Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Sverre og Ingimundur bundu vörnina frábærlega saman í dag21. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarSanngjarn sex marka sigur á meisturum ÍBV Það er óhætt að segja að Akureyrarliðið hafi sýnt sínar bestu hliðar í dag þegar þeir tóku á móti ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum ÍBV. Þetta var í sjötta sinn sem Akureyri og ÍBV mætast á tveim árum og hafði ÍBV unnið alla fimm leikina þannig að sagan var heldur betur með þeim. Meiðslalisti Akureyrar lengdist fyrir leikinn því að Sigþór Árni Heimisson sneri á sér ökkla á æfingu í vikunni og því ekki leikfær í dag. En Akureyrarliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir tæplega níu mínútna leik var staðan 5-1 fyrir heimamenn. Vestmannaeyingar komu til baka og minnkuðu muninn í 7-5 en Magnús Stefánsson frá Fagraskógi hafði þá dregið vagninn fyrir þá og skorað þrjú mörk. Hreiðar Levý kom í Akureyrarmarkið í þessari stöðu og átti heldur betur magnaða innkomu sem heimamenn nýttu vel og leiddu með fjórum mörkum, 13-9 í hálfleik. Eyjamenn mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleiknum og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Næstu mínútur hélst munurinn 2 til 3 mörk fyrir Akureyri en Vestmannaeyingar náðu að minnka muninn í eitt mark, 17-16 eftir tólf mínútna leik í seinni hálfleiknum. Þeir fengu kjörið tækifæri til að jafna leikinn en Hreiðar Levý var ekki á því og varði vítakast frá Theodóri, raunar varði hann alls þrjú vítaköst Eyjamanna í leiknum. Í kjölfarið má segja að hafi runnið hamur á Akureyrarliðið. Vörnin sem hafði reyndar verið afar góð hreinlega skellti í lás. Sverre og Ingimundur börðust hreint frábærlega í vörninni og kveiktu svo sannarlega í sínum mönnum. Hreiðar fór í kjölfarið hamförum í markinu þannig að ÍBV skoraði einungis þrjú mörk á síðustu átján mínútum leiksins! Sóknarleikurinn var afbragðsgóður og yfirvegaður þannig að jafnt og þétt byggðist upp örugg forysta á nýjan leik. Kristján Orri Jóhannsson og Nicklas náðu vel saman og röðuðu inn mörkum. Undir lokin skipti Atli „unglingunum“ inná og stóðu þeir sig vel. Arnór Þorri Þorsteinsson innsiglaði sex marka sigur með þrumuskoti gegnum Eyjavörnina og fyrsti sigur á ÍBV í sex leikjum staðreynd. Eins og áður segir átti Hreiðar Levý magnaðan leik og var valinn maður Akureyrarliðsins en það er ástæða til að hrósa öllu liðinu fyrir frábæra baráttu sem skilaði frábærum sigri. Kristján Orri og Nicklas voru frábærir á hægri vængnum og Heimir Örn og Ingimundur stjórnuðu sóknarleiknum af mikilli yfirvegun. Það var þó einkum magnaður varnarleikur og markvarsla sem skóp sigurinn, enn og aftur ástæða til að hrósa öllu liðinu fyrir frábæra skemmtun í dag.Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 9 (3 úr vítum), Nicklas Selvig 5, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Þór Gíslason og Halldór Logi Árnason 2 hvor, Arnór Þorri Þorsteinsson, Heiðar Þór Aðalsteinsson, Ingimundur Ingimundarson og Þrándur Gíslason 1 mark hver. Í markinu varði Hreiðar Levý 17 skot, þar af 3 vítaköst.Mörk ÍBV: Magnús Stefánsson 5, Einar Sverrisson 4, Andri Heimir Friðriksson 3, Theodór Sigubjörnsson 3, Brynjar Karl Óskarsson, Guðni Ingvarsson, Grétar Þór Eyþórsson og Hákon Daði Styrmisson 1 mark hver. Í markinu vörðu Haukur Jónsson 7 skot og Kolbeinn Aron Ingibjargarson 6 skot. Næsti leikur Akureyrar er útileikur gegn Haukum laugardaginn 28. mars og síðan heimaleikur gegn FH mánudaginn 30. mars. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook