Kofafélagarnir í bústað 4 virðast ekki vera í stórinnkaupum í Noregi
| | 27. janúar 2008 - Akureyri handboltafélag skrifarLaugardagspistill frá bústað 4 í NoregiJæja, kjúklingur dauðans er að skrifa. Þá er laugadagur að kveldi kominn. Við sitjum hérna strákarnir í bústað 4, eða eins og ég kýs að kalla hann: "Breiðavíkurbústað", en það er nú ekkert grófasta nafnið sem hefur komið á bústað nú þegar, enda hafa menn verið duglegir við að búa til nöfn á þá.
Dagurinn í dag var mjög góður, við byrjuðum á því að vinna Elverum í fyrsta leiknum okkar í dag, nokkuð sannfærandi þó svo að úrslitin bendi ekki til þess en við vorum betra liðið allan leikinn. Guif mættu svo sterkir til leiks og unnu síðasta leikinn í mótinu þannig að öll liðin urðu jöfn. Það hefði nú ekki verið leiðinlegt að krækja í fyrstu dollu liðsins, meira að segja í Noregi. Noregur er þetta hörkuland líka. Allt mjög notalegt og þægilegt, þó svo að verðið sé að setja svip á okkur. Ekki veðrið þó svo að það sé kalt, heldur verðið, að fólk sé að kvarta á Íslandi, púff, skoðið Noreg.
Þegar leikirnir voru búnir hentu menn sér í sturtu og heim í kofana, þar var stutt stopp. Knútur keyrði okkur svo í mollið góða, þar sem nokkrir af eldri leikmönnum liðsins voru með innkaupalista frá konunum. Þeir voru nú kannski ekki settir á hausinn en allavegana á herðarnar, svo dýrt land er Noregur. Síðan leið dagurinn þannig að menn sváfu og slöppuðu af, enda þreyta í mönnum.
Kvöldið einkenndist síðan af spjalli og pókerspili þar sem Björn Óli bar sigur úr bítum og vann sér inn 11.800 kr íslenskar. Þvílíkur leikmaður sem hann er. Skorar 5 mörk í leik og vinnur póker.
Eitthvað illa gengur mér að sofna, en það eru 5 tímar í það að Knut kemur og sækir okkur til þess að ferðast til Lillehammer og sjá úrslitaleikinn í EM og leikinn um 3. sætið. Ekki verður það leiðinlegt.
Nokkrir punktar í restina: Yngri unnu eldri svo stórt í fótbolta á fimmtudaginn að fótboltinn var blásinn af á föstudaginn. Einhverskonar magakveisa gengur meðal leikmanna, þó ekki í formi úrgangs, heldur lofttegunda. Yngri borguðu sínar skuldir í dag, þar sem eldri unnu skotkeppni á æfingu.
Ekki meira í bili, við biðjum að heilsa heim.
Kjúklingur kjúklinganna Siguróli, ásamt Arnari, Hákoni, Ása og Eika
PS. Jónatan Magnússon var markahæstur á mótinu. |