Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Akureyri var nálægt sigri í dag en allt kom fyrir ekki29. ágúst 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarNorðlenska: Afturelding kláraði mótið með fullt hús Nú var að ljúka lokaleik Opna Norðlenska en þar mættust Akureyri og Afturelding. Eftir að Akureyri hafði leitt allan fyrri hálfleikinn og byrjun þess síðari sigu Mosfellingar framúr og sigruðu að lokum 21-24. Afturelding sigrar því mótið með fullu húsi stiga en Akureyri tapaði öllum þrem leikjum sínum.
Akureyri spilaði sinn besta leik á mótinu í fyrri hálfleik og leiddi allan tímann. Gestirnir náðu að laga stöðuna fyrir lok hálfleiksins og var staðan í hálfleik 14-13. Tomas að verja vel og sóknin gekk mun betur en í fyrri leikjum mótsins.
Síðari hálfleikurinn byrjaði vel og náði liðið strax aftur að bæta við forskotið en svo kom arfaslakur kafli þar sem liðið skoraði ekki mark í rúmar 12 mínútur og gestirnir úr Mosfellsbænum gengu á lagið og komust tveimur mörkum yfir.
Þessi munur hélst út leikinn og gestirnir kláruðu leikinn með 21-24 sigri. Davíð Svansson kom í markið hjá gestunum í síðari hálfleik og átti magnaða innkomu og var maðurinn bakvið sigur Aftureldingar.
Akureyri lék á köflum mjög fínan bolta en þessi slaki kafli þar sem liðið skoraði ekki í rúmar 12 mínútur fór með leikinn. Mosfellingar spiluðu sinn leik í dag og eru verðskuldaðir sigurvegarar mótsins.
Vissulega svekkjandi að liðið skuli ekki hafa náð að vinna leik á mótinu en þetta eru í raun fyrstu æfingaleikir liðsins á meðan liðin fyrir sunnan hafa verið að leika reglulega að undanförnu. Það þarf að slípa liðið betur saman og vonandi að það takist fyrir byrjun Íslandsmótsins.
Mörk Akureyrar:
Kristján Orri Jóhannsson 5 (2 úr vítum), Heiðar Þór Aðalsteinsson 5 (1 úr víti), Brynjar Hólm Grétarsson 4, Halldór Logi Árnason 3, Hörður Másson 3 og Bergvin Þór Gíslason 1 mark.
Í markinu varði Tomas Olason 16 skot.
Mörk Aftureldingar:
Böðvar Páll Ásgeirsson 5, Jóhann Jóhannsson 5, Þrándur Roth Gíslason 5, Bjarki Lárusson 4 (4 úr vítum), Gestur Ingvarsson 2, Guðni Már Pétursson 1, Ágúst Birgisson 1 og Pétur Júníusson 1 mark.
Í markinu vörðu Davíð Svansson 14 skot og Sölvi Ólafsson 6 skot. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook