Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Í þessum leik sannaðist að Akureyrarlið geta snúið hlutunum við á Hlíðarenda!





25. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitakeppnin 2002: Valur - KA (leikur 3)

Þriðji leikur Vals og KA í einvíginu mikla 2002 fór fram þann 6. maí að Hlíðarenda. Valur var búinn að vinna fyrstu tvo leikina og nægði einn sigur í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Ekki er laust við að margir hafi talið leikinn nánast formsatriði og búið að stilla upp veisluföngum í húsinu til að fagna titlinum í leikslok.
En enginn skyldi afskrifa Akureyringa fyrr en í fulla hnefana.
Byrjum á að fara yfir umfjöllun Víðis Sigurðssonar úr Morgunblaðinu daginn eftir:

Einbeittir KA-strákar enn í slagnum

TVEIR ósigrar í framlengdum leikjum buguðu ekki baráttuglaða KA-strákana. Þeir opnuðu slaginn um Íslandsmeistaratitilinn upp á gátt á nýjan leik með sannfærandi sigri á Val að Hlíðarenda í gærkvöld, 25:20. Þar með varð ekkert af veisluhöldum Valsmanna, sem hefðu tryggt sér titilinn með sigri. KA-menn unnu þarna sinn fyrsta leik í úrslitakeppni að Hlíðarenda frá upphafi, hann kom á ögurstundu og forðaði þessari úrslitakeppni frá því að verða sú endasleppasta í sögunni. Nú heldur slagurinn áfram og KA fær tækifæri til að jafna metin á sínum heimavelli annað kvöld. En Valur er sem fyrr með undirtökin í einvíginu, staðan er 2:1 fyrir Hlíðarendapiltana sem gáfu loks eftir í gærkvöld eftir sex sigurleiki í röð í úrslitakeppninni.

KA-menn breyttu algerlega um varnaraðferð frá fyrri leikjunum - léku 6/0 vörn en ekki 3/2/1, og hvort sem það var alfarið því að þakka eða ekki virtust þeir slá sóknarleik Valsmanna útaf laginu frá byrjun. Þar lék aðeins Freyr Brynjarsson af eðlilegri getu allan tímann og var langbesti leikmaður Vals, bæði í vörn og sókn, ásamt markverðinum sem aldrei bregst, Roland Eradze. Línuspil Valsmanna var lamað, Sigfús Sigurðsson komst ekkert áleiðis gegn Heimi Erni Árnasyni, Jónatan Magnússyni og Andrius Stelmokas sem gáfu tóninn í varnarleik KA og lokuðu algerlega á tröllið lengst af. Í stað tíu marka af línu á Akureyri á laugardag skoruðu Valsmenn aðeins tvö slík í gærkvöld, bæði í síðari hálfleik. Einbeitingin skein úr andlitum allra norðanpilta á meðan Valsmenn virtust óstyrkir og gerðu sig seka um fjöldann allan af mistökum. Þegar heimamenn náðu að komast í gegn áttu þeir eftir að sigrast á markverðinum. Egidijus Petkevicius átti stórgóðan leik í marki KA og varði alls 18 skot, sum á ótrúlegan hátt.


Jónatan Magnússon, hinn baráttuglaði leikmaður KA, fagnar sigrinum á Hlíðarenda í gærkvöld. Mynd: mbl

Valur náði aðeins tvisvar að jafna í leiknum, 2:2 og 6:6, en annars var KA 2-4 mörkum yfir nær allan fyrri hálfleikinn, 12:9 að honum loknum.


Tekið vel á í vörninni. Sævar Árnason, fyrirliði KA, sækir hér að Geir Sveinssyni og Sigfúsi Sigurðssyni, varnarjöxlum Vals. Jóhann G. Jóhannsson er við öllu búinn. Mynd: mbl

Sóknarleikur KA-manna var hraður og fjölbreyttur, Sævar Árnason var mjög ógnandi í vinstra horninu, og með Halldór Sigfússon í aðalhlutverki fundu þeir ýmsar leiðir í gegnum hina annars óárennilegu Valsvörn. Þeir voru óragir við að smeygja sér í hinar minnstu glufur og Heimir Örn Árnason krækti t.d. þannig í þrjú mikilvæg vítaköst.

Jónatan Magnússon lýsti því yfir við fréttamenn um leið og hann gekk til seinni hálfleiks að KA gæti ekki tapað þessum leik. Það segir sitt um sjálfsöryggið sem geislaði af norðanstrákum, og þeir héldu Valsmönnum í góðri fjarlægð lengst af í seinni hálfleik. Hlíðarendapiltar tóku Halldór úr umferð frá miðjum hálfleiknum en KA fór samt í 20:15. Atli Hilmarsson sendi Einar Loga Friðjónsson inná fyrir Heiðmar á þeim kafla og Einar þakkaði fyrir sig með tveimur dýrmætum mörkum á stuttum tíma. Þrjú Valsmörk í röð hleyptu spennu í leikinn á ný, en norðanmenn gáfu ekkert eftir í vörninni og gerðu næstu þrjú mörk. Jóhann Gunnar Jóhannsson valdi réttan tíma til að skora sitt eina mark - þegar hann slapp loks úr gæslu Freys og kom KA í 24:19 byrjuðu dyggir stuðningsmenn Akureyrarliðsins að fagna sigrinum. Um 250 slíkir yfirgnæfðu um þúsund Valsmenn megnið af leiknum og stóðu þétt við bakið á sínum mönnum. Það var síðan við hæfi að Halldór skoraði síðasta mark KA, sitt 11. í leiknum.


Halldór Sigfússon var hetja KA sem vann Val 25:20 á Hlíðarenda í gærkvöldi. Mynd: mbl

Það hefði líklega verið til of mikils krafist af hinum ungu lykilmönnum Vals, sem flestir eru í kringum tvítugt, að þeir héldu sama krafti sjöunda leikinn í röð. Nú kom að slaka leiknum, og þá fór flest úrskeiðis. Snorri Steinn Guðjónsson og Bjarki Sigurðsson voru mistækir þrátt fyrir góð tilþrif inná milli, en mestu munaði að Markús Máni Michaelsson náði sér aldrei á strik, skoraði ekki eitt einasta mark þrátt fyrir rúman tug skota. Þegar eina alvöruskyttan bregst, línumaðurinn finnst ekki og aðrir eru mistækir er einfaldlega ekki hægt að búast við miklum afrekum af þessu Valsliði, þó það spili frábæran handbolta á góðum degi og hafi þegar náð mun lengra í vetur en búist var við af því.

Gangur leiksins: 0:2, 2:2, 2:4, 3:6, 6:6, 6:9, 8:10, 8:12, 9:12, 10:14, 12:15, 13:17, 15:18, 15:20, 18:20, 18:23, 19:23, 19:25, 20:25.

Mörk Vals: Snorri Steinn Guðjónsson 6/1, Freyr Brynjarsson 5, Bjarki Sigurðsson 3, Sigfús Sigurðsson 3, Einar Gunnarsson 2, Geir Sveinsson 1.
Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk KA: Halldór Sigfússon 11/5, Sævar Árnason 4, Andrius Stelmokas 3, Heiðmar Felixson 2, Einar Logi Friðjónsson 2, Jónatan Magnússon 1, Heimir Örn Árnason 1, Jóhann Gunnar Jóhannsson 1.
Utan vallar: 8 mínútur.

Dómarar: Gunnar Viðarsson og Stefán Arnaldsson, gerðu full mikið af mistökum.
Áhorfendur: Um 1.300, alltof margir í þessu húsi.


Umfjöllunin í DV-Sport var svohljóðandi

Sigurviljinn - færði KA fjórða leikinn og stöðvaði sigurgöngu Valsmanna

„Ég verð að bíða og sjá hvernig mannskapurinn verður á morgun, ég held að menn hafi gefið allt það sem þeir áttu í dag og vonandi getum við komið mönnum í stand fyrir miðvikudaginn því við erum ákveðnir í að selja okkur dýrt - við skulduðum áhorfendum okkar að tapa ekki 3-0,“ sagði Atli Hilmarsson, sigurreifur þjálfari KA, eftir sigurinn á Val í gær.

KA-menn skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og leyfðu Valsmönnum aldrei að taka forystuna í leiknum. Greinilegt var að þeir voru komnir í höfuðstaðinn til að berjast fyrir fjórða leiknum og leyfa Valsmönnum ekki að vinna einvígið svo glatt. KA-menn stilltu upp í 6:0 vörn og áttu Valsmenn í miklum erfiðleikum að brjóta hana á bak aftur. Taugar leikmanna voru þó greinilega þandar í botn og tók það þá nokkrar mínútur að finna almennilega taktinn. Gestirnir voru þó fyrri til og fylgdu eftir góðum varnarleik sínum með skæðum sóknum.


Heiðmar Felixson, leikmaður KA, sækir að marki Valsmanna að Hlíðarenda - Sigfús Sigurðsson til varnar. Mynd: mbl

Um miðbik fyrri hálfleiks kom líklega besti leikkafli Vals í leiknum þegar þrjú mörk komu á skömmum tíma og tókst þeim að jafna leikinn í stöðunni 6-6. Gestirnir létu þó ekki slá sig út af laginu og fór þar fremstur í flokki Halldór Sigfússon, sem fann allar smugur á Valsvörninni, og kom Roland Eradze markvörður engum vörnum við. Þegar Snorri Steinn Guðjónsson var farinn að láta til sín taka í sókninni tókst Valsmönnum að halda í við andstæðinga sína en alltaf náðu KA-menn að svara jafnóðum.

Þegar hins vegar 10 mínútur voru eftir færðist aftur líf í leikinn þegar heimamönnum tókst að minnka muninn í tvö mörk og tóku stuðningsmenn Valsara afar vel við sér þá en frábær stemning var á Hlíðarenda í gær enda troðfullt hús. Norðanmenn voru hins vegar ekkert á því að hleypa þeim nær og það var vel að Halldór skoraði síðasta mark þeirra með góðu gegnumbroti.

Lið KA lék frábærlega í gær og voru þar þrír menn í fararbroddi. Halldór var afar skæður í sókninni, Heimir Örn Árnason var sem klettur í vörninni og Egidijus Petkevicius var mjög góður í markinu. Hjá Val var fyrirliðinn, Snorri Steinn, góður og lék sinn besta leik það sem af er þessari úrslitarimmu og þá áttu hornamennirnir Bjarki Sigurðsson og Freyr Brynjarsson einnig góðan leik. Vörnin hefur oft verið sterkari og þegar menn eins og Markús Máni Mikaelsson ná sér alls ekki á strik eins og raunin var í gær má muna um minna.

DV-Sport ræddi við leikmenn og þjálfara.

Atli Hilmarsson „Við þurfum að ná tveimur toppleikjum í viðbót til að vinna þetta einvígi og það er alls ekkert sjálfgefið að vinna heima, við töpuðum jú þar síðast og við þurfum á öllu okkar að halda til að ná sigri á miðvikudaginn.

Fyrstu tveir leikirnir hefðu getað farið á hvorn veginn sem var, við vorum í framlengingu í báðum leikjum og það var oft spurning um hvort það var stöngin inn eða stöngin út sem réð úrslitum leiksins. Leikurinn í kvöld vannst samt með góðum mun og það var jafnt hugarfarsbreyting strákanna og taktísk breyting á leik okkar sem réð því. Við stilltum upp í 6:0 vörn sem þeir áttu í miklum erfiðleikum með hérna fyrr í vetur þegar við unnum hérna á Hlíðarenda í deildinni. En þetta var auðvitað mikið hugarfarið líka. Valsmenn voru farnir að fagna og bíða eftir titlinum hér í kvöld og við ætluðum alls ekki að láta það gerast. Við vorum mjög einbeittir, léttir og kátir og það reyndist vel í kvöld,“ sagði Atli að lokum. -esá

Heimir Örn Árnason var frábær í vörn KA-liðsins. Athygli vakti að hann lék í treyju númer átján að þessu sinni en hann er vanur að vera númer þrettán. Aðspurður hvernig á þessu stæði sagði hann:
„Þetta var nú bara til að breyta eitthvað til því það er búið að ganga frekar illa í sókninni hjá mér en það gekk nú ekkert betur í dag reyndar,“ sagði Heimir og hló.
„Þó vannst sigur og það er fyrir öllu og dálítið gaman af því að það skyldi gerast þegar við spiluðum þessa 6-0 vörn sem margir hafa talið vera okkar sístu vörn. Við ætluðum svo sannarlega ekki að verða fyrsta liðið til þess að tapa 3-0, fjandinn hafi það, sérstaklega líka ef það er haft í huga hversu áþekk þessi tvö lið eru að styrkleika. Það er allt hægt í þessu og við ætlum okkur ekki að tapa öðrum leik fyrir norðan, það er á hreinu,“ sagði Heimir Örn Árnason sem varði þrjú skot Valsmanna og stal tveimur boltum. -SMS

Halldór Jóhann Sigfússon spilaði eins og engill í gærkvöldi og þessi leikur er örugglega einn af hans bestu hingað til á ferlinum: „Ég er búinn að finna mig vel í þessum leikjum á móti Val og sérstaklega þá í þessum en það sem skipti öllu fyrir okkur var að við vorum að spila vel saman og liðsheildin var alveg frábær en það hrjáði okkur í tveimur fyrstu leikjunum að hún var ekki eins góð. Við gátum ekki hugsað okkur að verða fyrsta liðið til þess að tapa 3-0 í lokaúrslitum og það gaf okkur auðvitað aukakraft og við sýndum mikinn styrk í leiknum auk þess sem breytingin á vörninni gekk vel upp. Nú höfum við sýnt virkilega hvað í okkur býr og við viljum meira og höfum fulla trú á þvi að við getum meira,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, besti leikmaður KA í leiknum í gærkvöldi. Halldór hefur nú skorað 29 mörk úr 48 skotum í leikjunum þremur til þessa sem gerir 9,7 mörk að meðaltali og frábæra 69% skotnýtingu. Þar af hefur Halldór nýtt 88% víta sinna. SMS

Morgunblaðið tók sömuleiðis sín viðtöl.

„VIÐ vorum léttir og einbeittir og ég fann strax á æfingu daginn fyrir leikinn að menn voru ákveðnir í að láta ekki henda okkur út,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari KA, eftir leikinn. „Baráttan skein úr hverju andliti og ég fann strax að Valsmenn voru óöruggir og að missa boltann klaufalega, sem er mjög óvenjulegt. Við aftur á móti tókum hraðaupphlaup, enda létt yfir liðinu og einbeitingin mikil.“

Atli sagðist hafa breytt til í vörninni og lagt áherslu á að stöðva strax skyttuna Markús Mána Mikaelsson en láta varnarvegginn frekar um hinar skytturnar, Snorra Stein Guðjónsson og Bjarka Sigurðsson. „Við stilltum upp með 6-0-vörn til að prófa eitthvað nýtt og það gekk upp ásamt breyttu hugarfari. Við vorum óstressaðir en pressan öll á Valsmönnum, sem töldu sig vera að fara að taka á móti Íslandsmeistaratitli.
Við lögðum áherslu á að fara út í Markús Mána og brjóta á honum því hann er sá sem getur stokkið upp fyrir utan og skotið. Við treystum frekar á að láta varnarblokkina um Snorra Stein og Bjarka en það kemur maður í manns stað svo ég get verið ánægður með hvernig menn leystu vandann, bæði í vörn og sókn,“ bætti Atli við - kominn á bragðið. „Þeir unnu okkur síðast fyrir norðan svo að í næsta leik verður allt í járnum. Þeir sýndu styrk sinn síðast svo að við munum kreista allt sem við getum úr okkar mönnum þó að sumir séu komnir á síðustu dropana. Við erum búnir að fá smjörþefinn af sigrinum og erum ennþá inni í mótinu. Við gefum því ekkert eftir og munum koma aftur hingað á Hlíðarenda.“

„Við sýndum úr hverju við erum gerðir og þetta var æðislega gaman. Það voru eiginlega allir búnir að dæma okkur úr leik en við vorum alls ekki tilbúnir að hætta núna, - það er ekki nema sjötti maí,“ sagði Halldór Sigfússon, sem fór á kostum hjá KA og skoraði 11 mörk, þar af úr öllum fjórum vítum sínum. Það má því segja að hann hafi unnið taugastríðið við Roland Eradze, markvörð Vals, en Halldór hefur skorað úr 11 af 12 vítum sínum gegn vítabananum - eitt fór í stöng.

Halldór sagði létt yfir liði sínu fyrir leikinn þrátt fyrir tvo tapleiki. „Ég verð að segja að stemmningin í liðinu var ótrúlega góð eftir annan tapleikinn. Það var mjög létt yfir þessu í dag og hefur verið svoleiðis síðustu daga, líklega eftir að menn hristu mestu spennuna úr sér, og við ætluðum að sýna okkur og sanna. Það er ekki hægt að breyta miklu á tveimur dögum því það er svo stutt á milli leikja og sigur veltur miklu frekar hvernig menn koma stemmdir til leiks. Ef menn mæta klárir og gera sitt besta er þetta ekkert mál. Við vorum góðir á móti Gróttu/KR og Haukum en hefur ekki tekist að sýna okkar bestu hliðar á móti Val en tókst það í dag. Valsmenn voru búnir að vinna tvo leiki og eflaust stressaðir í dag þegar þeir sáu fram á ljúka þessu móti með kampavínið klárt og eflaust erfitt fyrir þá að fara í þennan leik," bætti Halldór við og skemmti sér mjög vel. „Við erum ennþá undir í úrslitakeppninni og upp við vegg en ætlum ekki að tapa aftur á heimavelli. Það var líka virkilega gaman hvað það voru margir í húsinu og allir að ganga af göflunum, - púað á mann við hver mistök og fagnað ef maður gerði vel. Svona á þetta að vera og er einmitt það sem heldur manni í þessu.“
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson