Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Hverju skyldi Rúnar vera að hvísla að Heimi?









18. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitakeppnin 2002: KA - Haukar í 4 liða úrslitunum

Föstudaginn 26. apríl 2002 áttust KA og Haukar við öðru sinni í 4 liða úrslitum Íslandsmótsins. Akureyrarliðið hafði gert góða ferð í Hafnarfjörðinn tveim dögum áður og sigrað Haukana eftir ævintýralega viðureign. Með sigri í þessum leik myndi Akureyrarliðið komast í lokaúrslitin en sigur Hauka myndi færa þeim úrslitaleik í Hafnarfirði. Rúnar Sigtryggsson þáverandi leikmaður Hauka missti af fyrri leiknum vegna meiðsla en nú var hann mættur í slaginn enda allt í húfi.

Leikurinn varð einn sá eftirminnilegasti í íslensku handboltasögunni og fara hér á eftir umfjallanir Morgunblaðsins og DV-Sports um viðureignina. Auk þess hefur Þórir Tryggvason sent okkur ljósmyndir frá leiknum.

Byrjum á umfjöllun Einars Sigtryggssonar úr Morgunblaðinu, laugardaginn 27. apríl, 2002

KA felldi meistarana á Akureyri

KA-menn eru komnir í úrslit Íslandsmótsins í handknattleik karla annað árið í röð. Þeim tókst hið óvænta í gærkvöldi; að leggja sjálfa Íslands- og bikarmeistara Haukanna að velli á Akureyri, 27:26, í leik sem var í senn bráðfjörugur og hörkuspennandi. KA vann þar með einvígið, 2:0, og tveggja ára einveldi Haukanna í íslenskum handknattleik er þar með lokið. Nú verða það Valur og KA sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í ár, rétt eins og árin 1995 og 1996.

Aðeins eitt mark skildi liðin að í lokin en segja má að KA hafi lagt grunn að sigrinum með góðum leikkafla í upphafi síðari hálfleiks. Þá náðu þeir fjögurra marka forystu sem Haukunum tókst aldrei að vinna upp. Fjórum sinnum minnkuðu Íslandsmeistararnir muninn í eitt mark og á lokasekúndunum fengu þeir færi til að jafna en Egidius Petkevicius markvörður KA kom í veg fyrir það. Liðið sem allir spáðu að myndi verja titil sinn var úr leik og KA-strákarnir sem töpuðu einmitt í úrslitunum í fyrra náðu fram hefndum með einstakri baráttu og dugnaði. Þeir leika við Val í úrslitum þetta árið og rifjar það upp góða stemmningu frá 1995 og 1996 en sömu lið áttust einmitt við þau ár og hafði Valur betur í bæði skiptin. Hvort langræknir KA-menn ná fram hefndum nú verður að koma í ljós en víst er að í þeirri rimmu verður ekkert gefið eftir.

Leikur KA og Hauka byrjaði einstaklega vel og bæði lið buðu upp á glimrandi handbolta. Sóknir voru hraðar og vel útfærðar. KA-menn höfðu frumkvæðið á þessum kafla og héldu því fram í miðjan hálfleikinn. Haukar komust þá í tveggja marka forystu 8:10 og virtust ætla að sigla lengra fram úr. Þétt 6-0 vörn þeirra olli heimamönnum vandræðum og Bjarni Frostason varði nokkur skot. KA-mönnum tókst að laga hjá sér sóknarleikinn og með harðfylgi jöfnuðu þeir 11:11. Upp frá því tók við æsilegur kafli og ævintýralegur fyrir heimamenn sem léku manni færri sex mínútur í röð. Haukarnir nýttu sér það og náðu tveggja marka forystu á ný, 11:13. Manni færri gerðu KA-menn hið ómögulega og skoruðu þrjú næstu mörk. Haukarnir skoruðu síðasta mark hálfleiksins og staðan jöfn 14:14.


Jónatan í hrömmunum á Aliaksandr Shamkuts, línu- og varnarjaxli Hauka

Á fimm mínútna kafla í byrjun síðari hálfleiks skoruðu KA-menn fjögur mörk gegn engu. Staðan orðin 18:14 en þá hrukku Haukar aftur í gang. Þeir minnkuðu muninn strax í eitt mark en komust ekki nær. KA svaraði með tveimur mörkum og næstu mínútur voru Haukum erfiðar. KA náði þriggja marka forystu á ný með tveimur mörkum frá Jónatan Magnússyni. Aron og Rúnar svöruðu fyrir Haukana og þeir áttu svo möguleika á að jafna leikinn en Ásgeir Örn Hallgrímsson þrumaði boltanum í stöngina er þeir reyndu sirkusmark. KA refsaði Haukunum með marki og í næstu sókn Hafnfirðinga skaut Jón Karl Björnsson yfir úr vítakasti. KA átti síðan skot sem Magnús Sigmundsson varði en Jóhann Gunnar Jóhannsson hirti boltann umkringdur Haukamönnum og hnoðaði honum í markið af miklu harðfylgi. Staðan 24:21 og níu mínútur eftir. Liðin skiptust nú á að skora. Staða KA var mjög vænleg 27:24 og rúmar þrjár mínútur eftir. Þeir misstu annan mann útaf og Haukarnir minnkuðu muninn í eitt mark. Fyrst skoraði Aron eftir glæsilegt gegnumbrot og Einar Örn skoraði svo auðvelt mark úr horninu. Staðan var nú 27:26, KA-menn manni færri og tæpar tvær mínútur eftir. Haukar fengu boltann hálfri mínútu fyrir leikslok en vörn KA hélt velli. Haukar fengu aukakast þegar fimm sekúndur lifðu. Þeir settu upp kerfi sem endaði með góðu skoti frá Aroni. Því miður fyrir hann þá varði Petkevicius og þakið hreinlega rifnaði af KA-heimilinu.


Andrius Stelmokas sleppur hér úr strangri gæslu og skorar af línunni

Það var einstök barátta og trú norðanpiltanna sem skilaði þeim þessum sigri. Þeir léku góðan varnarleik, voru mjög hreyfanlegir og fóru illa með Shamkutsk inni á línunni. Sóknarleikurinn var hraður og þrátt fyrir stöku mistök bar hann ágætis árangur. Hornamennirnir sáust lítið enda sótti KA mest inn á miðja Haukavörnina. Heimir Örn var öflugur og skoraði glæsileg mörk. Stelmokas var í mjög strangri gæslu allan tímann en þegar hann fékk boltann var ekki að sökum að spyrja. Aðrir voru minna áberandi en skiluðu sínu.

Haukarnir voru alltaf líklegir til að komast yfir en herslumuninn vantaði. Bjarni og Magnús í markinu vörðu ágætlega og vörnin var sterk á köflum. Aron var mest áberandi í sókninni og Rúnar skilaði sínum mörkum. Hinn frábæri línumaður Shamkuts átti erfitt uppdráttar enda nánast í gjörgæslu hjá KA-vörninni. Aðrir hafa oft átt betri dag en stundum er sagt að enginn spili betur en andstæðingurinn leyfi og það átti svo sannarlega við í þessum leik.

KA – Haukar
KA-heimilið, Akureyri, undanúrslit Íslandsmóts karla, annar leikur, föstudaginn 26. apríl 2002.
Gangur leiksins: 0:1, 2:1, 8:7, 8:10, 11:13, 14:13, 14:14, 18:14, 18:17, 22:19, 22:21, 25:22, 27:24, 27:26.

Mörk KA: Halldór Sigfússon 7/5, Andrius Stelmokas 5, Heimir Örn Árnason 5, Jóhann G. Jóhannsson 4, Heiðmar Felixson 2, Jónatan Magnússon 3, Einar Logi Friðjónsson 1.
Utan vallar: 14 mínútur.

Mörk Hauka: Rúnar Sigtryggsson 7, Halldór Ingólfsson 6/4, Einar Örn Jónsson 4, Aron Kristjánsson 4, Jón Karl Björnsson 3/1, Vignir Svavarsson 1, Aliaksandr Shamkuts 1.
Utan vallar: 6 mínútur.


Dómarar: Anton Pálsson og Hlynur Leifsson. Bærilegir í heild.

Áhorfendur: Hátt í 1.000.

Þannig vörðu þeir:
Egidijus Petkevicius, KA, 15/1 (7 þar sem boltinn hrökk aftur til mótherja); 6 (2) langskot, 4 (3) eftir gegnumbrot, 2 (1) úr hraðaupphlaupi, 1 úr horni, 1 (1) af línu, 1 víti.

Bjarni Frostason, Haukum, 12 (6 til mótherja); 6 (1) langskot, 1 (1) eftir gegnumbrot, 1 (1) úr hraðaupphlaupi, 1 úr horni, 3 (3) af línu.
Magnús Sigmundsson, Haukum, 4 (2 til mótherja); 3 (1) langskot, 1 (1) eftir gegnumbrot.



Eins og gefur að skilja var ólík stemming í herbúðum liðanna eftir leikinn. Morgunblaðið ræddi við Atla Hilmarsson, þjálfara KA og síðan Einar Örn Jónsson leikmann Hauka eftir leikinn.

„Við erum alls ekki hættir“

KA gerði sér lítið fyrir og sló Íslands- og bikarmeistara Hauka út í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í gærkvöld. KA vann þá annan leik liðanna, 27:26, og einvígið því 2:0. Fráfarandi þjálfari KA, Atli Hilmarsson, var í skýjunum í leikslok, umvafinn glaðbeittum stuðningsmönnum. Hann jánkaði því að úr því KA-liðið væri komið alla leið í úrslit kæmi ekki annað til greina en að hætta með reisn og skila titli í hús.

Við erum alls ekki hættir fyrst við erum komnir þetta langt og nú er bara að vinna úrslitaleikina. Annað kemur ekki til greina,“ sagði hinn sigursæli þjálfari KA. Hann var einstaklega ánægður með strákana sína í þessum leik. „Við vorum í þeirri stöðu að við urðum að vinna þennan leik. Haukar eru ekki vanir að láta taka sig í bólinu tvisvar í röð á heimavelli og því var ekki um annað að ræða en taka á öllu núna. Ég er sérlega stoltur af strákunum fyrir það að hafa aldrei bilað á taugum. Þeir voru alltaf jafn yfirvegaðir, hvort sem þeir voru tveimur mörkum undir eða fjórum mörkum yfir. Það gildir að halda haus í leikjum sem þessum og þeir notuðu kollinn svo sannarlega,“ sagði Atli og hrósaði liðsheildinni og baráttunni í liðinu frá upphafi til enda.


Atli Hilmarsson ærðist af gleði í leikslok eins og flestir í húsinu

Veturinn nánast ónýtur

Einar Örn Jónsson, hornamaðurinn snjalli í liði Hauka, sagði að tapið hefði verið gríðarlegt áfall fyrir liðið. „Já, veturinn er nánast ónýtur. Við lögðum náttúrulega upp með það að vinna heimaleikina okkar og það má segja að seinni hálfleikur í leiknum á miðvikudaginn hafi gert útslagið. Á þeim 30 mínútum eyðilögðum við fyrir okkur alla 30 leikina í vetur.“ Hann sagði að þótt Haukar hefðu sigrað örugglega í deildinni hefði sá titill aðeins verið áfangi því Íslandsmeistaratitillinn hefði verið markmiðið og um hann hefði öll vinnan snúist. Einar Örn sagði að Haukar myndu nú örugglega fara vel yfir það sem hefði farið úrskeiðis.
„KA-menn eru vel að sigrinum komnir. Þeir léku mjög vel í seinni hálfleik á Ásvöllum og svo í þessum leik.
Þótt það sé sárt að tapa verðum við að taka því eins og íþróttamenn og óska KA-mönnum til hamingju með að vera komnir í úrslit,“ sagði Einar Örn Jónsson.


Þá er komið að umfjöllun DV-Sports um leikinn er þar er það ÓK sem skrifar um leikinn og ræðir síðan við þjálfara liðanna þá Viggó Sigurðsson og Atla Hilmarsson

Sigurbros á vörum

-KA-menn slógu Íslands- og bikarmeistara Hauka út úr keppninni

KA er komið í úrslit Essodeildar karla eftir 27-26 sigur á íslands- og bikarmeisturum Hauka í annarri viðureign liðanna á Akureyri á föstudag. Grunninn lögðu KA-menn á Ásvöllum á miðvikudag með góðum útisigri sem færði þeim úrslitarimmu við fornan fjanda, Val.

Leikurinn á föstudag var spennandi frá byrjun og jafnt á öllum tölum, í bókstaflegri merkingu fram í stöðuna 8-8, þegar Haukar náðu frumkvæðinu í leiknum. Sóknarleikur beggja liða var mjög hraður og skemmtilegur framan af og annars ágætar varnir þeirra urðu oftast að lúta í lægra haldi. KA-menn hófu leikinn á sinni hefðbundnu 3:2:1 vörn og Haukar voru í sinni 6:0 vörn og bæði lið spiluðu ákveðið enda mikið í húfi. Um miðjan hálfleikinn fór síðan aðeins að halla undan fæti hjá heimamönnum og þeir skiptu í 6:0 vörn sem skilaði þó ekki alveg tilætluðum árangri. Haukarnir gengu á lagið en voru oft á tíðum kærulausir í sóknarleiknum og náðu því ekki að hrista KA-menn af sér.


Sævar Árnason ógnar að marki Haukanna

Lukkan gekk síðan í lið með heimamönnum undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir unnu upp tveggja marka forystu Hauka þrátt fyrir að vera á löngum stundum einum færri og í raun hægt að segja að miðað við allar aðstæður hefðu Haukarnir átt að hafa forystu í hálfleik í stað jafnrar stöðu.

Fjögur fyrstu mörkin
Það má segja að KA-menn hafi lagt grunninn að sigri sínum í upphafi síðari hálfleiks. Þeir skiptu aftur í 3:2:1 vörnina sem var erfið sem aldrei fyrr og skilaði þeim fjögurra marka forskoti þegar fimm mínútur voru liðnar. Haukarnir voru á þessum tíma að gera mikið af mistökum og jafnvel vottaði fyrir örvæntingu í leik þeirra.

Reynsla Haukanna er þó meiri en svo að þeir játi sig sigraða þegar svo mikið er eftir af leik og þeir fóru smátt og smátt að saxa á forskotið án þess þó að ná að jafna leikinn, alltaf var þetta eina mark þeim ofviða.

Reyndar varð leikurinn um stundarsakir æði líkur borðtennis þegar liðin fóru að misnota færi og missa boltann í gríð og erg.

Tvær sóknir Haukanna upp úr miðjum síðari hálfleik skildu að líkindum milli feigs og ófeigs. í annað skiptið fékk Ásgeir Örn Hallgrímsson sendingu inn i teig en skaut í stöngina en mark þarna hefði hleypt krafti í Haukana, krafti sem ómögulegt er að segja hvert hefði leitt þá. Skömmu síðar kom hins vegar vítamínsprauta fyrir KA-menn þegar Egedijus Petkevicius varði vítakast Jóns Karls Björnssonar.

Þrátt fyrir að eftir þetta hafi Haukarnir haldið áfram að sækja að KAmönnum og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir og KA-menn þremur mörkum yfir sáu þeir að nýju glitta í jafnteflið þegar Heimi Erni Árnasyni var vikið af velli í tvær mínútur. Haukarnir náðu að minnka muninn i eitt mark að Heimi fjarverandi og allt í einu var full spenna komin í leikinn aftur.


Ótrúlega flott augnablik þar sem Heimir stingur sér í gegnum Haukavörnina,
hvað skyldi Rúnar vera að segja við hann?

KA-menn komust í sókn sem dróst mjög á langinn og á endanum neyddist Heiðmar Felixson til að skjóta úr erfiðu færi en Magnús Sigmundsson varði. Haukarnir fengu boltann þegar 40 sekúndur voru eftir og ruku í sókn en tóku síðan leikhlé á endanum. Þá kom Þorkell Magnússon inn fyrir Magnús markvörð sem sjöundi sóknarmaður og þá fór að glitta i glufur í vörn KA. Aron Kristjánsson nýtti sér eina þeirra og skaut úr ágætu færi en örlagavaldurinn að þessu sinni var Egedijus Petkevicius, markvörður KA, sem varði skotið og tryggði þar með sigurinn.

Áttundi maðurinn
Petkevicius átti fínan leik i marki KA og varði oft á tíðum úr dauðafærum. Jónatan Magnússon fór að vanda fyrir frábærri vörn heimamanna en í sókninni voru það Andrius Stelmokas og Heimir sem létu mest að sér kveða auk Halldórs Sigfússonar sem skoraði mikilvæg mörk, reyndar flest úr vítum. Áttundi maðurinn á pöllunum skilaði sínu einnig sem sjaldan fyrr.


Stuðningsmenn Akureyrarliðsins voru að vanda frábærir

Rúnar Sigtryggsson var mjög sterkur í liði Hauka og skiljanlegt að þeir hafi saknað hans í síðasta leik. Aron var síógnandi og erfiður viðureignar og Einar Örn Jónsson var traustur. Haukarnir fengu einnig góðan stuðning áhorfenda en þó nokkrir höfðu lagt leið sína norður enda mikið í húfi.


Stuðningsmenn Hauka fjölmenntu norður

Reyndar vakti það nokkra athygli í byrjun leiks að Jón Karl og Vignir Svavarsson voru ekki í byrjunarliði Hauka, þrátt fyrir að hafa leikið mjög vel að undanförnu en Jón Karl skoraði 13 mörk úr 13 skotum í fyrri leik liðanna. Þetta hafði þó ekki teljandi áhrif þar sem Haukaliðið hefur á mjög sterkum leikmönnum að skipa. -ÓK

KA:
Mörk/víti (skot/víti)
: Halldór Sigfússon 7/5 (9/5), Andrius Stelmokas 5 (6), Heimir Örn Árnason 5 (7), Jóhann G. Jóhannsson 4 (5), Jónatan Þór Magnússon 3 (6), Heiðmar Felixson 2 (12), Einar Logi Friðjónsson 1 (2), Sævar Árnason (2).

Mörk úr hraðaupphlaupum: 4 (Stelmokas 2, Jóhann, Heiðmar).
Vítanýting: Skorað úr 5 af 5.
Fiskuð víti: Stelmokas 5.

Varin skot/víti (skot á sig: Egidijus Petkevicius 15/1 (41/4, hélt 7, 37%), Hans Hreinsson 0 (2/2,0%).
Brottvísanir: 14 mínútur.

Haukar:
Mörk/víti (skot/víti)
: Rúnar Sigtryggsson 7 (8), Halldór Ingólfsson 6/4 (9/5), Einar Örn Jónsson 4 (6), Aron Kristjánsson 4 (10), Jón Karl Björnsson 3/1 (5/2), Vignir Svavarsson 1 (1), Aliaksandr Shamkuts 1 (1), Þorkell Magnússon (1), Sigurður Þórðarson (1), Ásgeir Örn Hallgrímsson (3).

Mörk úr hraðaupphlaupum: 3 (Rúnar 3).

Vítanýting: Skorað úr 5 af 7.
Fiskuð víti: Aron 4, Shamkuts, Einar Örn, Jón Karl.

Varin skot/víti (skot á sig): Bjarni Frostason 15 (36/4, hélt 2, 42%), Magnús Sigumundsson 5 (11/1, hélt 0, 45%).
Brottvísanir: 6 mínútur.
Dómarar (1-10): Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson (6).

Gæði leiks (1-10): 8.

Áhorfendur: 1074.

Maður leiksins: Andrius Stelmokas, KA

Supum seyðið af tapinu á Ásvöllum

Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka, var að vonum ósáttur við lyktir mála og þá staðreynd að meistaratitillinn og þrennan eftirsótta væru gengin meisturunum úr greipum.

„Auðvitað eru þetta vonbrigði, við höfðum titil að verja. Vonbrigðin liggja á heimavellinum á Ásvöllum, það liggur þungt á okkur og það var alger klaufagangur að fara þannig með þann leik,“ sagði Viggó í samtali við DV-Sport eftir leikinn á föstudag.

„Ég tel að KA-menn hafi verið mjög heppnir að fara með jafntefli inn í hálfleik. Við vorum að fara með fimm hraðaupphlaups- og dauðafæri þar sem reyndir leikmenn voru að klúðra boltanum. KA-menn geta verið mjög sáttir við 14-14 stöðu í hálfleik.“ Þess má geta að Haukar voru einum fleiri í sex af síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks en á þessum tíma skoraði KA tvö mörk auk þess sem Haukar misnotuðu m.a. vítakast og eitt hraðaupphlaup.

„Okkur vantaði betri markvörslu í leiknum, hún var ekki nærri nógu góð í svona leik. Á endanum er það sem skipti máli þegar upp er staðið að Petkevicius varði meira úr dauðafærum en okkar markmenn. Ekki að ég sé að álasa þeim en það er þetta sem skiptir máli þegar upp er staðið.

Þetta var frábær leikur í kvöld, frábær handbolti sem liðin buðu upp á, þetta var eins og leikir gerast bestir á Íslandi. Það var engin þreyta í liðinu, við sýndum mjög góða baráttu og mikinn karakter. Við misstum okkur í þrjátíu mínútur á Ásvöllum og erum að súpa seyðið af því,“ sagði Viggó Sigurðsson. -ÓK

Með hugann við Íslandsmeistaratitilinn

Atli Hilmarsson, þjálfari KA, var himinlifandi, líkt og aðrir KA-menn, eftir sigurinn.
„Það var rosalega gott að sigra á Ásvöllum og við vorum í sjöunda himni þegar við komum að sunnan,“ sagði Atli aðspurður um áhrif fyrri leiksins á leikinn á föstudag. „Það var hins vegar líka mikilvægt að við skyldum geta einbeitt okkur aftur að hörkuleik og verið tilbúnir í slaginn aftur. Það er oft þannig þegar menn vinna góða sigra að þeir detta niður.

Ég var mjög ánægður hvernig menn héldu taktinum allan tímann, sama hvað á gekk. Við vorum alltaf inni í leiknum, hvað sem við vorum að gera, við vorum tveimur undir, fjórum yfir, tveimur færri en héldum alltaf áfram. Við lulluðum alltaf áfram og það er það sem gildir. Kollurinn fleytti okkur yfir þessa hindrun, því þegar allir eru orðnir þreyttir þá þarf að nota hann og það held ég að við höfum gert.

Við sáum það í hálfleiknum að við vorum ekki að spila neina vörn en frábæra sókn. Við sögðum okkur það í hálfleiknum að ef við myndum spila snefil af vörn þá myndum við vinna þetta. Það kom á daginn, við byrjum aftur brjálaðir í 3:2:1 vörn, komumst fjórum mörkum yfir og þeir gátu aldrei minnkað það niður, ekki lengra en niður í eitt mark.“

Atli segist aðspurður ekki hafa óttast það að byrjun síðari hálfleiks myndi leiða til svipaðrar þróunar og varð þegar liðið komst í 3-0 á Ásvöllum á miðvikudag. „Nei, ég sá það á mönnum að þeir voru alltaf einbeittir, það var glampi í augum manna. Þrátt fyrir að við lendum í því að vera einum og tveimur færri á þeim kafla þegar þeir voru að saxa á forskotið þá var ég aldrei hræddur. Ég sá einbeitinguna sem skein úr hverju andliti.“

Stemningin i KA-heimilinu á föstudag minnti um margt á „þá gömlu, góðu daga“ þegar KA atti kappi við Val í frægum úrslitarimmum um miðjan síðasta áratug og segir Atli slíkan stuðning geysilega mikilvægan.

„Þetta er áttundi maðurinn okkar, við hrífumst með og reyndar ekki hægt annað. Alltaf þegar eitthvað bjátaði á þá komu þeir (áhorfendur) og hjálpuðu okkur. Það er ekkert grín að mæta okkur hér fyrir fullu húsi, áhorfendur eru frábærir og þeir hjálpuðu okkur yfir erfiða hjalla. Við erum í þeirri stöðu núna að vera alltaf á útivelli fyrst, en vorum með heimaleikjaréttinn í fyrra. Nú erum við að byrja á útivelli og náum góðum úrslitum vegna þess að pressan er á heimaliðinu því enginn vill koma hingað í annan leik og þurfa að vinna.“

KA-menn taka á móti Valsmönnum í úrslitarimmunni og Atli gerir sér fullkomlega grein fyrir því að þar er um erfitt verkefni að ræða. „Við erum að fá þarna næstbesta lið á íslandi, ég vil meina að Haukarnir séu með það besta. Við þurfum að halda áfram eins og verið hefur. Ég er mjög ánægður með að vera ekki að fara í þriðja leik á sunnudaginn og getum þvi hvílt leikmenn og síðan farið að einbeita okkur að Val. Við spiluðum þrjá leiki við þá í vetur, töpuðum fyrir þeim í bikar en unnum báða leikina í deildinni. Þetta verða hörkuleikir, við byrjum á útivelli og lykillinn að þessu að sjálfsögðu að vinna á Hlíðarenda.“

Atli fagnar þvi að fá lengri tima með KA-liðinu áður en hann heldur til Þýskalands. „Það er stórkostlegt. Maður fékk það í hausinn fyrir Gróttu/KR-leikina að þetta yrði endasleppt hjá KA mönnum af því að þjálfarinn væri með hugann í Þýskalandi, Heiðmar á Spáni, hinir og þessir að hætta og aðrir að fara suður. Ég held að menn hafi sýnt það á vellinum hvar menn eru með hugann, þeir eru með hugann við það að fá þennan titil hingað heim,“ segir Atli. -ÓK
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson