Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Sverre hefur um ýmislegt að hugsa þessa dagana26. janúar 2017 - Akureyri handboltafélag skrifarSverre fer yfir stöðu Akureyrarliðsins Keppni í Olís deild karla hefst aftur fimmtudaginn 2. febrúar þegar Akureyri tekur á móti liði Vals í KA-Heimilinu. Heimasíðan ákvað að heyra í þjálfara okkar honum Sverre Andreas og heyra hvernig staðan er á liðinu eftir langa HM pásu.Það styttist í að tímabilið hefjist aftur eftir töluvert hlé. Við erum í 8.-10. sæti eins og staðan er núna, menn væntanlega stefna hærra enda var liðið komið á gott skrið ef frá eru taldir síðustu tveir leikir liðsins? Rétt, það var kominn fínn gangur í þetta hjá okkur þrátt fyrir oft erfiða stöðu á hópnum. Það sýnir bara karakterinn í liðinu en betur má ef duga skal. Það komu svo fram ákveðin veikleikamerki í síðustu 2 leikjunum sem við þurfum að taka alvarlega.Nú lék liðið tvo æfingaleiki fyrir sunnan um síðustu helgi, sigur vannst á ÍR-ingum og svo varð jafntefli niðurstaðan gegn Íslandsmeisturum Hauka. Hvernig fannst þér liðið koma útúr þessum leikjum? Búið var að skipuleggja tvær helgar undir æfingaleiki en við þurftum að afboða okkur fyrri helgina vegna þess að við vorum hreinlega ekki með lið til þess að fara í það verkefni. Staðan var ekki mikið skárri helgina eftir en við létum þó slag standa og fórum. Þeir leikir komu vel út og ég var mjög sáttur með hvernig við leystum það verkefni af hendi. Fengum meira út úr þessu en ég hafði fyrirfram talið. Hinsvegar vorum við mjög þunnskipaðir sem veldur mér áhyggjum. Við höfum verið að æfa á fáum mönnum í janúar og það er klárlega ekki það sem við vorum að vonast eftir. Robbi, Patti, Garðar og Binni hafa lítið náð að æfa með okkur í mánuðinum. Tómas, Igor, Hafþór og Garðar meiddust núna um daginn og enn óvíst hvenær þeir geta spilað með okkur á ný og svo eru Diddi, Benni og Karolis alveg úr myndinni þetta tímabilið. En liðsheildin er sterk, menn eru ákveðnir og láta aldrei stöðuna slá sig út af laginu. Við hugsum í lausnum og menn vinna jákvætt í kringum allt saman.Nú hafa ansi mikil meiðsli plagað okkar lið það sem af er vetri, Bergvin Þór spilaði um síðustu helgi, er hann klár í slaginn núna eftir ansi löng og erfið meiðsli? Það mun koma í ljós, hann spilaði síðast handbolta í mars í fyrra svo þetta mun taka hann einhvern tíma að komast af stað á ný og við verðum að gefa honum það svigrúm. En spilamennska hans gaf ástæðu til bjartsýni.Frábær tíðindi að Bergvin Þór sé allur að koma til
Brynjar Hólm var mjög öflugur í upphafi tímabilsins, en hann hefur ekki spilað síðan í október, hvernig er staðan á honum í dag? Hann þarf að fá einhverjar vikur í viðbót til að verða klár. Hann er á ágætis stað í sínu bataferli en á nokkuð í land enn.Ingimundur er aðstoðarþjálfari liðsins en hefur ekki enn spilað í vetur. Eru líkur á að hann komi inn í vörnina á síðari helmingnum? Diddi er því miður enn með verki í hné og á erfitt með að gera vissar hreyfingar. Við gerum ekki ráð fyrir honum.Ingimundur verður trúlega fyrst og fremst á hliðarlínunni næstu vikurnar
Sigþór Árni tók sér smá pásu fyrir áramót, hvernig er staðan á honum eftir eins og hálfs mánaðar hlé frá leikjum? Sissi þurfti á pásu að halda, annað var bara ekki boðlegt fyrir leikmanninn. Hann er að koma til og vonandi nær hann sér heilum núna út tímabilið. Við tökum þetta viku fyrir viku.Karolis Stropus meiddist illa gegn Aftureldingu og Bernharð markvörður varð fyrir leiðinlegum meiðslum á auga, getum við eitthvað reiknað með þeim? Stropus verður ekkert meira með og er það mikið áfall fyrir okkur enda mikilvægur í sókn og vörn. Bernharð þarf lengri tíma og því miður er alveg óvíst með hann.Að lokum, þá var þó nokkuð rætt um það fyrr í vetur að þú gætir hugsanlega dregið skóna fram á nýjan leik. Er það ennþá í stöðunni? Þar sem Diddi og Karolis eru dottnir út og Robbi er enn tæpur þá erum við ekki með leikmenn sem geta spilað þrist í vörn. Ég hef því verið að æfa með liðinu síðustu vikur og spilaði meðal annars þessa æfingaleiki um helgina og hafði gaman en það eru um tvö ár síðan ég spilaði síðast svo maður þarf tíma til að finna taktana aftur og svo eru bara einhverjir dagar í fertugt! Hinsvegar ef ég get aðstoðað þá mun ég gera það, klárlega í ljósi stöðunnar á leikmannahópnum okkar. Við þökkum Sverre kærlega fyrir spjallið og hvetjum Akureyringa eindregið til að koma sér aftur í handboltagírinn og mæta í KA-Heimilið í næstu viku. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook