Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Ísinn brotinn á Selfossi og tvö stig í hús - Akureyri Handboltafélag
Ingimundur lagði liðinu til gistingu á Laugarvatni fyrir leik
4. október 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir sigurinn á Selfossi
Það var nokkuð ljóst að það var ekki fjölmenn sveit fjölmiðlamanna á leik Selfoss og Akureyrar á laugardaginn. Mbl var með ágæta textalýsingu og SelfossTV sýndi leikinn. Einu viðtölin eftir leikinn birtust á fimmeinn.is sem tóku vídeóviðtöl við Ingimund Ingimundarson svo og stórskyttu Selfyssinga, Einar Sverrisson.
Ingimundur: Sveitaloftið á greinilega vel við okkur
Ingimundur Ingimundarson, leikmaður Akureyrar, og aðstoðarþjálfari sagði mikinn létti að vera loks búinn að ná inn fyrsta sigri vetrarins. Hann sagði að ákveðin pressa væri búin að vera eftir fyrstu leikina þar sem ekkert stig var að koma í hús og það hefði verið virkilega gaman að fá fyrstu stigin gegn erfiðu liði á erfiðum útivelli. Liðið væri, eins og hefur komið alls staðar fram, með þunnan hóp og raunin væri bara að leikmenn væru að koma inn og stíga upp og það væru leikmenn sem fyrirfram var ætlað minni hlutverk í fyrstu og þeir hefðu allir staðið sig vel. Hann sjálfur er einn af þeim sem hafa verið á sjúkralistanum en segir að það styttist í sig með hverjum degi og hann verði fljótlega kominn á gólfið. Akureyringar brutu ferðalagið aðeins upp fyrir þennan leik og komu suður í gærkvöldi og gistu á Laugarvatni í nótt og sagði hann sveitaloftið greinilega eiga við þá, hvort sem það væri sunnlenskt eða að norðan.
Þórir ljósmyndari rammaði Ingimund rækilega inn á þessari mynd
Einar Sverris: Er gríðarlega svekktur með þessa útkomu í dag
Einar Sverrisson, leikmaður Selfoss, sagðist gríðarlega svekktur með útkomuna í dag eftir tap fyrir Akureyri. Þeir hefðu komið vel inn í leikinn en fljótlega hefði þó farið að halla undan fæti. Hann sagði að enginn skjálfti væri kominn í liðið þrátt fyrir þrjú töp í röð og sagði að sigurleikirnir í byrjun gæfu þeim ekkert í dag eða í framtíðinni en þrátt fyrir tap hefði liðið verið að spila ágætlega eins og á móti Haukum en leikurinn gegn Fram hefði verið algert afhroð. Hann sagðist ekkert kvíða framhaldinu hjá liðinu og væri þess fullviss um að liðið færi að taka inn stig fljótlega.
Einar lék síðustu tvö ár með ÍBV
Selfyssingar eru erfiðir heim að sækja
1. október 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Útileikur á Selfossi
Akureyrarliðið mætir á Selfoss í dag í fimmta leikinn í Olís deildinni. Andstæðingarnir eru heimamenn sem unnu sig upp í Olís deildina í vor eftir hörkueinvígi gegn Fjölni. Þjálfari Selfyssinga er norðanmaðurinn Stefán Árnason en hann þjálfaði liðið einnig síðasta tímabil.
Selfyssingar styrktu lið sitt töluvert í sumar, endurheimtu skyttuna Einar Sverrisson sem hefur leikið með ÍBV síðustu tvö tímabil. Þá fengu þeir línumanninn Guðna Ingvarsson sem kom frá Gróttu eftir að hafa verið í liði ÍBV þar áður. Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson kom frá Haukum þannig að Selfoss liðið er býsna vel mannað.
Selfyssingar byrjuðu deildina frábærlega, unnu örugga sigra á Aftureldingu og Val í fyrstu umferðunum, töpuðu naumlega fyrir Haukum á heimavelli en máttu sætta sig við óvænt fjögurra marka tap gegn Fram í síðustu umferð.
Þetta er annar heimaleikur Selfoss á tímabilinu og við væntum þess að leikurinn verði sýndur beint á Selfoss TV líkt og þeir sýndu Haukaleikinn.