Í janúar var svokallaður félagaskiptagluggi opinn sem þýðir að leikmenn gátu flutt sig á milli félaga. Á heimasíðu HSÍ er birtur listi yfir öll félagaskipti sem fóru fram í janúar og eru þar skráðar rétt um 50 hreyfingar. Þar er reyndar um að ræða bæði félagaskipti í öllum aldursflokkum karla og kvenna.Helstu hreyfingar sem varða leikmenn Akureyrar Handboltafélags eru þær að við fengum Andra Snæ Stefánsson aftur frá danska liðinu Odder Håndbold. Andri er kominn í bæinn og mætti á sína fyrstu æfingu á þriðjudaginn.
Einn leikmaður fór frá Akureyri um áramótin en það er hinn bráðefnilegi Jóhann Gunnarsson sem er kominn í vinnu í Reykjavík og skipti yfir í 1. deildar lið Fjölnis í Grafarvoginum. Við óskum Jóhanni alls góðs með nýju liði.
Jóhann Gunnarsson í leik með 2. flokki
Fjölnisliðið kemur hvað oftast við sögu á félagaskiptalistanum að þessu sinni en alls fékk liðið sex nýja leikmenn en tveir fóru frá félaginu. Auk Jóhanns Gunnarssonar gekk fyrrum leikmaður Akureyrar Handboltafélags, Ágúst Stefánsson til liðs við Fjölni frá ÍR. Ágúst lék hér með 2. flokki og kom reyndar við sögu hjá meistaraflokki. Ágúst hefur lítið spilað síðustu tvö árin eftir að hafa meiðst illa á hné.
Fyrir hitta þeir hjá Fjölni tvo fyrrum Akureyringa, markvörðinn Arnar Sveinbjörnsson og línumanninn Steinþór Andra Steinþórsson.
Ágúst Stefánsson og Arnar Sveinbjörnsson
Af öðrum fyrrum leikmönnum Akureyrar má nefna skyttuna Hákon Stefánsson (frá Fagraskógi) sem skipti úr Stjörnunni aftur yfir í Fram en hann færði sig úr Fram yfir í Stjörnuna fyrir þessa leiktíð.