Frábær byrjun hjá Ungmennaliðinu
| | 17. september 2016 - Akureyri handboltafélag skrifarGlæsilegur sigur í fyrsta leik UngmennaliðsinsUngmennalið Akureyrar hóf þátttöku sína í 1. deild meistaraflokks karla í dag með heimaleik gegn Ungmennaliði Vals. Skiljanlega vissu menn ekki alveg hvaða væntingar væru til liðanna en strax í upphafi leiks sýndi Akureyrarliðið að þeir væru mættir til leiks af fullri alvöru.
Eftir tíu mínútna leik var staðan 4-1 fyrir heimamenn og tíu mínútum síðar var staðan orðin 11-6 og ljóst að yfirburðir Akureyrarliðsins voru miklir. Arnar Fylkisson fór hamförum í markinu og í sóknarleiknum lék Arnór Þorri Þorsteinsson lausum hala og skoraði að vild.
Forystan jókst stöðugt og Valsmenn virtust ráðalausir þannig að átta mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 17-9 fyrir Akureyri. Arnar Fylkisson var þá kominn með 11 varin skot, þar af eitt vítakast auk þess að skora mark. Arnór Þorri skoraði 6 mörk og Birkir Guðlaugsson 5.
Þessi munur hélst framan af seinni hálfleik, reyndar slökuðu heimamenn nokkuð á klónni og Valsmönnum tókst að minnka muninn niður í fjögur mörk í stöðunni 23-19 en þá gáfu strákarnir vel í aftur og lokatölur öruggur sex marka sigur, 29-23.
Glæsileg frammistaða hjá strákunum sem sýndu að þeir eru til alls líklegir í 1. deildinni í vetur. Allir tóku þátt í leiknum og allflestir komust á blað í markaskoruninni.
Mörk Akureyrar: Arnór Þorri Þorsteinsson 6, Birkir Guðlaugsson 6 (3 úr vítum), Patrekur Stefánsson 6, Arnþór Finnsson 4, Vignir Jóhannsson 2, Arnar Fylkisson, Daði Jónsson, Hafþór Vignisson, Heimir Pálsson og Jóhann Einarsson 1 mark hver. Arnar Fylkisson stóð í markinu allan tímann og varði 17 skot, þar af 1 vítakast.
Í liði Vals var línumaðurinn Sveinn Jose Rivera langatkvæðamestur með 8 mörk. Sigurvin Jarl Ármannsson 4, Markús Björnsson 3, Jökull Sigurðsson, Rökkvi Finnsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson 2 mörk hver, Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Egill Magnússon 1 mark hvor. Hópurinn í dag: Aftari röð: Andri Snær Stefánsson þjálfari, Arnþór Finnsson, Hafþór Vignisson, Aron Tjörvi Gunnlaugsson, Benedikt Línberg, Jóhann Einarsson, Sigþór Jónsson, Arnór Þorri Þorsteinsson, Patrekur Stefánsson Fremri röð: Birkir Guðlaugsson, Heimir Pálsson, Arnar Fylkisson, Vignir Jóhannsson, Kristján Garðarsson, Almar Jónsson, Daði Jónsson
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri. |