Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Róbert og Sverre voru eðlilega í skýjunum eftir leikinn4. desember 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarViðtöl eftir sigurleikinn gegn Víkingum Spennustigið í lok leiks Akureyrar og Víkings í gær var hátt og menn ýmist í skýjunum eða hundsvekktir eins og gengur. Visir.is og mbl.is náðu viðtölum við leikmenn og þjálfara eftir leikinn. Byrjum á viðtölum Stefáns Guðnasonar sem birtust á visir.is en hann ræddi við varnarjaxlinn Róbert Sigurðarson úr Akureyri og Daníel Örn Einarsson, fyrrum leikmann Akureyrar en núverandi Víking en Daníel fékk einmitt viðurkenningu í leikslok sem besti leikmaður Víkinga í leiknum.Róbert: Hamrarnir gáfu mér mikilvæga reynslu Róbert Sigurðsson er nýliði í liði Akureyrar. Í vetur hefur hann verið að spila stórt hlutverk í vörn Akureyringa á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeild. Hann hafði það hlutverk í leiknum að halda aftur af Karolis Stropus stórskyttu Víkinga og leysti það hlutverk einkar vel en fátt virtist ganga upp hjá Karolis í dag. „Þetta var mikill varnarsigur. Ég var búinn að liggja yfir videoum af Karolis fyrir leikinn og held að ég hafi leyst mitt hlutverk nokkuð vel. Vörnin heilt yfir var þétt og sterk og þegar við náðum að stilla upp í vörn áttu Víkingar fá svör gegn okkur“.Róbert hleypir Karolis Stropus ekkert áfram
Róbert spilaði síðustu tvö ár með stórliði Hamranna í 1. deildinni og reyndist sú dvöl honum vel. „Ég fékk gríðarlega reynslu af því að spila í Hömrunum. Fyrra árið var liðið skipað miklum reynsluboltum sem ég lærði helling af og á seinna árinu fékk ég svo stærra hlutverk. Núna í vetur hef ég fengið enn meiri leiðsögn frá Sverre og Didda (Ingimundur Ingimundarson) þannig að ég verð að teljast heppinn með það sem ég hef fengið hingað til. Það er náttúrulega ekki til betri varnarpar en þeir tveir þannig að ég get ekki annað en lært helling af þessu öllu saman“. Róbert er ennþá gjaldgengur í 2. flokk og þegar hann nær leikjum þar fær hann að fara yfir miðju og í sóknina. Aðspurður segir hann það auðvitað kitla sig að laumast yfir miðju með meistaraflokki en hefur þurft að minnka það mikið út af smávægilegum meiðslum hér og þar. Nú sé hann fyrst og fremst í varnarhlutverki og kann vel við. Hvað framhaldið varðar á Akureyri þrjá leiki eftir fram að 17. des sem verður að teljast frekar mikið miðað við það álag sem hefur verið á mönnum hingað til. „Menn eru auðvitað misþreyttir. Ég er svo ungur að ég finn minna fyrir þessu. Diddi aftur á móti minnir um margt á jólasveininn sem kemur fyrst til byggða en hann er svo mikill jaxl að hann gleymir því um leið og leikurinn byrjar.“Daníel Örn: Þetta var allt geggjað fyrir utan að klikka á úrslitaskotinu Daníel Örn Einarsson var sínum fyrrum félögum erfiður í kvöld. Fyrir utan 5 skoruð mörk var hann duglegur að vinna boltann af heimamönnum og drífa sitt lið áfram með klassísku Dannaöskri. Daníel var ánægður með stemminguna í húsinu og hrósaði áhorfendum hér á Akureyri. „Þetta var hrikalega gaman. Stemmingin í húsinu svakaleg í síðari hálfleik sérstaklega. Ég bjóst samt við meira af bauli frá áhorfendum fyrir að vera að fiska ruðninga út um allan völl en svona er þetta. Þetta var bara allt saman virkilega skemmtilegt þó svo að ég eigi eftir að bölva hressilega fyrir að hafa klikkað á svona mikilvægu skoti“.Daníel Örn besti maður Víkinga á auðum sjó og skorar eitt af fimm mörkum sínum
Víkingar hafa verið að bæta sinn leik jafnt og þétt upp á síðkastið þó stigasöfnunin hafi verið lítil. „Mórallinn í hópnum er orðinn miklu betri og gæðin á æfingum hafa aukist til muna. Það er að skila bættum leik og ég trúi ekki öðru en að það fari að skila okkur fleiri stigum. Okkar helsta vandamál núna samt er að við virðumst hálf hræddir við að vera yfir og þurfum að girða okkur í brók hvað það varðar. Erum að spila vel í mörgum leikjum en það er eins og við þorum ekki að vinna leikina, ef við náum að laga það þá erum við í fínum málum. Við setjum stefnuna á það núna að ná tveimur óvæntum sigrum og koma okkur inn í úrslitakeppnina áður en deildin klárast“. Á mbl.is eru síðan viðtöl Einars Sigtryggssonar við þjálfara liðanna, Sverre Andreas Jakobsson og Ágúst Þór Jóhannsson.Sverre: Stoltur margra stráka faðir Sverre Andreas Jakobsson, þjálfari Akureyringa í Olís-deild karla í handbolta, er enginn venjulegur maður. Mbl falaðist eftir viðtali við Sverre eftir að hans menn höfðu marið eins marks sigur á Víkingum í kvöld. Var það sjálfsagt mál og var eins og Sverre væri að hitta aldagamlan vin eftir langan aðskilnað. Hann lék við hvern sinn fingur og skein í gegn ást hans á liði sínu og íþróttinni. „Ég er að reyna að róa mig niður. Þetta var svakalega skemmtilegur leikur þótt handboltinn hefði getað verið betri. Víkingarnir fá mikið hrós frá mér. Þeir hafa bætt sig mikið og staða þeirra í deildinni gefur ekki rétta mynd af getu þeirra í dag. Við vorum alveg viðbúnir mjög erfiðum leik og það kom á daginn. Við getur verið ánægðir að hafa sloppið með bæði stigin. Þeir voru erfiðir í fyrri hálfleiknum og komnir í fimm mörk. Sem betur fer náðum við að minnka muninn fyrir hálfleik og svo hófst þessi svaka eltingaleikur. Við náðum loks að komast yfir og eftir það var allt jafnt. Ég tók svo leikhlé í síðustu sókninni rétt áður en Bergvin komst einn í gegn. Það hefði getað orðið dýrt,“ sagði Sverre. Sverre er mjög líflegur á hliðarlínunni og segja má að hann spili vörnina með sínum mönnum, svo vel lifir hann sig inn í leikinn. „Þetta er ekki viljandi en þegar líður á leikinn og spennan eykst þá á ég það til að gleyma mér. Ég tek fullan þátt í þessu með leikmönnum. Þetta eru bara einhverjar tilfinningar sem ég ræð ekki við. Þá er nú gott að hafa rólegan mann með sér (Sævar Árnason). Ég reyni að búa til tengingu milli mín og leikmanna en það eru þeir sem spila leikinn og þeir eiga allt hrós skilið frá mér,“ sagði Sverre og hrósaði sínum mönnum.Sverre og Sævar fara yfir málin í rólegheitunum
„Mér finnst æðislegt að fylgjast með strákunum. Þeir vaxa með hverjum leik og eftir mjög brösótta byrjun á mótinu var pressan orðin mikil á okkur öllum. Menn voru ekki í góðu standi í haust en eru allir að koma til. Svo eru alltaf einhverjir nýir að sýna flotta takta og bæta þannig liðið. Tomas [Olason] er búinn að koma sterkur inn í tveimur síðustu heimaleikjum, Hreiðar gegn Fram og svo er Hörður Másson alltaf að bæta sig,“ sagði Sverre, og bætti við um Hörð: „Það má segja að hann hafi bara lent hjá okkur fyrir hálfgerða tilviljun og ákvað að taka slaginn með okkur. Það er ógeðslega gaman að sjá hvernig liðið er smám saman að taka á sig mynd. Ég sagði í viðtali í haust að það væri ekki spurning hvort, heldur hvenær strákarnir færu að bíta almennilega frá sér,“ Það var engu líkara en Sverre væri nýkominn af fæðingadeildinni, svo stoltur var hann af strákunum sínum.Ágúst Þór: Svekkjandi en vorum bara klaufar Lokamínútur í leik Akureyrar og Víkinga í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld voru mjög spennandi og allir sem að leiknum komu á yfirsnúningi. Svo fór að lokum að Akureyringar unnu 23:22. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkinga, var rétt að ná sér niður þegar blaðamaður mbl náði af honum tali. Var hann hálf raddlaus enda búinn að láta vel í sér heyra allan leikinn. „Þetta var hörkuleikur og við vorum virkilega góðir allan fyrri hálfleikinn. Í seinni hálfleiknum var sóknin ekki nægilega góð og við tókum of margar óskynsamlegar ákvarðanir, misstum niður agann og þá komust þeir yfir. Við tókum svo ágætan kafla í lokin og hefðum átt að ná jafntefli. Það hefðu líklega verið sanngjörnustu úrslitin en við fórum illa að ráði okkar.“ Karolis Stropus náði sér ekki á strik í leiknum en hann komst fyrst á markalistann þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. „Karolis er frábær leikmaður en hann getur ekki skorað tíu mörk í hverjum leik. Hann átti ekki sinn besta dag en mótherjarnir fá að taka fast á honum og það er umhugsunarefni hvort hann fái ekki full harkalegar móttökur á stundum.“Ágúst þjálfari Víkinga greinilega hundfúll með gang mála í leiknum á þessari stundu
Ágúst Þór segir sína menn vera á uppleið. „Við erum að eflast og það eru klár batamerki á leik liðsins. Það er hins vegar ekki nóg ef við náum ekki í stigin sem eru í boði. Það er mjög svekkjandi að hafa ekki náð neinu úr þessum leik. Við vorum bara klaufar. Næsti leikur er gegn ÍBV og við höldum áfram okkar striki, reynum að bæta okkur og stöðu liðsins í deildinni.“ Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook