Dómarar: Bjarki Bóasson og Svavar Ólafur Pétursson. Eftirlit Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Sverre fylgist íbygginn með sínum mönnum
16. september 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir Gróttuleikinn
Blaðamenn mbl.is og visir.is tóku viðtöl strax eftir leikinn og vitunum við í þau hér í framhaldinu. Einar Sigtryggsson stóð vaktina fyrir mbl og náði tali af Sverre Andreas Jakobsyni, þjálfara Akureyrar og markverði Gróttu, Lárusi Helga Ólafssyni sem var klárlega maður leiksins. Gefum Einari orðið:
Sverre: Sóknarleikurinn er ekki nógu góður
Það var óvenju þungt hljóðið í Sverre Andreas Jakobsyni, þjálfara Akureyringa í Olís-deildinni í handbolta, eftir að lið hans hafði tapað 20:21 gegn Gróttu í kvöld. Þeir sem þekkja Sverre vita að það er stutt í brosið hjá honum og jafnan gott hljóð í honum þrátt fyrir að allt hafi gengið á afturfótunum hjá liði hans. Sverre var fús í viðtal eftir leik, reyndar eins og ávallt.
„Því miður þá spiluðum við þennan leik ekki nægilega vel og við eigum svolítið verk framundan. Sóknarleikurinn er ekki nógu góður. Menn eru greinilega eitthvað óöruggir ennþá og það sést berlega í okkar leik. Við þurfum að finna lausn á því. Við eigum ennþá nokkuð í land með að koma nýju mönnunum á fullt skrið en erum að vinna í því. Liðið er nokkuð breytt frá því í fyrra en það er þetta tímabil sem skiptir öllu og ekkert annað. Hvað gerist núna skiptir öllu máli.“
Norðanmenn eru án stiga eftir tvo fyrstu leikina. Voru þeir gegn Stjörnunni og Gróttu, liðum sem ættu að vera svipuð að styrkleika og lið Akureyringa. „Þetta eru vonbrigði. Það er ekki spurning. Það er bara tvennt í stöðunni. Annað hvort að væla eða halda bara áfram. Það er erfitt að kyngja þessu í dag. Maður sofnar örugglega seint og á erfiðan dag á morgun en svo verðum við að fara að einbeita okkur að næsta verkefni. Það er spilað þétt nú í byrjun móts og leikur strax á sunnudaginn. Við erum bara með verkefni til að kljást við og tökum það. Nú þarf að hugsa í lausnum og við þurfum að einbeita okkur að okkar leik. Það er fátt jákvætt hægt að taka úr leiknum í kvöld, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, vonbrigðin eru það mikil. Þó verður að segja að vörnin hélt nokkuð vel á löngum köflum. Það bara dugði skammt það sem við vorum í bölvuðum vandræðum með annað. Sóknarleikurinn og hraðaupphlaupin er eitthvað sem við erum að vinna í og ég hélt að við værum komnir lengra með þá þætti en það er greinilegt að svo er ekki,“ sagði Sverre að lokum.
Sverre tekur fullan þátt í leiknum og uppskar gult spjald
Lárus Helgi: Hlynur vann alltaf kjötkörfuna
Hann var heldur betur hress, markvörður Gróttumanna eftir að lið hans hafði lagt Akureyri 20:21 í Olís-deildinni í handbolta á Akureyri í kvöld. Lárus Helgi Ólafsson var langbesti maður vallarins og hann lagði grunn að góðum sigri með fantamarkvörslu lengstum í leiknum. Nítján skot, tvö varin víti, sigur og matarkarfa var uppskeran hjá Lárusi og var hann gripinn í stutt spjall eftir leik.
„Maður biður ekki um neitt meira hérna fyrir norðan. Það er alltaf æðislegt að koma á Akureyri og hvað þá þegar maður tekur með sér tvo punkta í farteskinu heim á leið. Þetta var alveg þokkalega öruggt hjá okkur þótt við höfum misst forskotið niður þarna í lokin. Við vorum náttúrulega orðnir fjórir á móti sex en þetta var samt aldrei í neinni hættu. Það varð að gera þetta smá spennandi fyrir áhorfendur.“
Og hvernig líst svo markmanninum á tímabilið. Grótta er búin að vinna báða leiki sína, þrátt fyrir að vera að púsla saman nýju liði. „Það er frábært að hafa náð að landa tveimur sigrum en við erum bara sultuslakir og með báða fætur á jörðinni. Við eigum FH næst og svo Stjörnuna og það verða tveir rosalegir leikir og gífurlega mikilvægir. Við fögnum hverju einasta stigi enda ekkert gefið í þessu. Við misstum þrjá máttarstólpa úr liðinu og vorum frekar seinir að fá nýja menn inn. Ég held að við eigum eftir að slípa liðið betur saman og það mun bara koma hægt og rólega. Það sést alveg á leik okkar í dag að það er margt að vinna í. Við áttum nokkra virkilega góða kafla í sóknarleiknum og þess á milli duttum við all svakalega niður.“
En hvað telur Lárus vera lykilinn að stórleik hans í dag. „Já, fyrir utan það að það er alltaf frábært að koma til Akureyrar þá tel ég að það litla sem ég lærði þegar ég var í rammanum með Hlyni Morthens í Val hafi skipt öllu. Hann vann nefnilega alltaf kjötkörfuna, sem fæst fyrir að vera besti maður liðs síns, þegar hann kom norður til að spila gegn Akureyri. Það skilaði sér bara í dag“ sagði Lárus Helgi og bætti við að Akureyringar ættu að íhuga að kaupa Hlyn frá Val en þeirri hugmynd hefur iðulega skotið upp kollinum meðal norðanmanna eftir að Hlynur og Valsmenn hafa verið í heimsókn.
Lárus Helgi varði tvö vítköst í leiknum en hér kom Kristján Orri boltanum í netið
Það var Ólafur Haukur Tómasson sem sá um fréttaskrifin fyrir visir.is en hann ræddi við þjálfarana, Ingimund Ingimundarson og Gunnar Andrésson.
Ingimundur: Þetta var of kaflaskipt hjá okkur
„Fyrst og fremst einkar slæmur kafli í seinni hálfleik. Við vorum að klúðra ógrynni af færum - misgóð auðvitað en mörg mjög góð. Það vantar bara meiri heild í þetta hjá okkur, þetta er bara alltof kaflaskipt hjá okkur, okkur vantar fleiri mörk hægra megin. Þetta var bara alltof kaflaskipt hjá okkur og sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Ingimundur Ingimundarson, leikmaður og aðstoðarþjálfari Akureyrar eftir leikinn.
„Við höfum fulla trú á okkur og hefðum viljað standa hér í dag með fjögur stig en því miður er það ekki þannig og eitthvað sem við verðum að bæta fyrir. Skoða okkar leik enn frekar. Við eigum svo mikið inni og það er sárast“.
Ingimundur var í hlutverki aðstoðarþjálfara í leiknum
Gunnar: Við erum að pússla þessu saman
„Ég er gríðarlega sáttur með sigur og fannst við spila frábæran varnaleik, þeir áttu erfitt með að skora og Lárus var frábær fyrir aftan vörnina. Við vorum að vinna þetta fyrst og fremst á frábærum varnarleik og góðri markvörslu.“ Sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu hæst ánægður eftir sigur sinna manna í kvöld.
„Við erum að pússla þessu saman. Höfum verið í miklum meiðslum og vantað í mannskapinn. Við höfum aldrei getað hafa verið með fullt lið svo við erum svolítið í startblokkunum svo við vitum ekki hvar við erum en við ætlum okkur að vera drullu góðir þegar við komumst á skrið.“
Grótta gæti verið að ná sér í mjög mikilvæg stig upp á framhaldið með því að taka stigin tvö á Akureyri og telur Gunnar að þetta muni hafa góð áhrif á sitt lið sem eigi enn eftir að sýna sitt rétta andlit.
„Þetta er mjög gott fyrir okkur og gefur okkur sjálfstraust. Við erum með nýtt lið og erum að pússla þessum saman, við verðum bara betri, sagði Gunnar að lokum.
Gunnar fylgist íbygginn með sínum mönnum á vellinum
Fyrsti útsendingardagur
15. september 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Í beinni útsendingu á heimasíðunni
Eins og kunnugt er þá er fyrsti heimaleikur Akureyrar Handboltafélags í Olís deildinni í dag. Við hér á heimasíðunni höfum í allmörg ár verið með textalýsingar frá flestöllum leikjum liðsins en nú tökum við skref áfram og sýnum leikinn í beinni útsendingu. Við vorum með tilraunaútsendingar frá Opna Norðlenska mótinu í lok ágúst sem gengu bærilega þannig að í dag verður fyrsta alvöruútsendingin.
Leikurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld og fyrir þann tíma kemur hér að neðan upp hlekkur til að horfa á leikinn.
HSÍ mælist til þess við öll liðin í Olís-deildinni að sýna frá sínum heimaleikjum og treystum við því að við fáum samsvarandi útsendingar annarra liða frá útileikjum Akureyrar á komandi tímabili.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að fjölmenna í KA Heimilið í kvöld og skapa stemmingu í húsinu!
Leikir liðanna í fyrra buðu upp á spennu og dramatík
14. september 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Fyrsti heimaleikur Akureyrar á fimmtudaginn
Það má svo sannarlega segja að það sé spenna í loftinu þegar fyrsti heimaleikur Akureyrar í Olísdeildinni fer fram.
Mótherjinn er heldur ekki af lakara taginu, Grótta sem stóð einmitt uppi sem sigurvegari á Opna Norðlenska á dögunum. Leikur liðanna þá var hörkuspennandi en Grótta fór með sigurinn á lokaandartökum leiksins.
Viðureignir Akureyrar og Gróttu á síðasta tímabili buðu upp á ýmislegt, Grótta kom, sá og sigraði hér fyrir norðan í fyrsta leik liðanna, Akureyri hefndi ófaranna og vann útileikinn í annarri umferð. Í þriðju umferðinni mættust liðin aftur á Seltjarnarnesinu og úr varð háspennuleikur sem lauk með jafntefli. Ég held að við getum því lofað hörkuleik í KA heimilinu á fimmtudaginn.
Leikurinn hefst klukkan 19:30 í KA heimilinu en það er upplagt að mæta tímanlega á staðinn því fyrir leikinn verður hægt að ganga frá kaupum á ársmiðum (silfurkortum) og gullkortum fyrir tímabilið.
Gullkortið innifelur aðgang að öllum heimaleikjum Akureyrar, hvort sem er í deildarkeppninni, úrslitakeppnum eða bikarkeppninni. Auk þess er gullkortahöfum boðið upp á aðgang að stuðningsmannaherberginu en þar er í boði heitur matur fyrir leiki og kaffi í hálfleik. Auk ýmissa fríðinda sem tilkynntir verða síðar. Það er nýlunda í vetur að Gullkortið veiti jafnframt aðgang að heimaleikjum í bikar- og úrslitakeppninni. Verð á Gullkortinu 2016-2017 er 30.000 krónur.
Silfurkortið eða ársmiðinn er fyrst og fremst aðgöngumiði að öllum heimaleikjum liðsins í Olís deildinni (ekki bikar og úrslitakeppni). Silfurkorthafar þurfa því ekki að standa í röð í miðasölunni heldur ganga beint inn. Silfurkortið 2016-2017 kostar 20.000 krónur.
Verðin eru sem sé óbreytt frá því í fyrra.
Boðið er upp á nokkrar greiðsluleiðir auk þess sem hægt er að semja um raðgreiðslur ef það hentar.
Hægt er að panta kort með því að smella á myndirnar af kortunum hér að ofan! Þeir sem panta með þeim hætti geta nálgast kortin í KA heimilinu fyrir leikinn að öðrum kosti verður þeim komið til viðkomandi fyrir næsta heimaleik!