Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Strákarnir léku á alls oddi í dag17. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarHaukarnir heldur betur teknir í bakaríið Það reiknuðu örugglega allir með hörkuslag í Höllinni í kvöld þegar Akureyri tók á móti Haukum í Olís-deildinni. Og það má svo sannarlega segja að upphaf leiksins benti líka til þess. Strax á fyrstu mínútu varð Akureyri fyrir því áfalli að Heimir Örn Árnason sneri illa á sér ökklann og varð að haltra útaf og kom ekki meira við sögu í leiknum.Heimir lá allan leikinn með íspoka við snúinn öklann
Stöðu Heimis í sókninni tók Brynjar Hólm Grétarsson en hans leiktími varð ekki langur því í sinni fyrstu sókn fékk hann duglegt högg á höndina og varð að yfirgefa völlinn. Brynjar var skömmu síðar sendur upp á sjúkrahús með umbúnað um höndina og kom ekki heldur við sögu meir. Haukarnir bitu sem sé frá sér í vörninni og jafnt á fyrstu tölum upp í 3-3 en þá komu líka sex Akureyrarmörk í röð og staðan skyndilega orðin 9-3 eftir fjórtán mínútna leik. Vörn Akureyrar var í einu orði sagt stórkostleg og Tomas Olason í miklum ham þar fyrir aftan. Haukar virtust algjörlega ráðalausir og Akureyri hélt áfram að auka muninn. Eftir rúmar sautján mínútur var staðan orðin 11-4 en þá missti Akureyri enn einn leikmanninn í meðsli. Að þessu sinni var það Ingimundur sem fékk mikið högg á höndina og skipti engum togum að hann þurfti að yfirgefa Höllina og leita aðhlynningar á sjúkrahúsinu og kom ekki við sögu meir í leiknum Þessi skakkaföll virtust bara þjappa liðinu saman og áfram var haldið að valta yfir Haukana og varð munurinn mestur níu mörk, 13-4 áður en Haukar náðu að skora sitt fimmta mark sem kom eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Það segir allt sem segja þarf um vörn og markvörslu Akureyrarliðsins. Haukar klóruðu í bakkann það sem eftir var hálfleiksins og minnkuðu muninn í sjö mörk með heldur billegu vítakasti á lokasekúndu hálfleiksins, staðan 16-9 fyrir Akureyri.Elías Már reyndist heldur betur erfiður sínum gömlu félögum
Tomas Olason varði 11 skot í hálfleiknum - þar af eitt vítakast. Elías Már Halldórsson var gríðarlega öflugur og skoraði fjögur glæsimörk í hálfleiknum, Kristján Orri Jóhannsson var með 5 mörk, þar af 3 úr vítum. Heiðar Þór Aðalsteinssson 4, Sigþór Árni Heimisson 2 og Bergvin Þór Gíslason 1 mark. Menn reiknuðu með að Haukarnir kæmu dýrvitlausir í seinni hálfleikinn, þeir reyndu ýmislegt léku t.d. með aukamann í sókninni um tíma án þess að það skilaði miklu. Þeim tókst reyndar að minnka muninn niður í fimm mörk, 17-12 og seinna 19-14 en þá gaf Akureyri bara í á nýjan leik. Fimm mörk heimamanna í röð juku forskotið upp í tíu mörk, 24-14 áður en Haukar náðu að svara. Aftur varð munurinn tíu mörk í stöðunni 28-18 og aðeins fjórar mínútur til leiksloka. Á þeim tíma sem eftir var slökuðu Akureyringar aðeins á, klúðruðu vítakasti og nokkrum ágætum færum. Haukar náðu í staðinn aðeins að bjarga andlitinu og skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins þannig að lokatölurnar urðu sjö marka sigur, 28-21.Sverre stýrði vörninni af gríðarlegum krafti
Allt liðið lék frábærlega og segja má að varnarleikurinn hafi lagt grunninn að sigrinum en baráttan þar var hreint til fyrirmyndar og eins og áður hefur komið fram var Tomas stórkostlegur í markinu þar fyrir aftan. Sóknarleikurinn gekk líka mjög vel, það að missa þrjár skyttur út úr liðinu hefði trúlega getað farið með leikinn en Sigþór Árni, Bergvin Þór og Elías Már öxluðu ábyrgðina frábærlega. Sissi var frábær á miðjunni og mataði hornamennina Kristján Orra og Heiðar Þór af stakri list og þeir þökkuðu fyrir sig með því að raða inn mörkum úr hornunum. Sem sé frábær sigur liðsheildarinnar.Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 10 (3 úr vítum), Heiðar Þór Aðalsteinsson 8, Elías Már Halldórsson og Sigþór Árni Heimisson 4 hvor, og Bergvin Þór Gíslason 2. Tomas stóð í markinu allan leikinn og varði 18 skot – þar af 1 vítakast.Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk, Árni Steinn Steinþórsson, Tjörvi Þorgeirsson og Þröstur Þráinsson 4 mörk hver, Einar Pétur Pétursson og Heimir Óli Heimisson 2 mörk hvor og loks Egill Eiríksson með 1 mark. Markveði hauka þeir Einar Ólafur Vilmundarson og Einar Ólafur Vilmundarson vörðu 7 skot hvor, Einar eitt vítakast. Í lok leiksins var Tjörvi Þorgeirsson valinn besti maður Haukaliðsins en Kristján Orri Jóhannsson besti maður Akureyrarliðsins og fengu báðir að vanda glæsilega matarkörfu frá Norðlenska að launum.Tjörvi Þorgeirsson valinn maður Haukaliðsins - ekkert of broshýr samt sem áður
Hlynur Jóhannsson afhenti Kristjáni Orra matarkörfuna góðu eftir leikinn
Með sigrinum fór Akureyri uppfyrir Hauka í stigatöflunni og ekki var verra að nú stendur Akureyri betur í innbyrðis leikjum liðanna en Haukar unnu fyrsta leikinn með 1 marki en Akureyri vinnur nú með 7 mörkum. Næsti leikur Akureyrar er útileikur gegn Stjörnunni á laugardaginn og síðan koma raunar tveir útileikir til viðbótar, gegn Val og ÍBV. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook