Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Hannes Karlsson á aðalfundi félagsins

13. apríl 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frá aðalfundi Akureyrar Handboltafélags 2011

Aðalfundur Akureyrar Handboltafélags var haldinn í gær. Félagið fékk nýverið aðstöðu fyrir fundi og aðra starfsemi sína í Íþróttahöllinni og er rýmið að taka á sig skemmtilega mynd. Það fór því vel á því að aðalfundurinn var haldinn í eigin húsnæði félagsins.


Eins og sjá má er aðstaðan að taka á sig flotta mynd

Hannes Karlsson flutti skýrslu stjórnar fyrir síðasta almanaksár og er hægt að lesa skýrsluna í heild hér á eftir.
Hannes gerði síðan grein fyrir rekstrinum á árinu 2010. Afkoman á árinu var mjög góð, félagið skilaði afgangi upp á u.þ.b. 900 þúsund. Þar sem Akureyri Handboltafélag er dótturfélag íþróttafélaganna KA og Þór þá skilar félagið uppgjöri sínu til þeirra félaga.


Hannes Karlsson formaður fer yfir málin á fundinum

Fráfarandi stjórn gaf öll kost á sér til áframhaldandi setu og var endurkjörin með lófataki. Stjórnin er þannig skipuð:
  • Hannes Karlsson, formaður
  • Hermann Haraldsson, gjaldkeri
  • Stefán Jóhannsson, ritari
  • Ingólfur Samúelsson, meðstjórnandi
  • Sigurður Jóhannsson, meðstjórnandi
  • Hlynur Jóhannsson, framkvæmdastjóri

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2010

Aðalfundur Akureyri handboltafélags vegna ársins 2010.

Árið 2010 var að mörgu leiti sérstakt og gott fyrir Akureyri handboltafélag. Á árinu 2010 var undirritað samkomulag milli KA og Þórs um áframhaldandi samstarf um rekstur meistaraflokks og annars flokks karla í handbolta til næstu 10 ára. Þetta markar að sjálfsögðu framhaldið og að sátt og eining sé milli aðila um það starfs sem unnið er undir merkjum Akureyrar handboltafélags. Það var í sjálfu sér ekkert sjálfgefið en með þrautseigju og dugnaði þeirra aðila sem haldið hafa merki Akureyrar á lofti er verið að skapa grundvöll til glæstrar framtíðar.

Íslandsmót HSÍ árið 2010 hófst aftur í byrjun febrúar með leik við FH sem tapaðist og bar þar helst til tíðinda að Heimir Árnason tók að sér markvarðarstöðuna eftir að Hafþór sem hafði þó verið besti maður leiksins var rekinn af velli. Það skal tekið fram á Heimir varði einn bolta. Í þeim leikjum sem komu í kjölfarið og út deildarkeppnina gekk okkur alveg þokkalega, höfnuðum að lokum í þriðja sæti eftir sætan sigur á Haukum á útivelli, þó svo að menn hefðu viljað gera betur. Þegar upp var staðið komust við þó í úrslitakeppni fjögurra efstu liða þar sem við lutum í lægra haldi fyrir Val í þriðja leik eftir framlengingu í virkilega spennandi keppni. Var þetta besti árangur Akureyri handboltafélags frá stofnun. Þar með voru örlög okkar ráðin tímabilið 2009-2010.

Þegar þarna var komið sögu var orðið ljóst að þó nokkrar breytingar yrðu á liði félagsins ásamt því að Rúnar Sigtryggsson þjálfari myndi láta af störfum en Rúnar hafði þjálfað liðið frá stofnun þess 2006. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Rúnari fyrir hans mikla framlag í þágu Akureyrar handboltafélags ekki bara sem þjálfara heldur ekki síður mannsins sem með sinni ákefð dreif okkur áfram þegar okkur fundust öll sund vera að lokast er erfiðleikar steðjuðu að ungu félagi.

Nokkrir leikmenn höfðu ákveðið að hverfa á önnur mið eða hætta. Árni Sigtryggsson fór í atvinnumennsku til Þýskalands, Andri Snær fluttist til Danmerkur og leikur þar í næstefstu deild, Jónatan Magnússon fór til Noregs, Heiðar fór í Val, Hafþór markmaður flutti sig í Mosfellsbæinn og spilar með Aftureldingu og hefur líklega verið þeirra besti maður í vetur. Hörður Flóki sem staðið hafði sig alveg frábærlega ákvað að leggja skóna á hilluna.
Gestur Guðrúnarson sem verið hafði framkvæmdastjóri hjá okkur ákvað einnig að snúa sér að öðrum verkefnum eins og að klára sitt nám sem fengið hafði að sitja á hakanum vegna anna við rekstur félagsins. Eru Gesti þökkuð frábær störf í þágu félagsins og sú mikla ósérhlífni sem hann sýndi m.a. með því að fresta námi svo handboltinn gæti gengið fyrir.

Fyrstu verk stjórnar þegar síðasta tímabili lauk var að finna framkvæmdastjóra í stað Gests. Strax var leitað til Hlyns Jóhannssonar sem verið hafði þjálfari kvennaliðs KA/Þórs en hafði látið af störfum sem slíkur. Eftir smá umhugsun ákvað Hlynur að taka að sér verkefnið og fullyrði ég að hann hefur staðið sig frábærlega, oft á tíðum við erfiðar aðstæður. Hlynur er mikill keppnismaður, fylginn sér og áhugasamur fram í fingurgóma og hafa þau einkenni hans rekið okkur stjórnarmennina áfram.

Strax var farið að leita að þjálfara í stað Rúnars og um leið og nafn Atla Hilmarssonar kom upp var ekki aftur snúið. Eftir tiltölulega stuttan samningstíma var Atli ráðinn til starfans við mikla ánægju handboltaunnenda. Fljótlega eftir ráðningu Atla var gengið til samninga við Sævar Árnason sem aðstoðarþjálfa og hafa þeir sem tvíeyki staðið sig frábærlega.

Bæta þurfti í leikmannahópinn því miklar kröfur voru gerðar eftir góða niðurstöðu frá fyrra tímabili og eins og áður sagði nokkrir leikmenn yfirgefið hópinn ásamt því að við þurftum markmann.
Að lokum var gengið frá samningum við þrjá nýja leikmenn þá Sveinbjörn Pétursson markmann sem kemur að láni frá HK, Bjarna Fritzson sem kom frá FH og Daníel Einarsson sem kom frá Stjörnunni. Með þessum mönnum og þeim leikmönnum sem voru fyrir hjá okkur, eldri leikmönnum og reyndari og ungum og efnilegum, var okkur ljóst að við gætum verið með hörku lið.

Æfingar hófust í byrjun ágúst undir stjórn Atla ásamt því að við fengum Dean Martin knattspyrnuþjálfa til að sjá um líkamsþjálfun leikmanna.
Nokkrir æfingaleikir voru spilaðir fyrir væntanlegt mót og ljóst að liðið var til alls líklegt.
Fyrsti leikur var síðan við HK þann 30. september og vannst sá leikur með fáheyrðum yfirburðum 29-41 á útivelli. Liðið var greinilega til alls líklegt og tapaði liðið ekki leik fyrr en 12. desember gegn Fram. Akureyri handboltafélag var í efsta sæti deildarinnar er keppni lauk fyrir áramót.
Sem eitt af bestu liðum deildarinnar áunnum við okkur rétt til að spila í deildarbikar milli jóla og nýárs annað árið í röð. Því miður, eins og árið áður, töpuðum við úrslitaleik, nú gegn FH.

Nú held ég að ég sé búinn að stikla á stóru varðandi meistaraflokkinn á síðasta rekstrarári.

Annar flokkur stóð sig frábærlega á síðasta ári, liðið komst í úrslit bæði í deild og bikar. Því miður töpuðust báðir þessir leikir en liðið lék á tíðum virkilega flottan handbolta og eru þessir strákar sá stofn sem við þurfum að byggja á til lengri tíma. Hlúa þarf betur að liðinu um leið og við gerum frekari kröfur til HSÍ um umgjörð leikja sem og tímasetningar þeirra, þar er hægt að bæta verulega úr. Geir Aðalsteinsson sem verið hafði þjálfari 2. flokks í þrjú ár lét af störfum eftir síðasta tímabil og var Heimir Árnason ráðinn í hans stað. Geir eru þökkuð hans störf í þágu félagsins. Í Geir eigum við áfram öflugan félaga sem staðið hefur dyggilega við bakið á okkur og verðu svo vonandi áfram um langan tíma.

Það verður þó aldrei þannig að handboltalið sé rekið án stuðningsmanna og fyrirtækja. Við höfum haft mjög mikla góðvild í okkar samfélagi og margir einstaklingar og mörg fyrirtæki sem styðja okkur með ráðum og dáð svo sem Byr, KEA, SS Byggir, Saga fjárfestingarbanki, Hummel, Flugfélagið, Nettó, Norðlenska, Ásprent, SBA, BK kjúklingur og svona gæti ég haldið áfram. Það verður þó ekki hallað á neinn að minnst sé sérstaklega á Samherja sem hefur verið okkar traustasti bakhjarl, ekki bara okkar, heldur nánast alls íþróttalífs á Akureyri á umliðnum árum. Þökk sé þeim og öllum hinum að það skuli vera hægt að halda úti einu öflugasta handboltaliði á Íslandi og eina liðinu í úrvalsdeild af landsbyggðinni. Þegar önnur lið geta farið í strætó á milli húsa til að keppa þurfum við að fljúga. Bara sú ákvörðun að vera með hefur strax skuldbundið félagið um milljónir.

Fjölmargir einstaklingar hafa komið að beinni eða óbeinni vinnu fyrir félagið og er þeirra framlag gríðarlega mikilvægt fyrir starfsemina og seint full þakkað. Sú umgjörð sem boðið er uppá hjá okkur hefur verið ein sú besta ef ekki sú besta sem finnst í handboltanum á Íslandi. Metnaðurinn hefur verið mikill. Bara það að leikur geti farið fram hér fyrir norðan þarf að kalla til fjölda manns til að gera allt klárt, manna ritaraborðið, fá kynni, setja upp auglýsingar, raða stólum, kaupa inn og ganga frá í sjoppu, setja upp stuðningsmannaherbergi, gera allt klárt fyrir matinn og kaffið og svo að ganga frá öllu saman eftir leik. Stjórnendur heimasíðunnar eiga heiður skilinn fyrir magnaða síðu og í Þóri Tryggvasyni eigum við öflugasta íþróttaljósmyndara landsins.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu þessu fólki fyrir þeirra magnaða framlag, þetta hefur gengið vel og er það von okkar stjórnarmanna að svo verði áfram. Þið eigið allan heiður skilinn. Einnig vil ég þakka starfsfólki Hallarinnar fyrir samstarfið.

Ég vil að lokum vil ég þakka samstarfsmönnum mínum í stjórninni ásamt stjórnendum og framkvæmdastjórum KA og Þórs fyrir samstarfið sem hefur verið með miklum ágætum.

Takk fyrir.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson