Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Kristján Orri var öflugur um helgina1. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri vann báða æfingaleikina um helgina Meistaraflokkur Akureyrar mætti suður um helgina og lék tvo æfingaleiki, sá fyrri var gegn HK en sá síðari gegn Stjörnunni. Akureyri náði að sigra báða leikina en eins og oft vill verða með æfingaleiki þá var spilamennskan sveiflukennd. Í báðum leikjum helgarinnar voru spilaðir þrír 20 mínútna þriðjungar. Á föstudagskvöldinu var leikið gegn HK í Kórnum, nokkuð vantaði í lið HK bæði vegna meiðsla sem og að stutt var í leik hjá 2. flokk félagsins. Bæði lið voru því þunnskipuð og lítið hægt að skipta mönnum inná en Bjarki Sigurðsson þjálfari HK lék í leiknum en hann verður 48 ára á árinu! Heimir og Ingimundur léku til að mynda ekki í leiknum en þegar upp var staðið sigraði Akureyri með 4 mörkum. Um hádegisbil á laugardeginum mætti Akureyri svo í Garðabæinn og lék gegn Stjörnunni. Stjarnan var einnig í nokkrum vandræðum með mannskapinn sinn en þeirra nýjasti liðsmaður, serbinn Milos Ivosevic, lék til að mynda ekki í leiknum. Okkar menn náðu strax ágætu taki á leiknum og leiddu allan leikinn með 1-3 mörkum. Eftir fyrsta þriðjung var staðan 7-8 fyrir Akureyri en Andri Snær meiddist snemma og kom ekki meira við sögu í leiknum og óvíst hvenær hann snýr aftur. Akureyri vann miðjuhlutann einnig með einu marki eða 8-9 og var því staðan 15-17 fyrir lokapartinn. Í síðasta hlutanum var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og fór hann einnig 8-9 og lokatölur því 23-26. Mörk Akureyrar í leiknum: Kristján Orri 12 mörk, Sigþór Árni 6 mörk, Heiðar Þór 3 mörk, Bergvin Þór 2 mörk og Halldór Logi, Þrándur og Ingimundur 1 mark hver. Markmennirnir okkar þrír skiptu þriðjungunum á milli sín, Tomas lék fyrsta, Hreiðar Leví þann annan og Bjarki spilaði síðasta hlutann. Allir stóðu þeir sig með mikilli prýði en vörnin fyrir framan þá var einnig öflug. Sóknarleikurinn var hinsvegar sveiflukenndur og gekk oft brösuglega að opna vörn Stjörnunnar þegar þeim tókst að stilla upp í vörn. Nýjasti leikmaður Akureyrar, hinn danski Nicklas Selvig, var veðurtepptur í Færeyjum og gat því ekki spilað með liðinu um helgina. Hann náði þó að sjá mestan hluta af leiknum gegn Stjörnunni og hitta svo mannskapinn eftir leik. Þó að úrslitin séu ekki endilega það mikilvægasta í æfingaleikjunum þá er auðvitað mjög jákvætt að liðið skyldi þó sigra báða leikina og vonandi merki um að liðið komi sterkt til baka eftir HM hléið. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook