ræður Magnús Sigurólason ríkjum. Honum til aðstoðar er Grímur sem skráir allt það markverðasta sem gerist í leiknum. Fyrir leik þurfa þeir félagar að stilla klukkuna og undirbúa öll bókhaldsgögn áður en leikurinn getur hafist.

Grímur og Magnús undirbúa sig fyrir leikinn.

Siggi Frost og strákarnir í gæsluteyminu leggja lokahönd á undirbúning stúkunnar áður en fólki er hleypt inn.
Í stuðningsmannaherberginu er mikill handagangur í öskjunni enda er þar sett upp matarveisla fyrir hvern leik, kaffiveitingar í leikhléi og eftir leiki koma glorhungraðir leikmenn og dómarar til að þiggja veitingar.

Hér eru frá vinstri Gunnar, sem jafnframt er kynnir á leikjunum, Pétur tónlistarstjóri, Jónas yfirdyravörður og Ómar framreiðslustjóri og dælumeistari. Í baksýn er Stefán Jóhannsson að sinna tölvumálum.

Stefán sér um leikskýrslugerð fyrir og eftir leik auk þess að lýsa heimaleikjunum.

Það var hangikjötsveisla fyrir Aftureldingarleikinn. Pétur tónlistarstjóri leggur lokahönd á meðlætið, uppstúf, rauðkál og Ora grænar baunir.
Að sjálfsögðu er rekin verslun og veitingasala. Það þarf harðsnúið lið í sjoppureksturinn, stilla upp vöruúrvalinu, hella upp á kaffi, smyrja brauð og taka til meðlæti handa blaðamönnum, dómurum o.s.frv. Þegar hitnar í kolunum þá er svo auðvitað nauðsynlegt að kæla sig niður með ís.

Axel búinn að stilla upp frystinum.

Dugnaðarforkar í sjoppunni gera allt klárt.
Að sjálfsögðu koma margir fleiri við sögu en þeir sem náðust á mynd, miðasölufólkið, dyraverðirnir, barnagæsluhópurinn, fánaberarnir, krakkarnir á kústunum og svo mætti lengi telja. Við færum öllu þessu fólki bestu þakkir fyrir þeirra frábæru vinnu sem meðal annars skapar þá flottu umgjörð sem er um heimaleiki Akureyrar Handboltafélags.
Hér má svo sjá fleiri myndir Þóris frá undirbúningnum.