Á framhaldsaðalfundi Akureyrar Handboltafélags sem fram fór í kvöld tilkynntum við, umsjónarmenn og höfundar heimasíðu félagsins að í ljósi breyttra aðstæðna hefðum við ákveðið að láta staðar numið. Eftirfarandi tilkynning var lesin upp á fundinum:
Strax í upphafi samstarfs KA og Þórs um Akureyri Handboltafélag, sumarið 2006, var leitað til okkar um að útbúa og sjá um vefsíðu Akureyrar Handboltafélags. Kom sú beiðni til vegna þess starfs sem við höfðum áður unnið fyrir handknattleiksdeild KA.
Við urðum við þessari beiðni og höfum í þessi ellefu ár haldið úti síðunni og þróað hana áfram sem framlag okkar til þessa samstarfs félaganna með handboltann á Akureyri að leiðarljósi.
Nú þegar samstarfi félaganna KA og Þórs er lokið viljum við að öll sú vinna sem við höfum lagt fram til þessa samstarfs standi áfram sem heimild um það tímabil sem samstarfið stóð yfir. Við höfum haft það að leiðarljósi að draga ekki taum annars aðilans á kostnað hins enda markmiðið að vinna fyrir hið sameiginlega lið.
Undanfarið hafa aðilar frá báðum félögum viðrað óskir um að fá að nýta okkar verk sér til hagsbóta í framtíðinni. Í ljósi þess sem að framan greinir þá lítum við svo á að við höfum verið að vinna í þágu samstarfsins og látum því hér með staðar numið.
Vefur okkar fyrir Akureyri Handboltafélag mun þó lifa áfram eins og hann er í dag sem minnisvarði og heimild um þau ellefu ár sem samstarfið stóð yfir. Við munum því ekki afhenda verk okkar öðru hvoru félaginu til afnota.
Það er okkar von að bæði félög starfi áfram að heilindum fyrir handboltann á Akureyri og líti björtum augum til framtíðar í breyttu umhverfi.
Akureyri 18. maí 2017
Stefán Jóhannsson
Ágúst Stefánsson
Á næstunni mun því þessi vefur verða færður á annað lén (slóð) sem verður tilkynnt þegar þar að kemur. Væntanlega tekur í kjölfarið við nýr vefur og viðmót á þessari slóð sem flytur fréttir og upplýsingar fyrir Akureyri Handboltafélag í núverandi mynd.
Jafnframt mun núverandi Facebook síða félagsins verða lögð til hliðar og verða á sama hátt minnismerki um sögu samstarfs KA og Þórs. Nafni hennar verður breytt og ný Facebook síða opnuð fyrir núverandi starfsemi Akureyrar Handboltafélags.
Með kærri þökk fyrir samstarfið í gegnum árin.
Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson