Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Við völdum Bergvin mann leiksins9. desember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri með sjö marka sigur á Fjölni Fjölnismenn buðu upp á mikla stemmingu í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi í dag og stefndu að því að setja áhorfendamet. Það var líka greinilegt strax í upphafi að Fjölnismenn gáfu allt í leikinn og báru enga virðingu fyrir úrvalsdeidlarliðinu. Að sama skapi virtist Akureyrarliðið engan veginn mæta af krafti í leikinn enda jafnt á flestum tölum allan fyrri hálfleikinn. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Fjölnismenn tveggja marka forystu en munurinn var þó aðeins eitt mark, 13-12 fyrir Fjölni í hálfleik. Atli hefur greinilega brýnt menn í hálfleik því Akureyri náði fljótt forystunni og frumkvæðinu í leiknum. Lengst af seinni hálfleik munaði fjórum mörkum en eftir að Akureyri náði fimm marka forystu 20-25 slökuðu menn á og Fjölnir minnkaði muninn í tvö mörk, 23-25. Þar með var allur kraftur úr heimamönnum og Akureyri skoraði sex mörk gegn einu á lokamínútunum þannig að sjö marka sigur 24-31 var í höfn. Atli lagði greinilega upp með að spara leikmenn sem hafa verið í meiðslum, þannig kom Sigþór Árni Heimisson ekkert við sögu í leiknum, Ingimundur lék mjög stutt svo og Elías Már sem var veikur í gær. Bergvin Þór Gíslason lék stóran hluta leiksins í sókninni og átti prýðisleik, skoraði tvö mörk og fiskaði vítaköst á færibandi. Sömuleiðis lék Heimir Örn Árnason mikið í sókninni. Kristján Orri Jóhannsson var öruggur á vítalínunni og skoraði úr öllum sjö vítunum sem liðið fékk. Fjölnismenn geta verið nokkuð sáttir með sinn leik en þeir voru í ágætis málum lengi vel í leiknum. Markahæstur þeirra var unglingalandsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson sem skoraði nánast að vild með glæsilegum skotum. Hann endaði með 10 mörk í leiknum og klárlega bráðefnilegum leikmaður þar á ferðinni.Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 10 (7 úr vítum), Heiðar Þór Aðalsteinsson 8, Daníel Örn Einarsson 4, Halldór Logi Árnason 3, Bergvin Þór Gíslason, Heimir Örn Árnason og Þrándur Gíslason 2 mörk hver. Tomas stóð í markinu allan leikinn og varði ein 18 skot í leiknum. Akureyri er þar með komið í 8-liða úrslit bikarkeppninnar en væntanlega verða þeir leikir spilaðir í byrjun febrúar. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook