Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Heimir dró svo sannarlega vagninn í kvöld

27. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri í sumarfrí eftir svakalega rimmu við Val

Strákarnir okkar í Akureyri eru komnir í sumarfrí eftir að hafa tapað gegn Val 26-30 í framlengdum leik í Vodafonehöllinni í Reykjavík í kvöld. Akureyri skoraði ekki mark í framlengingunni en Valsarar skoruðu fjögur alls, tvö í hvorum hálfleik framlengingar.

Ekki verða Akureyringar sakaðir um að hafa ekki gefið allt sitt í leikinn í kvöld, liðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks og það gerðu Valsmenn einnig. Ljóst var frá fyrstu sekúndu að leikurinn yrði jafn og hart barist. Enda varð sú raunin, aldrei munaði meira en þremur mörkum á liðunum í venjulegum leiktíma en það voru heimamenn í Val sem oftast nær leiddu, með örfáum undantekningum þó.

Undir lok venjulegs leiktíma virtust Valsarar við að tryggja sér sigur er þeir skoruðu þegar tæp 1 mínúta var til leiksloka. Akureyri gekk bölvanlega að sækja að markinu í sinni síðustu sókn en allt í einu á einhvern undraverðan hátt opnaðist allt fyrir Jónatan Magnússon á línunni sem skoraði rétt í þann mund sem leiktíminn var að renna út og jafnaði 26-26. Framlengja varð því leikinn.

Í framlengingunni má í stuttu máli segja að Valsarar hafi einfaldlega átt meira eftir, aldrei skildi segja að viljann hafi vantað hjá norðanmönnum en krafturinn virtist einfaldlega þverra ásamt því að of fáir voru reiðubúnir að taka á skarið þegar á reyndi. Niðurstaðan varð sú eins og áður sagði að Akureyri náði ekki að skora eitt einasta mark í framlengingunni en heimamenn gerðu fjögur og fögnuðu því sigrinum í lokin.

Varnarlega var Akureyrarliðið gott og Hafþór Einarsson markvörður tók nokkra góða bolta á ögurstundum í markinu, þar með talin þrjú vítaskot. Í sókninni voru þeir Heimir Árnason og Oddur Gretarsson yfirburðamenn. Því miður hins vegar endurtók gamla sagan sig enn einu sinni, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfari liðsins hefur svo oft minnst á í viðtölum í vetur, það er að ekki náðu allir útspilar liðsins að spila góðan leik. Enda kom það á daginn að þegar Heimir, sem spilaði mjög vel eins og áður sagði, fór að þreytast í framlengingu var enginn annar til að taka við keflinu af honum og því fór sem fór.

Akureyri er því komið í sumarfrí en segja má að þeir hafi fallið með sæmd í kvöld. Liðið náði í vetur besta árangri í sögu Akureyri Handboltafélags og spennandi verður að fylgjast með á næstum dögum og vikum hvort ekki verður enn bætt í fyrir næsta tímabil þar sem stefnan hlýtur klárlega að vera sett enn hærra en í ár.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 9 (5 úr vítum), Heimir Örn Árnason 6, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Árni Þór Sigtryggsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Jónatan Þór Magnússon 2, Geir Guðmundsson 1 og Hreinn Hauksson 1.

Markvarsla: Hafþór Einarsson 16 (3 víti) og Hörður Flóki Ólafsson 1.

Jón Stefán Jónsson

Klaufar að nýta ekki meðbyrinn

Morgunblaðið ræddi við Heimi eftir leikinn:
Heimir Örn Árnason leikmaður Akureyrar var á kunnuglegum slóðum þegar hann mætti sínum gömlu félögum í Val í kvöld í undanúrslitum N1-deildarinnar í handknattleik þar sem Valsmenn unnu sigur.


Heimir lék frábærlega í kvöld. Mynd: Guðmundur Lúðvíksson/sport.is

„Við vorum klaufar að nýta okkur ekki meðbyrinn inn í framlenginguna eftir að hafa jafnað metin í venjulegum leiktíma,“ sagði Heimir vonsvikinn eftir leikinn.

„Ég er samt virkilega ánægður með þennan leik og það má ekki gleyma því að það eru einn 16 ára og annar 17 ára að spila 70% af sóknarleiknum hjá okkur. Þó að þeir geri kannski einhver mistök þá læra þeir mikið af svona viðureignum,“ bætti Heimir við.

Akureyringar unnu fyrsta leik einvígisins að Hlíðarenda og voru aðeins hársbreidd frá öðrum sigri þar í kvöld. Heimir segir því annað uppi á teningnum hjá Valsliðinu en á síðustu leiktíð.

„Mér leið þannig hérna í fyrra þegar ég lék með Val að það væri ekki hægt að tapa á þessum velli en núna virðist það eitthvað breytt. Þeir verða alla vega að koma sér í betri gír fyrir úrslitarimmuna gegn Haukum þó ég hafi reyndar fulla trú á þeim í þeirri rimmu,“ sagði Heimir sem verður áfram með Akureyri á næstu leiktíð öfugt við leikmenn á borð við Jónatan Magnússon og fleiri.

„Ég bý fyrir norðan og verð áfram með liðinu en því miður eru nokkrir að fara núna. Það kemur samt alltaf maður í manns stað.“

Hundfúll og hálf orðlaus

Árni Þór Sigtryggsson, var í viðtali við Rafnar Orra Gunnarsson á visir.is:
„Ég var ekki ánægður með framlenginguna hjá okkur og veit bara ekki hvað gerist hjá okkur. Við vorum alveg í séns undir lokin en náðum bara ekki að skora,“ sagði Árni Þór Sigtryggsson, leikmaður Akureyri, eftir tap gegn Valsmönnum í framlengingu í kvöld, 30-26.


Árni skoraði tvö mörk en hefði viljað hafa þau fleiri. Mynd: Guðmundur Lúðvíksson/sport.is

Akureyringar náðu að knýja fram framlengingu undir lok leiksins en eftir það skoruðu þeir ekki mark og Valsmenn á leið í úrslitarimmuna um titilinn þar sem þeir mæta Haukum.

„Við áttum í erfiðleikum með að koma okkur í færi og þau færi sem við fengum náðum við ekki að nýta. Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið taugarnar eða eitthvað annað. Þetta bara fór svona,“ bætti Árni við.

Hann var hundfúll eftir leikinn og sagðist hálf orðlaus yfir þessu þar sem að hann ætlaði sér með lið sitt alla leið.

„Ég er hundóánægður, við ætluðum okkur alla leið. Það er bara þannig. En það er kannski hægt að segja að við höfum fallið út með sæmd en ég er bara hundfúll og hálf orðlaus yfir þessu,“ sagði Árni svekktur í leikslok.

Fleiri myndir og umfjöllun á sport.is.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson