Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
ÍR vann fyrsta leik, Akureyri verður að vinna næsta - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2014-15

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    ÍR - Akureyri  24-20 (13-12)
8-liða úrslit karla
Austurberg
Mið 8. apríl 2015 klukkan: 19:30
Dómarar: Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson
Umfjöllun

Heiddi og Hreiðar voru bestu menn Akureyrar í kvöld



8. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

ÍR vann fyrsta leik, Akureyri verður að vinna næsta

Þá er fyrsta leik í viðureign ÍR og Akureyrar lokið og það með sigri ÍR-inga. Þetta var alvöru úrslitakeppnisleikur, mikil barátta og hiti í mönnum þó handboltinn hafi ekki verið ýkja fallegur. Mikil óvissa hafði verið fyrir leik hvort ÍR myndi geta stillt upp sínu sterkasta liði en það kom svo engum á óvart að þeir voru svo með enda gefa menn allt í úrslitakeppnina.

Akureyri byrjaði leikinn og skoraði fyrsta markið þegar Kristján Orri skoraði úr horninu eftir frábæra sendingu frá Sissa. Björgvin Hólmgeirsson byrjaði með ÍR og fór mikinn í upphafi, hann var óstöðvandi skoraði mörk fyrir utan og galopnaði vörnina fyrir liðsfélagana á víxl. Það var því viss léttir þegar Björgvin meiddist og kom ekki meira við sögu.

Staðan var 8-5 fyrir ÍR þegar Björgvin yfirgaf völlinn og það sem eftir lifði fyrri hálfleiks náði Akureyri að minnka forskotið og jafnaði á endanum í 12-12 þegar fyrri hálfleikur var við það að klárast. Þá hinsvegar geystust ÍR-ingar upp og skutu á markið, dómararnir töldu Kristján Orra hafa sett fótinn vísvitandi fyrir skotið og gáfu honum brottvísun, Atli Hilmarsson var alls ekki sáttur og lét dómarana heyra það. Atli fékk einnig brottvísun og til að bæta gráu ofan á svart skoruðu ÍR-ingar úr aukakastinu og voru yfir í hálfleik 13-12.


Atli fer yfir málin í leikhléi. Mynd: Ernir Eyjólfsson, visir.is

Mikil spenna einkenndi svo síðari hálfleikinn en aldrei tókst Akureyringum að jafna metin en ÍR-ingar náðu heldur aldrei að sleppa lengra en þremur mörkum frá okkar mönnum fyrr en undir lok leiks. Þegar upp var staðið sigraði ÍR 24-20 og áttu sigurinn skilinn.

Akureyri var að spila ágætis vörn lengstum og Hreiðar varði vel eftir að hann kom inná. Reyndar vantaði oft herslumuninn á að klára brotin til að standa vörnina almennilega en það vantaði smá neista í menn í dag. En þar sem Björgvin fór fljótt útaf og kom ekki aftur inná eftir öfluga byrjun hefði ég viljað sjá einhver ráð til að stöðva Arnar Birki í hægri skyttu ÍR. Annan leikinn í röð lék drengurinn á alls oddi og skoraði næstum að vild og opnaði fyrir samherja sína. Hefði verið áhugavert að prófa að taka hann úr umferð og sjá hvernig ÍR myndi tækla það en Akureyrarliðið prófaði það einungis þegar leikurinn var í raun búinn.

Eitt er ljóst að lið Akureyrar á klárlega nóg inni fyrir næsta leik. Tomas fann sig ekki í markinu en Hreiðar kom að vísu sterkur inn. Halldór Logi átti erfitt uppdráttar á línunni og hefur oft nýtt færin betur, Þrándur hefði alveg mátt fá sénsinn í kvöld. Nicklas Selvig náði í nokkur vítaköst og skoraði 2 mörk en á tíðum reyndi hann kannski full mikið.

Ég hefði viljað sjá Brynjar Hólm fá meiri séns í dag en drengurinn kom virkilega sterkur inn í síðasta leik en fékk varla tækifæri í kvöld. Einnig hefði ég viljað sjá Ingimund spila einhvern sóknarleik en hann hefur verið öflugur sóknarlega eftir áramót. Sigþór átti nokkrar flottar sendingar sem gáfu mörk en annars hefur oft komið meira frá Sissa.


Heiðar Þór með eitt af átta mörkum af vítalínunni. Mynd: Ernir Eyjólfsson, visir.is

Bergvin var í erfiðleikum sóknarlega og nokkuð ljóst að hann gengur ekki heill til skógar eftir bakslagið í FH leiknum á dögunum. Kristján Orri og Heiðar Þór sáust minna í dag en oft áður en nýttu hornafærin sín vel. Þá var Heiddi mjög öruggur á vítalínunni og skoraði 8 mörk úr 9 vítum, vonandi halda vítin áfram að gefa enda er liðið að fá mikið af vítum. Heimir Örn sótti nokkur vítaköst í leiknum og stjórnaði spilinu en heilt yfir þá varð sóknin liðinu að falli í dag. Hvort að 6-0 vörn ÍR hafi komið mönnum svona á óvart veit ég ekki en ég trúi ekki að menn muni leika svona tvo leiki í röð.

Þó leikurinn í kvöld hafi tapast þá verð ég að viðurkenna það að það var ótrúlega gaman að upplifa þennan leik og stemninguna. Mikið hefur maður saknað 8-liða úrslitakeppni og hvet ég því alla til að mæta í Höllina á föstudaginn til að upplifa þessa stöku snilld. Mætum og styðjum Akureyri í mikilvægasta leik tímabilsins, sigur tryggir oddaleik á sunnudaginn á meðan tap þýðir einfaldlega sumarfrí. Það er gjörsamlega allt undir í þessum leik!

Tengdar fréttir

Heimir, Sverre, Atli og Bjarni ætla ekki í sumarfrí strax







9. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir fyrsta leikinn í úrslitakeppninn

Það eru að sjálfsögðu til nokkur viðtöl við þjálfara og leikmenn Akureyrar og ÍR eftir leikinn í Austurbergi í gærkvöldi. Við byrjum á viðtölum Ívars Benediktssonar við Atla Hilmarsson og Svavar Ólafsson, markvörð ÍR sem heldur betur reyndist þeim betri en enginn.

Atli: Komumst aldrei í gírinn

„Við vorum alls ekki nógu ferskir, hvorki í sókn né vörn. Við komumst aldrei í gírinn,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, vonsvikinn eftir fjögurra marka tap, 24:20, fyrir ÍR í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik í Austurbergi.

„Við lékum mikið betur gegn ÍR hér í Austurbergi í lokaleik deildarkeppninni en að þessu sinni,“ sagði Atli og vildi ekki meina að leikurinn sem hann vitnar í á síðasta fimmtudag hafi einhvern hátt blekkt hans menn. „Við lékum af meiri krafti þá en nú auk þess sem sjálfstraustið var meira þá en nú. Mér fannst vanta upp á það núna. Menn verða að vera tilbúnir nú þegar úrslitakeppnin er hafin,“ sagði Atli sem hefur ekki langan tíma til þess að snúa við blaðinu með lærisveinum sínum.

Liðin mætast öðru sinni á Akureyri á föstudagskvöldið. Þann leik verða Akureyringar að vinna ef þeir ætla sér ekki í sumarfrí.
„Við verðum að vera klárir á föstudaginn nú þegar við erum komnir með bakið upp að vegg. Við skuldum fólkinu okkar fyrri norðan að leika mikið betur og ég hef fulla trú á að menn geta gert það. En til þess verðum við að ná góðum leik og kreista allt fram sem við eigum,“ segir Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar.



Svavar Ólafsson Ég varð að verja

„Ég er virkilega sáttur við vörnina í kvöld og þar af leiðandi varð ég að verja, annað kom ekki til greina,“ sagði Svavar Ólafsson, markvörður ÍR, og einn besti leikmaður liðsins þegar ÍR-ingar unnu Akureyringa, 24:20, í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik í Austurbergi.
Svavar varði 17 skot, þar af eitt vítakast og var með nærri 50% markvörslu. Svavar segir ÍR-liðið hafa undirbúið sig afar vel fyrir leikinn eftir að hafa aðeins náð einu stigi úr sex síðustu leikjunum í deildarkeppninni. „Góður undirbúningur skilaði sér í þessum leik. Það var gott að fá Björgvin Þór og Jón Heiðar inn í liðið á nýjan leik. Jón Heiðar er frábær í vörninni og frábært að hafa hann fyrir framan sig.
Það verður erfitt að fara norður og við búum okkur undir slagsmál frá upphafi til enda,“ sagði Svavar.




Hjá visir.is var það blaðamaðurinn Eiríkur Stefán Ásgeirsson sem ræddi við Atla Hilmarsson og ÍR-ingana Bjarna Fritzsson og Arnar Birki Hálfdánsson eftir leikinn.

Atli: Mér fannst þetta rangur dómur

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, segir að hans menn hafi einfaldlega ekki spilað nógu vel gegn ÍR í kvöld. Niðurstaðan var fjögurra marka tap.
„Við vorum ekki góðir í dag og komumst aldrei almennilega í gang. Við eigum fullt inni, bæði í vörn og sókn. Það féll fullmikið með þeim í dag,“ sagði Atli sem sagði að sóknarleikurinn hafi brugðist í dag.

„Þar að auki fengum við ódýr mörk á okkur og nýttum illa tækifæri sem við fengum í yfirtölu og annað slíkt. Vörnin var að standa ágætlega en samt gekk illa að refsa þeim með hraðaupphlaupum.
„Við höfum sýnt í síðustu leikjum að við getum spilað mun betur en við gerðum í kvöld og við verðum að framkalla það aftur. Nú er að duga eða drepast á föstudaginn og ekkert annað að gera en að treysta á okkur sjálfa og okkar fólk.“

Umdeilt atvik átti sér stað í lok fyrri hálfleiks er Kristján Orri Jóhannsson fékk brottvísun fyrir að verja skot með fætinum. Kristján Orri fékk brottvísun og Atli líka fyrir mótmæli. Til að bæta gráu á svart skoruðu ÍR-ingar úr aukakastinu sem var tekið eftir að leiktíminn rann út í fyrri hálfleik.
„Það er í raun óafsakanlegt hjá mér og algjör óþarfi. Mér fannst þetta samt rangur dómur. Mér fannst Kristján hlaupa bara fyrir skotið og fá boltann í sig. Ég get ekki annað séð en að hann hafi bara stigið í löppina og fengið skotið í sig. Þess vegna var ég svona ósáttur.
En kannski sá ég þetta vitlaust. Það verður bara að koma í ljós.“

Bjarni: Áhættan borgaði sig

Bjarni Fritzsson var ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld og er liðið komið í góða stöðu í einvígi sínu gegn Akureyri.
„Við vorum með yfirhöndina allan tímann sem var mikilvægt enda komu þeir með sín áhlaup,“ sagði Bjarni eftir leikinn í kvöld. „Vörnin okkar góð og það komu mikilvæg augnablik í síðari hálfleik sem við nýttum okkur vel.“

Hann hrósaði sóknarleik sinna manna og sagði að vinna síðustu vikna væri að skila sér.
„Sóknin var góð og ég er mjög ánægður með strákana. Þeir voru að gera vel, tóku skynsamlegar ákvarðanir og skiluðu þessu vel af sér. Ég er hrikalega ánægður með þá,“ sagði hann.
„Það var svo skemmtileg áhætta að kýla á 6-0 vörn í fyrsta sinn í vetur hjá okkur og það hefur sjálfsagt komið þeim talsvert á óvart. Jón Heiðar og Davíð voru hrikalega öflugir í þristunum og Svavar tók svo mikilvæg skot á síðasta korterinu sem gaf okkur mjög mikið.“

Þetta var fyrsti sigur ÍR síðan í byrjun mars en þrátt fyrir það segir Bjarni að hann hafi tekið eftir stíganda hjá sínum mönnum.
„Síðustu tveir leikir hafa verið fínir hjá okkur. En við höfum misst nokkra menn og það tekur tíma að púsla því saman aftur og fá rútínuna aftur í gang. Mér finnst að við höfum náð að finna taktinn á ný og gott að geta tekið næsta skref og unnið í dag.“

Hann vissi ekki hvernig staðan væri á Björgvini sem spilaði fyrsta stundarfjórðunginn í dag. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í fæti og misst af síðustu leikjum.
„Hann gaf okkur þrjú mörk í dag og byrjaði af miklum krafti. En við eigum fleiri menn í þessari stöðu og við verðum bara að sjá til hvort að Björgvin geti spilað eitthvað meira með okkur.“


Bjarni kynntur til leiks í Íþróttahöllinni

Arnar Birkir: Gaman að vinna aftur

Skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson var drjúgur fyrir ÍR í kvöld, sérstaklega á lokakaflanum þegar ÍR náði að síga fram úr gestunum frá Akureyri.
„Það var mjög gott að fá Jón Heiðar og Björgvin aftur inn. Ég hefði þó auðvitað hafa Björgvin aðeins lengur inn á,“ sagði Arnar Birkir og brosti en hann skoraði sex mörk fyrir ÍR í kvöld.
„Við spiluðum boltanum betur og leituðum að betri færum. Það var meiri yfirvegun hjá okkur og það skilaði miklu.
Þetta hefur verið hörmulegt hjá okkur í 4-5 leikjum og það er gott að vinna aftur. Ég var búinn að gleyma hvernig sú tilfinning var,“ segir hann. „En við erum ekki hættir og ætlum að mæta dýrvitlausir til leiks á föstudaginn.“


Arnar Birkir skorar fyrir ÍR í Höllinni

Að endingu eru hér viðtöl við Sverre og Heimi Örn en þau birtust á vefnum fimmeinn.is:

Sverre: Ég fer ekki í sumarfrí á mínum heimavelli

Sverre sagði að það hefði vantað örlítið uppá að menn kæmu sér almennilega í leikinn, tækifærin hefðu gefist til þess en menn hefðu verið að fara illa með færi og ekki að hjálpa markvörðunum vel. Eftir að þeir hefðu náð að jafna og með góða stöðu í fyrri hálfeik hefðu ÍR einfaldlega verið sterkari í kvöld.

Heimir Örn: Ruslatunnan fljúgandi eina sem gladdi augað

Heimir Örn Árnason leikmaður Akureyrar var svekktur með úrslitin á móti ÍR og sagði að leikurinn hefði verið furðulegur, það þyrfti að gasa menn upp fyrir seinni leikinn. Það hefði lítið fútt verið í þessu og ekki mikið sem segði að hér hefði verið úrslitakeppni.
Það hefði vantað alla baráttu og að menn misstu blóð, menn voru bara vinir eftir leik og eina sem gladdi augað var ruslatunna sem áhorfandi fleygði inn á völlinn í átt að dómurum.



Sveinbjörn og félagar styðja sko sína menn!



8. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Baráttukveðjur frá Aue fyrir kvöldið!

Það er svo sannarlega beðið með mikilli eftirvæntingu eftir stórleik ÍR og Akureyrar í kvöld klukkan 19:30. Leikurinn fer fram í Austurbergi og við hvetjum alla sem komast til að mæta á svæðið. Það eru þó auðvitað margir sem ekki komast á leikinn, margir eru staðsettir á Akureyri en sumir eru lengra frá.

Þýska liðið Aue hefur að skipa mörgum fyrrverandi leikmönnum Akureyrar og Rúnar Sigtryggsson fyrrum þjálfari Akureyrar stjórnar sínum mönnum. Það er nokkuð ljóst að menn fylgjast vel með í Þýskalandinu og styðja svo sannarlega sitt lið! Þessi glæsilega mynd kom í dag þar sem Akureyrarliðinu eru sendar baráttukveðjur frá Aue. Sannarlega glæsilegt og vonandi að þetta hjálpi mönnum að sækja sigur í kvöld, áfram Akureyri!


Sigtryggur Daði Rúnarsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Sveinbjörn Pétursson í Akureyrarbúningnum



HSÍ þarf líklegast að finna nýjan leiktíma

7. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leiknum gegn ÍR frestað, reynt aftur á morgun



Leik ÍR og Akureyrar sem fram átti að fara í kvöld hefur verið frestað. Ekkert hefur verið flogið í dag þannig að ekki var annað í stöðunni en að færa leikinn. Einnig hefur leik Aftureldingar og ÍBV verið frestað þannig að 8-liða úrslitin hefjast í kvöld á einungis tveimur leikjum.

Athugið! Fyrsti leikur Akureyrar og ÍR verður því í Austurbergi á miðvikudeginum 8. apríl klukkan 19:30.

Vegna þeirrar frestunar þarf að færa heimaleik Akureyrar frá fimmtudeginum og verður hann því á föstudeginum klukkan 19:00


Það verður hart barist í viðureign ÍR og Akureyrar



6. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

8-liða úrslitin: Hvernig lítur lið ÍR út?

Akureyri og ÍR mætast á morgun klukkan 19:30 í Austurbergi í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í undanúrslitin en annar leikur liðanna verður á Akureyri á fimmtudaginn. Komi til oddaleiks verður leikið í Austurbergi á sunnudaginn.

ÍR endaði í 3. sæti Olís Deildarinnar með 30 stig á meðan Akureyri varð í 6. sæti með 27 stig, þar sem ÍR endaði fyrir ofan í deildinni fær liðið heimaleikjaréttinn í einvíginu.

Breiðholtspiltar léku frábærlega fyrir áramót og voru þeir með 24 stig í baráttu um efsta sætið þegar landsleikjahléið byrjaði. Ekki tókst þeim að spila eins vel eftir áramót og í þeim ellefu leikjum sem liðið lék í deildinni eftir áramót náði liðið aðeins í 6 stig. Engu að síður var það nóg til að tryggja 3. sæti deildarinnar.

Gengi Akureyrar var ekki jafn gott fyrir áramót og var liðið með 15 stig þegar hléið kom. Akureyri hefur hinsvegar átt betra gengi að undanförnu og náði í 12 stig eftir áramót. Akureyri kemur því á fullri ferð inn í úrslitakeppnina og vonandi að það gefi liðinu kraftinn sem þarf til að komast áfram.

Akureyrarvörnin hefur staðið vel að undanförnu og lokaði vel á uppstilltar sóknir ÍR-inga í síðasta leik liðanna. Hinsvegar opnaðist vörnin þegar ÍR-ingar keyrðu á liðið í seinni bylgju sinni og nokkuð ljóst að Breiðholtspiltar munu reyna að halda hraða leiksins í hámarki.

Helstu leikmenn ÍR

Björgvin Þór Hólmgeirsson var markahæsti leikmaður deildarinnar með 168 mörk og það þrátt fyrir að leika 22 leiki af 27. Meiðsli hafa verið að hrjá Björgvin og lék hann meðal annars ekki síðasta leik gegn Akureyri, hinsvegar má reikna með að hann verði með í úrslitakeppninni. Bjöggi er hörkuskytta og getur hann klárað leiki upp á sitt einsdæmi, hann skoraði meðal annars 14 mörk í fyrsta leik liðanna í vetur. Klárlega maður sem þarf að loka vel á!

Arnar Birkir Hálfdánsson fór hamförum gegn Akureyri í síðasta leik og skoraði 9 mörk. Alls gerði 117 mörk í deildinni og hefur sjaldan verið betri. Ótrúlegur styrkur ÍR-inga að hafa jafn öfluga skyttu og Arnar hægra megin og Björgvin vinstra megin. Hávörn Akureyrar þarf að eiga góðan dag!

Í hornunum leika þeir Sturla Ásgeirsson og Bjarni Fritzson. Við þekkjum Bjarna vel enda markahæsti maður í sögu Akureyrar, Bjarni hefur átt við smá meiðsli og var ekki með í síðasta leik en við reiknum fastlega með því að hann verði klár í slaginn. Báðir eru þeir hoknir af reynslu og nýta færin sín ótrúlega vel. Ásamt því að nýta færin vel keyra þeir hraðaupphlaupin vel og menn þurfa að vera snöggir til baka til að loka á þá.

Þá verður áhugavert að sjá stöðuna á Jóni Heiðari Gunnarssyni línumanni ÍR. Hann sneri sig illa á ökkla í leik gegn Aftureldingu og var kominn á hækjur. Það munaði mikið um að hann vantaði í síðasta leik og Jón Heiðar er líklegur til að harka af sér og spila. Ástandið á honum mun síðan koma í ljós á morgun.

Fyrri leikir liðanna

Liðin hafa mæst þrisvar í vetur og gæti niðurstaða þeirra varla verið jafnari. Hvort liðið hefur unnið sitt hvorn leikinn ásamt því að gera jafntefli.

Liðin mættust fyrst í Austurbergi og reyndist lið ÍR sterkara. Björgvin átti stórleik og skoraði 14 mörk, ÍR liðið keyrði upp hraðann og var 6 mörkum yfir í hálfleik. Akureyri minnkaði muninn með betri leik í síðari hálfleik en það var ekki nóg og ÍR sigraði 32-28
Umfjöllun um leikinn

Heimaleikur Akureyrar var hörkuleikur, Akureyri leiddi lengst af og var fjórum mörkum yfir í hálfleik. Akureyri var í góðri stöðu undir lok leiks en tókst ekki að klára leikinn og ÍR náði jafntefli.
Umfjöllun um leikinn

Lokaleikur deildarinnar var viðureign liðanna í Austurberginu, bæði lið hvíldu nokkra menn og fengu aðrir leikmenn því sénsinn. Eftir jafnar upphafsmínútur náði Akureyri yfirhöndinni og hélt út allan leikinn og vann sanngjarnan sigur 27-30.
Umfjöllun um leikinn

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að fylgjast vel með og mæta á leikina og styðja sitt lið. Úrslitakeppnin er stóra stundin og er magnþrungin af spennu og baráttu. Þetta er það besta sem íslenskur handbolti hefur upp á að bjóða. Liðið sem vinnur þetta einvígi mun mæta annaðhvort Aftureldingu eða ÍBV í undanúrslitum.


Hárprúður í ÍR búningnum 2005





5. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ingimundur: Kjafturinn á KA mönnum kveikti í mér

Eins og kunnugt er þá mætast Akureyri og ÍR í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í næstu viku. Sama staða var uppi fyrir tíu árum síðan en árið 2005 mættust KA og ÍR í átta liða úrslitunum. Fyrri leikurinn fór fram á heimavelli ÍR og lauk með þriggja marka sigri ÍR 29-26. ÍR gat fyrst og fremst þakkað Ingimundi Ingimundarsyni sigurinn en hann skoraði ellefu mörk í leiknum.

Mikill rígur var á milli liðanna og Ingimundur lét allt flakka í viðtali við DV fyrir seinni leik liðanna í KA Heimilinu. ÍR gerði vel og vann fyrir norðan og sló KA út 2-0.

Landsliðsmaðurinn Ingimundur Ingimundarson stal senunni í fyrstu rimmu ÍR og KA í átta liða úrslitum DHL-deildar karla í handknattleik. Þrátt fyrir að leika meiddur fór Ingimundur á kostum í leiknum og skoraði ellefu glæsileg mörk.

Kjafturinn á KA-mönnum kveikti í mér

Leikur ÍR og KA í Austurbergi á þriðjudag var barátta frá upphafi til enda en það er óhætt að segja að ÍR-ingar hefðu seint farið með sigur af hólmi í leiknum ef Ingimundur Ingimundarson hefði ekki lagt sitt af mörkum með ellefu fallegum mörkum. Frammistaða Ingimundar vakti verðskuldaða athygli viðstaddra enda er hnéð á kappanum ekki upp á sitt besta þar sem hann er meðal annars með skaddaðan liðþófa og þarf að fara í speglun. Ingimundur bítur engu að síður á jaxlinn og ætlar að gefa allt sem hann á til enda mótsins.

„Meðan hnéð heldur þá lætur maður slag standa. Þetta gekk fínt að þessu sinni en ég neita því ekki að ég var svolítið þreyttur í hnénu en nánast verkjalaus samt,“ sagði Ingimundur í samtali við DV Sport en hann lét ekki sprauta sig fyrir leikinn heldur lagði hann áherslu á andlegu hliðinu sem félagi hans í landsliðinu, Ólafur Stefánsson, hefur ósjaldan mælt með. „Ég undirbjó mig vel andlega. Ýtti öllum áhyggjum frá mér og einbeitti mér að leiknum. Það er slæmt að hugsa um meiðslin á meðan maður er að spila. Þetta var kannski ekki eins djúpt og hjá Óla en virkaði samt ágætlega,“ sagði Ingimundur og hló létt en læknirinn hans hefur gefið honum leyfi til að spila á meðan hnéð fyllist ekki af vökva og hann finnur ekki mikið til.

Óli bjargaði okkur
Ingimundur var ekkert sérstakega ánægður með spilamennsku ÍR-liðsins í þessum fyrsta leik gegn KA en hann segir það þó vissulega vera styrkleikamerki að hafa klárað leikinn þrátt fyrir að hafa ekki leikið betur en raun ber vitni. „Ég vil nú líka meina að KA menn hafi ekki verið að leika sinn besta bolta. Ég vil nú sem minnst tjá mig um hvort þetta sé styrkleikamunurinn á liðunum. Bæði lið eiga meira inni og það vantaði ekkert upp á baráttuna hjá öllum. Óli markvörður bjargaði okkur samt að þessu sinni með flottri markvörslu á mikilvægum augnablikum,“ sagði Ingimundur.


„Þeir eru helvíti brattir og rífa stólpakjaft. Tala „trash“ eins og það kallast á körfuboltamáli, gaman að því. Það kveikir bara í manni, þannig að þeir mega alveg halda því áfram.“

Helvíti brattir
Annar leikur liðanna fer fram í íþróttahúsi KA í kvöld en þegar liðin mættust síðast fyrir norðan fóru heimamenn með þægilegan sigur af hólmi, 31-27. Ingimundur fann sig engu að síður vel í leiknum og skoraði átta mörk. „Við áttum aldrei möguleika í þessum leik. Þeir voru með þetta í öruggum höndum allan leikinn. Það fer samt að koma tími á sigur fyrir norðan og við stefnum á að klára dæmið á Akureyri og fá fína hvíld fyrir undanúrslitin. Það væri ansi fínt,“ sagði Ingimundur sem fékk vænar móttökur hjá unglingalandsliðsmanninum Ragnari Njálssyni í fyrsta leiknum. Ingimundur segir að taktíkin sem KA-strákarnir beiti sé ekki alveg að virka. „Þeir eru helvíti brattir og rífa stólpakjaft. Tala „trash“ eins og það kallast á körfuboltamáli, gaman að því. Það kveikir bara í manni, þannig að þeir mega alveg halda því áfram,“ sagði Ingimundur kátur og hló dátt.

10 hlutir sem þú vissir ekki um Ingimund

Á dögunum birtist smá grein um Ingimund í N4 dagskránni þar sem fram koma nokkrar staðreyndir sem flestir vita væntanlega ekki um kappann.
  1. Heitir fullu nafni Ingimundur Kristján Ingimundarson, kallaður Diddi. „Erum þrír Ingimundar og þar sem afi er kallaður Ingimundur og pabbi Ingi þá ákvað ég ungur að aldri að ég yrði kallaður Diddi.“
  2. Hafði aldrei hugmynd um að hann væri snarlitblindur fyrr en hann fór í sjónpróf fyrir bílprófið, 17 ára.
  3. Prófaði CandyCrush í fyrsta skiptið á ævinni núna í vetur, gengur bara sæmilega þrátt fyrir litblinduna.
  4. Byrjaði að æfa handbolta 6-7 ára með Þrótti Reykjavík.
  5. Er með svo stórt höfuð að það tók hann rúmlega ár að finna reiðhjólahjálm sem komst á hausinn á honum. Næst er að finna snjóbrettahjálm.
  6. Var mjög virkur körfuboltamynda safnari sem krakki/unglingur. „Hélt ég yrði ríkur af því einn daginn. Hefur reyndar ekki enn skilað sér.“
  7. Er harður stuðningsmaður Newcastle Utd í enska boltanum.
  8. Átti það til að stinga af úr leikskólanum þar sem hann gat opnað hliðið, enda afbrigðilega hávaxinn krakki. Þá lá leiðin í næstu götu til ömmu að fá mjólk og kleinu.
  9. Hefur afrekað það að tábrotna í borðtennis.
  10. Var stöðvaður af Rannsóknarlögrelunni á bílaplani í Breiðholti þar sem hann var að keyra bíl inní snjóskafla. „Löggan átti upphaflega ekkert erindi við mig, var að skoða eitthvað allt annað mál og var á ómerktum bíl, en ákvað að kanna málið þar sem þeim fannst ökumaðurinn helst til of unglegur – enda var ég 14 ára.“


Heimir Örn lék með KA liðinu 2002 og Atli þjálfaði liðið



4. apríl 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Þegar KA varð Íslandsmeistari 2002 (myndband)

KA hampaði Íslandsmeistaratitlinum tímabilið 2001-2002 en liðið endaði í 5. sæti í deildinni og var því ekki með heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Engu að síður sló liðið út Gróttu/KR í 8-liða úrslitum og svo Íslands-, Bikar- og Deildarmeistara Hauka í undanúrslitum. KA og Valur áttust svo við í mögnuðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Atli Hilmarsson þjálfaði KA á þessum árum og Heimir Örn Árnason lék með liðinu. Þessir kappar eru í sömu stöðu með liði Akureyrar í dag, liðið er mætt í úrslitakeppnina án heimaleikjaréttar en eins og lið KA sýndi árið 2002 þá getur allt gerst í úrslitakeppninni.

Sjón er sögu ríkari og við minnum alla á að úrslitakeppnin hefst í Austurbergi á þriðjudaginn og Akureyri leikur svo í Höllinni á fimmtudaginn!



Lið KA þennan veturinn skipuðu þeir: Andrius Stelmokas, Arnar Sæþórsson, Árni Björn Þórarinsson, Arnór Atlason, Baldvin Þorsteinsson, Egidijus Petkevicius, Einar Logi Friðjónsson, Haddur Júlíus Stefánsson, Halldór Jóhann Sigfússon, Hans Hreinsson, Heiðmar Felixson, Heimir Örn Árnason, Hreinn Hauksson, Ingólfur Axelsson, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Jóhannes Ólafur Jóhannesson, Jónatan Magnússon, Kári Garðarsson og Sævar Árnason. Atli Hilmarsson þjálfaði liðið

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson