Vignir Jóhannsson var öflugur í leiknum í dag
| | 19. desember 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar2. flokkur: Akureyri vann Aftureldingu í bikarnumStrákarnir í 2. flokki Akureyrar unnu sigur á Aftureldingu í bikarkeppni 2. flokks í dag. Lokatölur 29-28 eftir býsna sveiflukenndan leik. Akureyri byrjaði með miklum látum og komst í 5-1. Jóhann Einarsson var í miklum ham og skoraði þrjú af þessum mörkum og Arnar Þór Fylkisson lokaði markinu, varði m.a. vítakast með tilþrifum.
Akureyri hafði áfram góð tök á leiknum en Afturelding vann sig smám saman inn í leikinn og náði að minnka muninn í eitt mark, 10-9 en Akureyri var sterkari aðilinn á lokakafla hálfleiksins og leiddi með þrem mörkum, 16-13 í hálfleik.
Akureyri mætti af krafti í seinni hálfleikinn og skoraði fyrstu þrjú mörkin, forystan orðin sex mörk, 19-13 og útlitið gott. Eitthvað virtist vanta upp á einbeitinguna hjá strákunum því Afturelding vann upp forskotið og jafnaði í 21-21.
Þá gáfu strákarnir í á nýjan leik, fjögur mörk í röð og enn á ný var staðan orðin vænleg en Afturelding var ekki hætt og þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 27-26. Akureyri svaraði með tveim mörkum í röð og enn á ný náði Afturelding að minnka muninn í eitt mark, 29-28 en komust ekki lengra og eins marks sigur heimamanna því staðreynd og strákarnir þar með komnir í 8 - liða úrslit í Coca Cola bikar 2. flokks.
Mörk Akureyrar: Hafþór Vignisson 7, Vignir Jóhannsson 6, Heimir Pálsson 5 (2 úr vítum), Jóhann Einarsson 3, Kristján Garðarsson 3, Daði Jónsson 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2 og Aron Tjörvi Gunnlaugsson 1 mark. Arnar Þór Fylkisson stóð í markinu og varði 16 skot, þar af 1 vítakast.
Mörk Aftureldingar: Gestur Ingvarsson 7, Kristófer Daðason 6, Bjarki Kristinsson 4, Ástþór Eiríksson 3, Ísak Viktorsson 3, Unnar Jónsson 3 og Jökull Jónsson 2 mörk. |