Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Fjölmargar vörslur Bernharðs komu ekki í veg fyrir tap í dag13. desember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar2. flokkur: Tap gegn Fram eftir hörkuleik Akureyri-1 tók á móti sterku liði Fram í lokaleik 2. flokks fyrir jólafrí. Strákarnir hafa verið óstöðugir í vetur en þeir hafa sýnt góðan leik á köflum en dottið niður þess á milli. Gestirnir byrjuðu leikinn mikið mun betur og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 2-6 og Ingimundur tók leikhlé. Strákarnir komust betur og betur í takt við leikinn og náðu að jafna metin í 9-9. Framarar héldu áfram að leiða leikinn en Akureyri var aldrei langt á eftir og var staðan 13-14 þegar flautað var til hálfleiks. Áfram var leikurinn í járnum í upphafi síðari hálfleiks en þegar 18 mínútur lifðu leiks komust strákarnir yfir í 18-17 og fengu tækifæri til að tvöfalda forystuna en þá hrökk allt í baklás. Gestirnir gengu á lagið og kláruðu leikinn með öguðum leik en þeir refsuðu vel fyrir öll mistök okkar manna og skoruðu ófá mörk úr hröðum sóknum. Lokatölur voru 24-30 en strákarnir geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki fengið neitt útúr leiknum. Bernharð Jónsson átti mjög góðan leik í markinu og var mikilvægur þáttur í því að strákarnir komu sér aftur inn í leikinn eftir erfiða byrjun. Arnþór Finnsson var öflugur á línunni og skoraði 8 mörk, Hafþór Vignisson, Heimir Pálsson og Vignir Jóhannsson Rist skoruðu allir 4 mörk á meðan Patrekur Stefánsson skoraði 2 og þeir Sigþór Jónsson og Daði Jónsson skoruðu 1 mark hver. Nú tekur við smá pása hjá liðinu og vonandi að menn læri af leiknum í dag og nái að fínpússa spilið betur, ef menn ná að fækka mistökunum þá getur liðið farið ansi langt í vetur. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook