Akureyri - FH 25-20, svipmyndir
19. nóvember 2015
Akureyri tók á móti FH í KA-Heimilinu í 14. umferð Olís deildar karla þann 19. nóvember 2015. Strax á upphafsmínútu leiksins dró til tíðinda þegar Halldór Logi Árnason fékk beint rautt spjald fyrir litlar sakir en heimamenn létu það ekki á sig fá og yfirspiluðu gestina. Ingimundur Ingimundarson skoraði með neglu rétt áður en fyrri hálfleik lauk og Akureyri leiddi 14-7 þegar flautað var til hlés.
Síðari hálfleikur byrjaði vel fyrir heimamenn og fyrr en varir var staðan orðin 19-10 og spurningin í raun aðeins hve stór sigurinn yrði. En þá fór vélin að hiksta og gestirnir gengu á lagið, munurinn minnkaði og fengu FH-ingar tækifæri á að minnka forskotið niður í tvö mörk en tókst ekki. Akureyri endaði leikinn svo betur og landaði góðum 25-20 sigri.
Fyrir leikinn var Akureyri í 9. sæti deildarinnar en FH í því 7. en með sigrinum skaust Akureyri upp fyrir FH. Eftir leik voru þjálfarar liðanna þeir Sverre Andreas Jakobsson og Halldór Jóhann Sigfússon teknir tali.