Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Bjarni var með stórleik í dag

17. apríl 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Æsileikur í Hafnarfirði - eins marks tap í framlengdum leik

Viðureign Akureyrar og FH hófst í kvöld með ævintýralegum leik sem hafði allt til að bera sem prýðir góðan handboltaleik. Æsispenna, framlenging og að lokum eins marks sigur sem því miður féll FH-ingum í skaut.

Við birtum hér umfjöllun Siguróla Sigurðssonar sem birtist á Sport.is:

Það voru hafnfirsku meistararnir sem fóru betur af stað í leiknum í kvöld og náðu undirtökunum fljótlega. Þeir voru að fá auðveld mörk á meðan Akureyringar áttu mjög erfitt með að finna glufur á samanlímdri FH vörninni. Það sem slapp í gegn varði hinn ungi Daníel Andrésson. Þegar FH-ingar voru 8-5 yfir misstu Akureyringar tvo menn útaf í kælingu og skoruðu heimamenn þá tvö mörk gegn engu og var útlitið svart fyrir Norðanmenn.


Oddur skorar úr hraðaupphlaupi. Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson

Þá brá Atli Hilmarsson á það ráð að taka leikhlé, sem svona svínvirkaði en Akureyringar skoruðu 6 mörk gegn 1 á næstu mínútum og jöfnuðu metinn 11-11. Hvort liðið fyrir sig skoraði eitt mark til viðbótar áður en Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson, dómarar leiksins, sendu menn til búningsherbergja.

Fyrri hálfleikurinn var stál í stál, þrátt fyrir að Akureyringum í stúkunni stæði ekki alveg á sama þegar heimamenn komust 5 mörkum yfir. Bergvin Gíslason, ungur hornamaður í liði Akureyrar, breytti hinsvegar gangi leiksins þegar hann fékk tækifærið um miðjan fyrri hálfleikinn og var í aðalhlutverki á þeim tíma sem Akureyringar náðu að jafna.

Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks en FH-ingar voru snöggir að ná frumkvæðinu aftur og leiddu gjarnan með 1 marki. Eftir aðeins 6 mínútur í síðari hálfleik kom Stefán Guðnasson í mark Akureyringa en Sveinbjörn Pétursson hafði ekki verið að finna fjölina sína í leiknum. Hann hafði aðeins varið 5 skot á meðan kollegi hans í marki heimamanna hafði varið á annan tug skota. Innkoma Stefáns var stórgóð, en því miður fyrir Akureyringa, náðu þeir ekki að nýta markvörslur hans í sókninni þar sem Daníel Andrésson hafði sett í lás. FH-ingar sigu frammúr, líkt og í fyrri hálfleik og höfðu gott þriggja marka forskot, 20-17, þegar rúmar 8 mínútur voru til leiksloka. Akureyringar voru þó aldrei langt undan. Í stöðunni 21-19 fóru Akureyringar í sókn sem gæti farið í sögubækurnar fyrir lengd.

Með klókindum tókst þeim að skora og minnka muninn í 1 mark. Á þessum tímapunkti voru 3 mínútur til leiksloka og allt gat gerst. Stórskyttan, Ólafur Gústafsson, reif sig upp í næstu sókn FH-inga og jók muninn aftur í 2 mörk. Bjarni Fritzsson skoraði fyrir gestina, með miklum klókindum í næstu sókn og næsta sókn heimamanna fór forgörðum. Akureyringar lögðu því á stað í sókn , þegar tæp mínúta var eftir og gátu jafnað.


Bjarni Fritzson var FH-ingum erfiður. Mynd: Þorsteinn Haukur Harðarson

Oddur Gretarsson fiskaði víti sem Bjarni Fritzsson skoraði úr, og FH-ingar misstu einnig mann af velli. Þegar 10 sekúndur voru eftir tók Kristján Arason leikhlé og setti upp í síðustu sókn FH-inga. FH-ingar reyndu að spila Ólaf Gústafsson frían, en hann uppskar aðeins aukakast eftir að leiknum lauk og fór það forgörðum. Því þurfti að framlengja um 2×5 mínútur. Enn og aftur sannaði seigla Akureyringa sig, en það skal engin afskrifa þá í erfiðri stöðu. FH-ingar höfðu leitt mest allann leikinn og voru hálfgerðir klaufar að klára þetta ekki í venjulegum leiktíma.

Akureyringar hófu leikinn í framlengingunni, einum fleiri en það stóð ekki lengi. Eftir að fyrsta sókn Akureyringa hafði farið forgörðum fékk varnartröllið Hörður Fannar Sigþórsson tveggja mínútna brottvísun, sem gerði það að verkum að FH-ingar voru einum fleiri 1 og 1/2 mínútu í fyrri hálfleik framlengingarinnar. Þetta nýttu FH-ingar sér ágætlega og höfðu eins marks forystu eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar.

Heimamenn hófu leik í síðari hálfleiknum og var greinilegt á leik beggja liða að mikið var í húfi. Sveinbjörn Pétursson var kominn aftur í mark Akureyringa og stimplaði hann sig inn með látum þegar hann varði tvívegis frá FH-ingum, úr opnum færum. En í hinu markinu var einnig Daníel Andrésson, sem varði gífurlega mikilvægt skot frá Oddi Gretarssyni úr opnu færi þegar gestirnir hefðu getað komist yfir 25-26. Nú voru áhorfendur risnir úr sætum og spennustigið hátt. Það var síðan Atli Rúnar Steinþórsson sem kom heimamönnum yfir þegar rúm mínúta var til leiksloka og áhorfendur í Kaplakrika ærðust. Þetta reyndist síðasta mark leiksins og fóru heimamenn með nauman sigur, 26-25, að hólmi.

Eins og nánast var vitað fyrirfram í kvöld var það vörn og markvarsla sem að skipti sköpum og þar stóðu FH-ingar örlítið framar Norðanmönnum í kvöld. Daníel Andrésson átti mjög góðan leik í marki þeirra, á meðan Sveinbjörn var ekki að finna sig í hinu markinu. Eins og Heimir Örn, fyrirliði Akureyringar, sagði í viðtali við Sport.is fyrr í dag verður þetta spurning um dagsform í þessu einvígi, og þar höfðu Hafnfirðingar betur í kvöld. Það verður ekki komist að því að nefna í þessari umfjöllun hversu fáir sáu sér fært um að mæta í Krikann í kvöld, en töluvert pláss var á bekkjunum í kvöld. Það er vonandi að þessi frábæri leikur verði til þess að fleiri mæti á næsta leik.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 12 (6 úr vítum), Geir Guðmundsson 3, Heimir Örn Árnason 3, Bergvin Gíslason 2, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Oddur Gretarsson 2 og Hörður Fannar Sigþórsson 1.

Sveinbjörn Pétursson varði 7 skot og Stefán Guðnason 6.

Mörk FH: Ragnar Jóhannsson 7, Örn Ingi Bjarkason 6, Ólafur Gústafsson 5, Andri Berg Haraldsson 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Sigurður Ágústsson 1, Hjalti Þór Pálmason 1 (1 úr víti), Ari Magnús Þorgeirsson 1 mark.
Daníel Freyr Andrésson varði 15 skot.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson