Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Jafntefli í háspennuleik gegn FH - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Sverre hefði alveg þegið bæði stigin úr leiknum í gær
28. október 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir FH leikinn
Að venju lítum við á viðtöl við leikmenn og þjálfara liðanna eftir leik. Hér höfum við fundið viðtöl Einars Sigtryggssonar hjá mbl.is og Arnars Geirs Halldórssonar sem fjallaði um leikinn fyrir visir.is. Byrjum á viðtölum Einars Sigtryggssonar við Andra Snæ Stefánsson fyrirliða Akureyrar og Ágúst Elí Björgvinsson markvörð FH.
Andri Snær: Því miður fór lokaskotið í klukkuna
Það var töluverður völlur á fyrirliða Akureyringa eftir að hans lið hafði náð fyrsta stiginu á heimavelli í vetur eftir jafntefli við FH í Olís-deild karla í handknattleik. Leikurinn var lengstum í höndum Hafnfirðinga en með mikilli seiglu og baráttu náðu heimamenn að kreista út stig í leik sem endaði 24:24.
Þrátt fyrir að hafa klúðrað tveimur vítum var gott hljóð í Andra Snæ Stefánssyni og telur hann að liðið fái nú byr í seglin. „Þetta var gott stig. Við verðum að líta á það þannig enda hafa þau ekki verið mörg í vetur. Þetta er bara byrjunin á einhverju góðu. Við höfðum mikið fyrir því að ná þessu stigi en síðasta sóknin okkar hefði mátt skila marki og sigri. Sú sókn var voðalega slöpp hjá okkur.
Við vorum búnir að spila síðustu sóknirnar á undan nokkuð smurt og óhikað svo við hefðum mátt gera betur. Það vantaði bara einhvern til að taka af skarið. Því miður fór svo lokaskotið hjá Stropus í klukkuna. Auðvitað hefði verið frábært að klára leikinn með sigri en þetta var svakalegur karakter sem við sýndum því við vorum að elta allan tímann. Við getum verið með kassann uppi og byggjum bara á þessu.“
Andri Snær á vítalínunni í gær
Akureyringar hafa verið mikið meiddir á tímabilinu og í kvöld meiddist Brynjar Hólm Grétarsson eftir tíu mínútur. Kristján Orri spilaði nánast ekkert og Sigþór Árni byrjaði á bekknum. „Við erum margir sem þarf að tjasla saman og við erum í smá vandræðum. Hins vegar eru aðrir að koma sterkir inn í þetta og þeir sem komu af bekknum í dag voru virkilega góðir. Við erum með meiri breidd en flestir halda og svo eru Litháarnir alltaf að verða öflugri. Þeir voru mjög sterkir í kvöld. Við sýndum mikla liðsheild í kvöld og ég er rosalega stoltur af liðinu og karakternum hjá okkur. Það er haugur af stigum í boði og við eigum bara eftir að verða betri,“ sagði fyrirliðinn að skilnaði.
Ágúst Elí: Hvernig í fjandanum náði ég þessu?
Ágúst Elí Björgvinsson var flottur í marki FH í kvöld þegar lið hans sótti Akureyringa heim í Olís-deild karla. Varði hann stórvel, alls 14 skot, þar af tvö víti. Eitt skotið varði hann eftir að hafa verið útaf. Þá tapaði FH boltanum og Akureyringar gátu skorað í autt markið. Sveif þá ekki Ágúst Elí inn í teiginn og blakaði boltanum afturfyrir endamörk.
Ágúst Elí kemur engum vörnum við þegar Garðar skorar jöfnunarmark Akureyrar
Ágúst Elí var eins og allir félagar hans mjög svekktur með niðurstöðu leiksins en hann endaði 24:24 eftir að FH hafði verið yfir nánast allan leikinn. Hann hafði þetta að segja: „Það er mjög fúlt að hafa ekki unnið þennan leik. Hann var mjög erfiður fyrir okkur og Akureyringar voru grimmir. Mér fannst hins vegar við vera með þetta allan tímann. Það kom smá hikst hjá okkur á lokakaflanum en þá komu dómar sem voru ekki okkur hliðhollir. Mér fannst svo í restina að lokasóknin þeirra væri allt of löng og beið eftir að við fengjum boltann. Það var ekkert að gerast hjá þeim og við hefðum átt að fá séns í lokin til að klára þetta. Okkur fannst dómararnir dálítið óútreiknanlegir og það var erfitt að lesa í línuna hjá þeim. Það hjálpaði ekki og mér fannst við fá að kenna dálítið vel á því í seinni hálfleiknum. Hins vegar er ekki því um að kenna að við náðum ekki sigri. Við hefðum átt að vera búnir að ganga frá leiknum fyrr og spila betri vörn. Þetta var bara hörku leikur og Akureyringarnir voru bara góðir og lögðu allt í leikinn. Það er alltaf gaman að koma hingað að spila en það er skemmtilegra að taka öll stigin.“
Sem fyrr segir átti Ágúst Elí flottar vörslur í leiknum en sendingar hans fram á Óðinn Þór Ríkharðsson vöktu einnig athygli en þær voru hárnákvæmar og skiluðu fjórum hraðaupphlaupsmörkum. „Við Óðinn náum vel saman og ég á auðvelt með að finna hann. Hann er líka kominn fram fyrir andstæðingana og því betra að senda boltann á hann. Hann klúðrar líka mjög sjaldan. Það er mjög erfitt að spila gegn honum á æfingum og því er ég ánægður að hafa hann með mér í liði.“
Svo þurfti að spyrja Ágúst Elí um flugmarkvörsluna og vítin. „Ég man nú ekkert eftir þessari vörslu þegar ég hljóp inn á völlinn. Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig í fjandanum náði ég þessu? Svo var gott að taka þessi víti. Ég náði einhvern veginn að krafla í fyrra skotið frá Andra. Það leit ekki vel út fyrir hann þegar hann skaut í stöngina og framhjá en ég varði þetta víst“ sagði Ágúst Elí að lokum.
Á visir.is ræddi Arnar Geir Halldórsson við þjálfara liðanna, þá Sverre Andreas Jakobsson og Halldór Jóhann Sigfússon.
Sverre: Hefði viljað fá boltann á markið
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, var nokkuð sáttur með stigið enda liðið ekki búið að ná í mörg stig í vetur. Það voru þó blendnar tilfinningar sem bærðust innra með honum enda fékk Akureyri fínt tækifæri til að gera út um leikinn. „Blendnar tilfinningar. Við börðumst alveg svakalega í þessum leik. Við verðum fyrir áfalli í fyrri hálfleik þegar við missum tvo menn út. Við börðum okkur saman og komum okkur aftur inn í leikinn. Við eigum séns í lokin og ég hefði viljað fá boltann á markið. Láta hann frekar verja en að setja boltann yfir markið.
Þetta er mjög flott stig. Það er mjög mikilvægt fyrir pásuna að fá smá jákvæðni og mér fannst þetta góð frammistaða liðsheildarinnar,“ sagði Sverre
Margir leikir Akureyringa hafa verið mjög jafnir og oftar en ekki ráðist á síðustu sekúndunum. Liðinu hefur hinsvegar aðeins tekist að ná í einn sigur. Hvers vegna gengur svona illa að landa sigri? „Það er sitt lítið af hverju. Við erum að vinna í þeim hlutum. Það vantar stundum smá skynsemi og stundum smá heppni. Við erum búnir að tapa mörgum leikjum þegar það hefur verið jafnt tveim mínútum fyrir leikslok. Það er erfitt að greina þetta,“ sagði Sverre.
Akureyringar ætla að nýta landsleikjahléið vel og vonast Sverre til að endurheimta einhverja leikmenn úr meiðslum en margir lykilmenn hafa verið í vandræðum með meiðsli í vetur. „Við nýtum fríið vel og rétt. Við erum búnir að setja upp okkar leið í því og við munum koma flottir til baka. Vonandi koma einhverjir leikmenn til baka úr meiðslum.“
Þær sögusagnir hafa verið á sveimi að Sigþór Árni Heimisson þurfi að taka sér frí frá handboltaiðkun vegna þrálátra meiðsla. Það var þó ekki að sjá á hans leik í kvöld en Sigþór átti afar góðan leik. Sverre vonast til að hann verði með liðinu í fyrsta leik eftir hlé. „Hann hefur átt erfitt uppdráttar í vetur útaf meiðslunum sínum. Hann er í vandræðum með hásinarnar. Hann þarf að ná sér góðum af því og við sjáum hvort pásan gerir honum ekki gott. Hann þarf að taka góða pásu og hvort þessar tvær vikur séu nóg veit ég ekki. Það verður bara að koma í ljós,“ sagði Sverre.
Halldór Jóhann: Þeir fengu að spila eina mínútu og tíu sekúndur í síðustu sókninni
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, var að vonum svekktur enda leiddi liðið leikinn langstærstan hluta. „Það er svekkjandi að tapa þessu eina stigi. Við gáfum eftir á kafla í síðari hálfleik og urðum stressaðir í sóknarleiknum. Við töpuðum boltanum oft aulalega. Baráttan var samt til staðar og menn voru að leggja sig fram. Ég get ekki annað en hrósað mönnum fyrir það.“
Halldór var ekki ánægður með hvað Akureyringar fengu langan tíma í lokasókn leiksins og átti í hrókasamræðum við dómarana í leikslok. „Ég var ósáttur við að þeir fengu að spila mínútu og tíu sekúndur í síðustu sókninni. Mér finnst það vera alltof langt. Þeir voru með hendina uppi í tæpar 30 sekúndur. Það átti að vera löngu búið að flauta af þeim boltann. Dómararnir vilja skýla sér á bakvið þessar nýju reglur en ég er ekki sáttur við það. Leikurinn var annars bara dæmdur á báða bóga en ég er bara ósáttur við þetta atriði í lokin af því að það var ferskt í huganum,“ segir Halldór.
Nú tekur við tveggja vikna hlé í deildinni vegna landsleikja en Ísland mætir Tékkum og Úkraínu í undankeppni EM í næstu viku. „Við ætlum að nýta það vel og æfa vel. Fyrst fá leikmenn nokkra daga í frí og fá aðeins að kasta mæðinni. Við erum búnir að spila á mjög fáum leikmönnum og höfum verið í meiðslavandræðum. Svo byrjum við bara á mánudag að undirbúa okkur fyrir törnina fram að jólum.“
FH-ingar sitja í öðru sæti deildarinnar þegar þriðjungur mótsins er búinn. Halldór. kveðst vera ánægður með lið sitt hingað til. „Við vitum að við getum bætt heilmargt í okkar leik en vitum líka að það er margt gott. Ég er heilt yfir búinn að vera mjög ánægður þó ég myndi vilja vera með tveim til þrem stigum meira. Miðað þau skakkaföll sem við erum búnir að ganga í gegnum getum við verið nokkuð sáttir með þessi tíu stig. Við hugsum fram á veginn og ætlum að halda áfram að bæta leik liðsins jafnt og þétt,“ sagði Halldór Jóhann.
Við eigum von á hörkuleik í kvöld
27. október 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri - FH í beinni útsendingu
Það er runninn upp leikdagur hjá meistaraflokki karla hjá Akureyri. Síðasta umferð í fyrsta hluta Olís deildarinnar og það eru FH-ingar sem mæta í KA heimilið. Akureyri þarf svo sannarlega á stigunum úr leiknum að halda og því köllum við eftir stuðningi allra sem lagt geta lið.
FH liðið vann Fram með einu marki í síðustu umferð og þar á undan unnu FH ingar magnaðan fjögurra marka útisigur á Haukum þannig að þeir eru til alls líklegir. Líkt og undanfarin ár þjálfar Halldór Jóhann Sigfússon FH liðið. Akureyringurinn Ásbjörn Friðriksson hefur verið leiðtogi liðsins undanfarin ár en varð fyrir því óláni að meiðast í þriðju umferðinni og munar um minna.
Tveir leikmenn bera uppi markaskorun liðsins, Einar Rafn Eiðsson hefur skorað 54 mörk og Óðinn Þór Ríkharðsson 53. Þar á eftir koma Jóhann Birgir Ingvarsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson með 27 mörk hvor. Þá er ónefndur markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sem hefur verið albesti maður FH-liðsins undanfarin tvö ár.
Á síðasta tímabili mættust liðin einu sinni hér fyrir norðan og varð viðureignin viðburðarík. Akureyri missti mann af velli með rautt spjald eftir 45 sekúndna leik en létu það ekki slá sig út af laginu. Ingimundur Ingimundarson endaði fyrri hálfleikinn með sannkölluðu Duranona marki sem heldur betur kveikti í stemmingunni. Að lokum fór Akureyri með fimm marka sigur og er hér hægt að skoða svipmyndir frá leiknum svo og viðtöl við þjálfarana.Leikurinn hefst klukkan 19:00 í dag og hvetjum við alla til að koma og hvetja sitt lið. Fyrir þá sem ekki komast gerum við ráð fyrir að sýna leikinn beint hér á heimasíðunni.