Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Til hamingju Hreiðar!27. október 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarHreiðar Levý Guðmundsson bestur í 10. umferð Morgunblaðið útnefnir Hreiðar Levý Guðmundsson leikmann 10. umferðar Olís-deildar karla eftir frábæra frammistöðu gegn ÍR síðastliðinn fimmtudag. Hér fer á eftir kynning Sindra Sveinssonar, blaðamanns mbl. af þessu tilefni en Sindri ræðir m.a. við Sverra Anreas Jakobson um kosti Hreiðars.Tók sig allan í gegn í sumar Hreiðar frábær eftir að hafa jafnað sig af meiðslum Kominn aftur í landsliðið Hreiðar Levý Guðmundsson markvörður er leikmaður 10. umferðar í Olísdeildinni í handknattleik eftir að hafa varið yfir helming skota sem hann fékk á sig í marki Akureyrar, þegar liðið valtaði yfir hans gamla félag ÍR í síðustu viku. Hreiðar kom aftur til Akureyrar í fyrrasumar, eftir langa veru í atvinnumennsku, en meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá honum síðasta vetur. Nú hefur hann náð sér vel á strik og unnið sér aftur sæti í landsliðinu, en hann á tæplega 150 landsleiki að baki og var í liðinu sem vann silfur á ÓL í Peking 2008, og brons á EM í Austurríki 2010. Hann hóf meistaraflokksferilinn með ÍR en fór svo til KA 2005, og þaðan í atvinnumennsku 2007. Hann lék í Svíþjóð, Þýskalandi og Noregi, áður en hann kom aftur heim í fyrra. „Hann kom heim meiddur, og því miður gekk endurhæfingin ekki nægilega vel, því hann fann alltaf fyrir eymslum í hnénu. Þetta endaði með því að hann lét „krukka“ aðeins frekar í hnéð í sumar,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar og fyrrverandi liðsfélagi Hreiðars í landsliðinu. „Hann setti sér strax skýr markmið eftir það, og ætlaði að vera tilbúinn í fyrsta leik, sem hann gerði. Endurhæfingin var lyginni líkust. Hann æfði hrikalega vel og tók sig allan í gegn; andlega, líkamlega og hvað mataræði snertir. Þetta var risapakki, hann var svakalega einbeittur og það er gaman að sjá hvernig hann hefur verðlaunað sjálfan sig í gegnum eigin fórnfýsi. Þetta er engin tilviljun,“ sagði Sverre. „Landsliðssætið er stærsta viðurkenningin, og heldur honum enn frekar á tánum. Hann er fullur sjálfstrausts og það er ekki annað hægt en að gefa honum gott klapp á bakið fyrir það hvernig hann hefur tæklað þessi mál,“ bætti hann við. Sverre segir Hreiðar eyða miklum tíma í undirbúningsvinnu fyrir leiki, og það skili sér:Horfir mikið á myndbönd „Hann er klókur markmaður og undirbýr sig mjög vel. Hann horfir mikið á myndbönd af andstæðingunum, gerir greiningar og getur auðveldlega unnið með vörninni, sérstaklega með Didda [Ingimundi Ingimundarsyni] enda sterk taug á milli þeirra sem náinna vina. Hann er líka hokinn af reynslu, búinn að spila lengi með landsliðinu og í atvinnumennsku, og þekkir þetta allt saman. Hann nýtir reynsluna vel inni á vellinum, og miðlar til ungu strákanna sem hann heldur vel á tánum. Þeir fá ekkert að slaka á. Hann er virkur, og það er alltaf kostur, þó að stundum sé hann bara að tjá sig til þess að skerpa á einbeitingunni hjá sjálfum sér. Við varnarmennirnir hlustum ekkert alltaf,“ sagði Sverre léttur. Hann segir aðra markverði njóta góðs af Hreiðari: „Hann gefur mikið af sér og ég held að Tomas Olason og fleiri hér græði mikið á því að vinna með honum.“Hreiðar Levý átti enn einn stórleikinn í síðustu viku gegn ÍR og fékk Akureyrarkörfuna sem maður liðsins
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook