Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Ef menn ætla að fara alla leið þá þarf að klára hvern áfanga á leiðinni!







18. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitakeppnin 2002: Haukar - KA í 4 liða úrslitunum

Þá er komið að umfjöllun um fyrsta leik Hauka og KA í 4 liða úrslitunum árið 2002 en sá leikur fór fram á Ásvöllum. Eins og við höfum rakið hér í fyrri greinum voru Haukarnir deildar- og bikarmeistarar þetta árið en KA hafði endað í 5. sæti deildarinnar.

Hér á eftir fer umfjöllun Guðmundar Hilmarssonar sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. apríl 2002.

Mögnuð endurkoma hjá KA

Ein magnaðasta endurkoma hjá liði sem undirritaður hefur orðið vitni að í íþróttum varð hjá KA-mönnum á Ásvöllum í gær þar sem þeir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Íslandsmeistara Hauka í framlengdum leik, 34:32. Haukar höfðu yfirburðastöðu eftir fyrri hálfleikinn. Þeir voru átta mörkum yfir og ekkert sem benti til annars en að auðveldur sigur þeirra væri í uppsiglingu. En KA sýndi að allt er hægt með ódrepandi baráttuvilja. Það snéru leiknum sér í vil - frábær frammistaða norðanmanna og meistarar tveggja síðustu ára eru svo sannarlega komnir upp að hinum títtnefnda vegg.

KA-menn hófu leikinn á Ásvöllum með látum og eftir þriggja mínútna leik var staðan orðin 3:0. Haukarnir virtust ekki átta sig á mjög framstæðri vörn KA-liðsins en um leið og þeir áttuðu sig á henni og meiri yfirvegun kom í leik þeirra náðu þeir tökum á leiknum. Haukarnir voru ekki nema sjö mínútur að vinna upp mun KA-manna og gott betur því eftir 10 mínútna leik voru Haukar komnir í forystu, 6:4. Meistararnir létu ekki þar við sitja og með frábærri spilamennsku jafnt í vörn sem sókn tóku Haukarnir leikinn algjörlega í sínar hendur og KA-menn vissu ekki hvaðan á sig veðrið stóð. Þeir fundu engin svör við geysiöflugum varnarmúr Hauka og hvað eftir annað náðu varnarmenn Hauka að vinna knöttinn af KA-mönnum og skora ódýr mörk úr hraðaupphlaupum. Jón Karl Björnsson fór þar fremstur í flokki en hann skoraði 6 af fyrstu 9 mörkum Hauka, flest úr hraðaupphlaupum. Haukar luku fyrri hálfleiknum með glæsibrag - sirkusmark Arons Kristjánssonar gaf Haukum átta marka forskot í veganesti fyrir síðari hálfleikinn.

KA-menn hófu síðari hálfleikinn með því að skora tvö fyrstu mörkin og gáfu þar með tóninn fyrir það semkoma skyldi en líklega hefur Atli Hilmarsson, þjálfari KA, vakið sína menn í leikhléinu og þá sérstaklega Heiðmar Felixson. Heiðmar komst ekki á blað í fyrri hálfleiknum og reyndi varla skot en hann kveikti svo sannarlega bálið hjá sínum mönnum í upphafi þess síðari. Hann skoraði fjögur af fyrstu sex mörkum KA og eftir 11 mínútna leik var skyndilega komin smáspenna í leikinn enda KA-menn þá búnir að skora 8 mörk gegn aðeins þremur.


Heiðmar Felixson skoraði níu mörk fyrir KA gegn Haukum í gærkvöld, öll í síðari hálfleik og framlengingu, og hér ógnar hann vörn Hauka.

Haukar náðu að auka muninn á nýjan leik í fimm mörk en baráttuglaðir KA-menn voru ekki á því að játa sig sigraða. Á meðan allt gekk upp hjá KA, sérstaklega í sóknarleiknum þar sem liðið misnotaði varla sókn, féllu Haukarnir í þá gryfju að ætla að halda fengnum hlut. Vörn Haukanna, sem hafði verið nánast eins og ókleifur múr, tók smátt og smátt að molna í sundur og fyrir vikið áttu KA-menn greiða leið að markinu. KA saxaði jafnt og þétt á forskot Haukanna og þegar þrjár mínútur voru til leiksloka minnkaði Andrius Stelmokas muninn í eitt mark, 26:25.

Í næstu sókn Hauka var Jónatani Magnússyni, hinum eitilharða varnarjaxli KA-manna, vikið af leikvelli en Stelmokas reyndist sínum mönnum dýrmætur. Hann náði að stela knettinum af sofandi sóknarmönnum Hauka og jafna metin, 26:26, rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok. Heimir Örn Árnason fékk gullið tækifæri til að endurtaka sama leik og Stelmokas en Bjarni Frostason sá við honum og varði. Spennan var gífurleg og þegar ein og hálf mínútu lifði leiksins kom Jón Karl Haukunum yfir með marki úr vítakasti. KA-menn brunuðu í sókn og þegar ein mínúta var eftir fékk KA víti sem Heiðmar skoraði úr af öryggi. Haukar gerðu örvæntingarfullar tilraunir til að tryggja sér sigur á lokasekúndum en tókst ekki. KA-menn fögnuðu en Haukar voru niðurbrotnir.

Í framlengingunni kom berlega í ljós hverjir ætluðu sér að vinna. Haukarnir voru greinlega ekki búnir að jafna sig á áfallinu við það að missa niður unninn leik en liðsmenn KA mættu í framlenginguna með sigurglampann í augunum. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og stemmningin í þeirra liði, sigurviljinn og óbilandi sjálfstraust var nokkuð sem Haukar réðu ekki við.

Fyrsta tap Hauka á heimavelli í vetur var staðreynd og ekki gat það komið á verri tíma. Það var hreint með ólíkindum að sjá hvernig hið leikreynda lið Hauka gjörsamlega missti tökin sem það hafði. Haukar léku fyrri hálfleikinn eins og meisturum sæmir en í síðari hálfleik komu miklar brotalamir fram á leik þeirra. Það hlýtur að valda áhyggjum að annan leikinn í röð missa þeir niður öruggt forskot og spurning hvernig það fer í leikmenn þeirra að lenda í áfalli eins og þessu. Jón Karl Björnsson var yfirburðamaður hjá Haukum en ljóst er að Rúnars Sigtryggssonar er sárt saknað í liði Hauka þó svo hann hafi verið í leikmannahópnum að þessu sinni en hann kom nánast ekkert við sögu.

Það er ekki hægt annað en að dást að frammistöðu KA-liðsins og afrekinu sem það vann í gær verður varla með orðum lýst. Norðanmenn voru eins og börn í höndum Hauka í fyrri hálfleik og víst er að öll önnur lið en KA hefðu nánast lagt árar í bát með þá stöðu sem liðið var í eftir fyrri hálfleikinn. Það er kannski ósanngjarnt að tína einhvern til í liði KA sem stóð sig betur en aðrir en það er ekki hægt annað en að minnast á Heiðmar. Hann tók hamskiptum og líklega gerði það gæfumuninn. Stelmokas átti sömuleiðis frábæran síðari hálfleik og ekki má gleyma þætti Jónatans Þórs Magnússonar sem hvatti sína menn áfram allan tímann og sýndi ódrepandi baráttu.

Gangur leiksins: 0:3, 4:4, 6:4, 9:5, 11:6, 14:7, 16:8, 16:10, 18:12, 19:16, 21:18, 23:18, 26:22, 26:26, 27:26, 27:27, 27:29, 28:29, 28:30, 28:32, 20:34, 32:34.

Mörk Hauka: Jón Karl Björnsson 13/5, Einar Örn Jónsson 6, Aron Kristjánsson 5, Halldór Ingólfsson 4, Þorvarður Tjörvi Ólafsson 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1, Aliaksandr Shamkuts 1.
Utan vallar: 4 mínútur.

Mörk KA: Heiðmar Felixson 9/3, Andrius Stelmokas 7, Sævar Árnason 4, Heimir Örn Árnason 4, Jóhann G. Jóhannsson 3, Jónatan Magnússon 3, Halldór Sigfússon 2, Hreinn Hauksson 1, Egidius Petkevicius 1.
Utan vallar: 8 mínútur.

Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Voru mistækir, einkum í síðari hálfleik og við það að missa tökin á leiknum.

Áhorfendur: Um 1.500.

Þannig vörðu þeir:
Bjarni Frostason, Haukum 15/1 (þar af 3 skot, sem knötturinn fór aftur til mótherja). 8 (2) langskot, 1 af línu, 1 vítakast, 1 úr horni, 3(1) eftir gegnumbrot, 1 hraðaupphlaup.
Magnús Sigmundsson, Haukum 1 (þar af 1 skot, sem knötturinn fór aftur til mótherja). 1 langskot.

Egidijus Petkevicius, KA 18. (þar af 8 skot, sem knötturinn fór aftur til mótherja). 6 (2) langskot, 6 (3) af línu, 3 (1) úr horni, 2 (2) eftir gegnumbrot, 1 hraðaupphlaup.

Viðtöl eftir leikinn

Eftir leikinn tók Morgunblaðið viðtöl við Atla Hilmarsson þjálfara, skyttuna Heiðmar Felixson og Einar Örn Jónsson hornamanninn eitilharða úr Haukum. Sjáum hvað kapparnir höfðu að segja:

Viljum ekki koma aftur

„Við byrjuðum of vel því það er alltaf erfitt að halda forystu í byrjun,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari KA, við Morgunblaðið eftir hinn frækilega sigur norðanmanna á Íslands- og bikarmeisturum Hauka á Ásvöllum í gærkvöldi.

Við gátum ekki spilað verr en við gerðum í fyrri hálfleik. Við höfum samt unnið upp átta mörk hérna svo við urðum að hafa trú á að við gætum sigrað en það var ótrúlegt að það skyldi takast. Við ætluðum að fá mikið af hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik en það mistókst hrapallega. Eftir hlé spiluðum við aftur á móti mjög vel, sóknin var frábær og við vorum fljótir til baka svo tókst að stöðva hraðaupphlaupin þeirra. Vörnin var frábær og við fengum hraðaupphlaupin í staðinn. Það er ekki endilega gott að fara með vindinn í bakið í framlengingu en við vorum mjög afslappaðir. Næsti leikur verður stríð. Haukar koma brjálaðir norður og við verðum að sýna svipaðan leik og í kvöld til að vinna því Haukar eru frábært lið og mig langar ekki til að koma hingað aftur.
Nú eru mínir menn í skýjunum og ég þarf að koma þeim niður aftur.“

Fengu yfirhalningu í hálfleik
„Þetta voru ótrúlegar sveiflur sagði Heiðmar Felixson, sem skoraði ekki mark í fyrri hálfleik en níu í þeim seinni. „Það var allt í vitleysu í fyrri hálfleik svo við fengum góða yfirhalningu frá þjálfaranum í hálfleik og ákváðum líka sjálfir að taka okkur saman í andlitinu eftir hlé því þetta gat ekki gengið svona lengur. Menn voru að pukrast hver í sínu horni og við gátum hreinlega ekki neitt. Þetta gat því ekki versnað. Við fórum að skjóta betur, spiluðum yfirvegað til að koma okkur í færin og skjóta úr góðu færunum auk þess að fækka mistökunum og það gekk upp.“
Heiðmar sagði næsta leik erfiðan en liðin kæmu á ólíkan hátt að leiknum. „Næsti leikur verður alveg eins – barátta fram á síðustu sekúndu.
Við ætlum okkur sigur fyrir norðan því það kemur ekkert annað til greina en vinna Hauka heima fyrir framan okkar áhorfendur. Ég veit ekki hvort þessi úrslit fá svo mikið á Haukana því þeir eru með mjög leikreynt lið og brotna ekki niður. Við erum hins vegar ungir og klikkaðir og komum tvíefldir þar sem frá var horfið,“ sagði Heiðmar.

Þveröfugt eftir hlé
„Við ætluðum að spila harða vörn, fara út á móti skyttum þeirra og gæta þess að opnaðist ekki inn á línuna hjá þeim en þetta átti að skila okkur hraðaupphlaupum og þau urðu mörg í byrjun,“ sagði Einar Örn Jónsson úr Haukum eftir leikinn. „Við spiluðum glimrandi vel í fyrri hálfleik en í þeim síðari gerðum við alveg þveröfugt, hættum þá að fara út á móti annarri skyttunni, sem fór strax að raða inn mörkum. Þá fóru ekki réttir menn út úr vörninni á móti þeim og þá mynduðust göt alls staðar í vörninni. Við hættum að fá hraðaupphlaupin og byrjuðum að rekja boltann alltof mikið í sókninni svo okkur tókst alls ekki að opna vörn KA og fengum á okkur hraðaupphlaup í staðinn. Það má því segja að við höfum spilað með KA liðinu eftir hlé.“

Haukar hafa oft komist í hann krappan en tókst ekki að bjarga sér nú. „Við höfum áður lent í því að halda góðri stöðu en misst hana niður og töluðum í hálfleik um að það mætti alls ekki gerast heldur halda áfram að láta boltann ganga,“ sagði Einar en bætti við Haukar gætu farið léttilega með KA. „Við fórum norður í fimmta leik í fyrra og unnum þar þá í deildinni í vetur svo að við vitum hvernig á að vinna KA og það er alveg eins og við þurfum að gera hérna á heimavelli. En þá þurfum við að gera eins og lagt er fyrir allan leikinn – ekki í þrjátíu eða fjörutíu mínútur, það þarf að spila leikinn þar til yfir lýkur. Allir sem sáu fyrri hálfleikinn sjá að við eigum að fara létt með KA menn.“

Umfjöllun DV-Sport um leikinn

Við birtum hér einnig umfjöllun IM úr DV-Sport eftir leikinn en þar ræðir hann einnig við þjálfarana, Atla Hilmarssn og Viggó Sigurðsson.

Ótrúlegur karkter

- þegar KA vann upp átta marka forskot Hauka og sigraði, 32-34, eftir framlengdan leik

KA-menn sýndu heldur betur og sönnuðu að þeir ætla sér að gera harða atlögu að titlinum á þessu síðasta tímabili Atla Hilmarssonar með liðið. Í hálfleik virtist liðið með gjörtapaðan leik, var átta mörkum undir og hafði verið á hælunum í fyrri hálfleik. En KA-menn gáfust ekki upp og náðu með mikilli seiglu og frábærum leik að vinna þetta forskot upp og hefðu reyndar getað tryggt sér sigurinn í venjulegum leiktíma. En leikurinn var framlengdur og þar reyndust KA-menn mun sterkari og sigruðu örugglega 32-34.

KA-menn byrjuðu betur og voru komnir í 0-3 eftir þrjár mínútur. Þá var sem Haukarnir vöknuðu af værum blundi. Þeir voru búnir að jafna eftir átta mínútna leik og eftir það voru þeir óstöðvandi í hálfleiknum. KA-menn byrjuðu í 3-2-1 vörn og reyndu síðan 6-0 en allt kom fyrir ekki, kannski mest fyrir óagaðan sóknarleik og góða markvörslu Bjarna Frostasonar sem Haukarnir nýttu sér til hins ýtrasta. Fyrir vikið var munurinn í leikhléi átta mörk, 16-8, og geta KA-menn þakkað markverði sínum það að hafa ekki verið enn meira undir.

En það var engu líkara en allt annað KA-lið mætti til leiks í síðari hálfleik. 3-2-1 vörnin sem ekki hafði gengið upp í fyrri hálfleik small nú vel saman og Haukarnir lentu fljótlega í erfiðleikum með hana og markvörðinn Pedkevicius. Smátt og smátt náðu KA-menn að minnka muninn og jöfnuðu í fyrsta sinn síðan snemma í fyrri hálfleik, 26-26, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Heimir Örn fékk síðan gullið tækifæri til að tryggja KA sigurinn í venjulegum leiktíma þegar hann var kominn einn í gegn eftir hraðaupphlaup en reyndi að vippa yfir Bjarna sem mistókst fullkomlega. Í staðinn fengu liðin sitt vítið hvort sem þau nýttu og Haukunum tókst svo ekki að nýta síðustu sóknina til að knýja fram sigur. Framlenging var því staðreynd.

Í framlengingunni voru KA-menn sterkari á öllum sviðum og Haukarnir áttu í raun aldrei möguleika í henni. Það sem skemmdi framlenginguna og reyndar síðasta hluta venjulegs leiktíma líka var frammistaða dómaranna sem eftir mjög góðar fyrstu 45 mínútur misstu leikinn gjörsamlega úr höndunum á sér, bæði vantaði allt samræmi í dómana og þeir voru þar að auki mjög ósamstíga sjálfir sín á milli. En það breytti því ekki að KA vann leikinn verðskuldað miðað við þá seiglu og frábæra leik sem þeir sýndu í seinni hálfleik og framlengingu.

„Við lentum í þessu sama í úrslitarimmu í fyrra. Þá unnum við upp stóran mun en náðum reyndar aðeins að jafna þá. Mér fannst Haukarnir ekki spila vel í fyrri hálfleik þó að þeir væru átta mörkum yfir og við áttum fullt inni. Í seinni hálfleik náðum við að stoppa hraðupphlaupin þeirra, unnum boltann í vörninni og fengum hraðupphlaup í staðinn. Við spiluðum frábærlega í sókninni, létum boltann ganga betur og fengum betri færi og kláruðum þetta. Nú verð ég að ná mínum mönnum niður á jörðina. Leikurinn á föstudaginn (í kvöld) verður mjög erfiður en vonandi tekst okkur að klára þetta þar því mig langar ekki að koma hingað aftur,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari KA, eftir leikinn. Hann bætti einnig við um frammistöðu Heiðmars Felixsonar. „Hann átti ömurlegan fyrri hálfleik og ég sagði bara við hann fyrir seinni hálfleik: „Nú kemur þú bara og sýnir þig! Og hann gerði það svo sannarlega.“ Heiðmar Felixson átti frábæran leik frá upphafi síðari hálfleiks og Pedkevicus varði vel. Þá var Stelmokas gríðarlega sterkur á línunni, sem og í vörninni.

„Það er áfall að klúðra þessum leik svona og við erum gífurlega vonsviknir. Við vorum með svo til unninn leík í hálfleik og heitstrengingar um að vera tilbúnir í seinni hálfleik en við misstum taktinn. Markvarslan hrynur gjörsamlega í seinni hálfleik og erum að fá á okkur 4-6 mörk einum fleiri sem hefur ekki gerst í vetur. Við spiluðum mjög óagað á köflum og misstum þá í hraðupphlaup hvað eftir annað. Við erum með þessu að kasta frá okkur heimaleikjaréttinum í bili og verðum að bíta í skjaldarrendur og koma tvíefldir til baka," sagði Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn. Hann vandaði dómurum leiksins ekki kveðjurnar. „Dómgæslan var kapítuli út af fyrir sig. Hún var hreinlega skandall út í gegn. Það var dæmt svo gjörsamlega á móti okkur að ég hef ekki orðið vitni að slíku lengi hér á Íslandi. Annar dómarinn dæmir okkur kerfisbundið út úr leiknum.“ Jón Karl Björnsson var yfirburðamaður í liði Hauka og undarlegt að hann skyldi vera tekinn út af í síðari hálfleik þegar hann var að leika þetta vel. Bjarni varði vel í fyrri hálfleik en aðrir léku undir getu. -HI

Í næsta hluta verður fjallað um leik liðanna hér á Akureyri.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson