Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var virkilega ánægður með sína menn í viðtali við Einar Sigtryggsson á mbl.is:„Þær áherslur sem við lögðum upp fyrir þennan leik gengu upp. Við vitum að Akureyringarnir eru með reynslumikla og klóka leikmenn en þeir eru ekkert sérlega hraðir. Vörnin náði að stöðva þessa menn og taka bitið úr sókninni.Í seinni hálfleiknum slaknaði aðeins á þessu en það er bara eðlilegt. Við spiluðum erfiðan leik á sunnudaginn og það var kannski smá þreyta í okkur í restina. Það hefur gengið vel hjá okkur núna. Við erum taplausir í deildinni, áfram í bikarnum og í Evrópukeppninni svo ég get ekki kvartað. Næst er það HK í deildinni, frestaður leikur og sá síðasti fyrir jól.“Einar spurði Aron um deildabikarinn sem verður á milli jóla og nýárs. „Við erum ekkert farnir að spá í þá keppni. Við hugsum bara um næsta leik og það hefur gengið hjá okkur hingað til. Við missum okkur ekkert í einhverjum skýjaborgum. Við beinum sjónum okkar bara að næsta leik því það er hann sem skiptir mestu máli".Að lokum vildi Aron hrósa Akureyringum fyrir frábæra umgjörð í kringum leikinn og magnaðan stuðning áhorfenda þótt þeir rúmlega þúsund manns sem voru í Íþróttahöllinni hafi nær allir verið á bandi heimamanna.
Hjalti Þór Hreinsson á visir.is ræddi við Elías Má Halldórsson leikmann Hauka: „Við vorum skrefinu á undan alveg frá byrjun,“ sagði Elías. „Við leggjum grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik. Mér fannst þeir mæta óvenju fúlir og pirraðir til leiks og við bara nýttum okkur það. Við keyrðum bara á þá og vorum ekkert að pirra okkur á dómurunum eða neinu slíku.Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik en svo verða menn pínu værukærir þegar við erum komnir með gott forskot. Við hefðum átt að vinna þennan leik með sjö eða átta marka mun. Við gáfum eftir síðustu tíu mínúturnar, það er kannski eðlilegt. En við löndum tveimur stigum hérna á Akureyri sem ekki mörg lið gera.Ég bjóst við Akureyringum sterkari, ég verð að viðurkenna það. Ég átti von á brjáluðum leik, en þetta var auðveldara en ég átti von á,“ sagði Elías.Og þjálfarinn Aron Kristjánsson tók í sama streng er hann ræddi við Hjalta: „Ég verð að segja að ég bjóst við þeim sterkari. Þeir eru með flott lið og hafa verið að spila vel en við áttum ágætis leik í dag. Við erum ánægðir með okkar leik og sigurinn,“ sagði Aron.