Warning: Undefined variable $udleiks in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 16
Bikarúrslitin 1995 - æsilegasti úrslitaleikur allra tíma - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Alfreð Gíslason í afmælisleik bikarmeistaranna 1995 og 2004

7. mars 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar

Bikarúrslitin 1995 - æsilegasti úrslitaleikur allra tíma

Við höldum áfram að koma okkur í stemmingu fyrir helgina og rifjum upp bikarævintýri Akureyringa. Að þessu sinni skoðum við umfjöllun um einhvern magnaðasta úrslitaleik sem fram hefur farið á Íslandi og jafnvel þó víðar væri leitað. Þetta var úrslitaleikur bikarsins árið 1995 þar sem KA sigraði Val með einu marki, 27-26 í tvíframlengdum leik fyrir framan troðfulla Laugardalshöll.

Það er fróðlegt að skoða vandaða og umfangsmikla umfjöllun blaðanna frá þessum tíma en hér að neðan er hægt að skoða skrif Morgunblaðsins, DV og Akureyska blaðsins Dagur, þú smellir á myndirnar til að skoða hvert blað.

Við byrjum þó á ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins um gang leiksins eins og hann birtist í þriðjudagsblaðinu 7. febrúar 1995 (blaðið kom ekki út á mánudögum þá):

KA-menn fögnuðu fyrsta bikarmeistaratitlinum í stórkostlegum tvíframlengdum leik

KA-menn fögnuðu bikarmeistaratitli í fyrsta sinn á laugardaginn (4. febrúar 1995) í mest spennandi úrslitaleik sem fram hefur farið hér á landi. Leikur KA og Vals var tvíframlengdur, stemmingin gríðarleg í Höllinni og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Lokatölur urðu 27:26. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 20:20 og síðan 24:24 eftir fyrri framlengingu. Leikurinn verður lengi í minnum hafður, enda ekki á hverjum degi sem menn upplifa slíka spennu.

KA-menn komu vel stemmdir í leikinn og náðu fljótlega afgerandi forystu og fór Alfreð Gíslason þar fyrir sínum mönnum. Hann dreif liðið áfram með sínum einstaka krafti og smitaði þannig út frá sér. Þegar 8 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 10:5 fyrir KA og stefndi í stórsigur Norðanmanna. Valsmenn, sem eru þekktir fyrir að gefast ekki upp, söxuðu forskotið niður í tvö mörk fyrir hlé. 12:10. Frosti Guðlaugsson var drjúgur á lokakafla fyrri hálfleiks og gerði þrjú síðustu mörkin.

Þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik voru Valsmenn búnir að jafna, 12:12. Þá hrökk Patrekur í gang, en hann fór sér frekar hægt í fyrri hálfleik. Hann gerði þrjú mörk á skömmum tíma og aftur var KA komið með tögl og hagldir. En seiglan í Valsliðinu var enn til staðar og aftur var jafnt, 17:17 og 19:19. Dagur kom liði sínu yfir 19:20 þegar rúmlega ein mínúta var eftir en Patrekur jafnaði, 20:20, þegar 45 sekúndur voru eftir og allt á suðupunkti. Í næstu sókn Valsmanna varði Sigmar Þröstur frá Degi og KA-menn brunuðu upp og Patrekur fékk dæmt vítakast, sem var reyndar ákaflega furðulegur dómur. Valdimar tók vítið þegar leiktíminn var úti en Guðmundur varði og því var framlengt.

Patrekur allt í öllu
Jón Kristjánsson gerði fyrsta markið fyrir Val í framlengingunni, 20:21 og í næstu sókn varði Guðmundur af línunni frá Leó. Dagur fékk tækifæri til að auka forskot Vals í tvö mörk, en skaut í stöng og Patrekur svaraði með tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks, 22:21. Patrekur var aftur í aðalhlutverki eftir hlé og kom KA í 24:21 þegar 150 sekúndur voru eftir. Á þessum tímapunkti voru KA-menn farnir að fagna, en það var aðeins of snemmt því Valsmenn voru ekki búnir að leggja árar í bát. Þeir léku maður á mann og uppskáru þrjú mörk áður en tíminn var úti, 24:24. Ingi R. Jónsson lék mjög vel á þessum kafla og gerði tvö af þremur mörkum Vals og það síðara þegar sjö sekúndur voru eftir. Og enn var framlengt.

KA með pálmann í höndunum
Patrekur kom KA yfir í 25:24 og í næstu sókn varði Sigmar Þröstur vítakast frá Degi. Valdimar renndi sér inn á línuna og fékk sendingu frá Alfreð sem hann skilaði í markið, 26:24. Valgarð minnkaði muninn fyrir Val úr vítakasti. Alfreð kom KA í 27:25 og Jón Kristjánsson svaraði fyrir Val, 27:26. Í síðari hálfleik í síðari framlengingunni gekk hvorki né rak og sáu markverðir liðanna til þess. KA stóð með pálmann í höndunum og var það mjög verðskuldað.

Hungrið vó þungt hjá KA
Eins og áður segir var leikurinn frábær skemmtun og bauð upp á allt sem góður handboltaleikur getur boðið uppá. KA-menn voru mjög hungraðir í sigurinn og það kann að hafa ráðið úrslitum. Þrír leikmenn KA báru sóknarleik liðsins uppi; þeir Patrekur, Valdimar og Alfreð. Þessir leikmenn áttu allir mjög góðan leik og mér er til efs að Patrekur hafi leikið betur í annan tíma. Varnarleikur liðsins var gríðarlega sterkur með þá Alfreð, Patrek og Erling á miðjunni, Valdimar fyrir framan og Jóhann G. Jóhannsson og Val Arnarson í hornunum. Að ógleymdum Sigmari Þresti sem átti stórleik í markinu. Leó Örn komst einnig ágætlega frá sínu.

Valsmenn lengi í gang
Valsmenn voru lengi í gang og vöknuðu ekki til lífsins fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleik. Það ber að hrósa liðinu fyrir það eitt að komast inní leikinn hvað eftir annað í nánast vonlausri stöðu. Það er mikill „karakter“ í liðinu og það gafst ekki.upp fyrr en í fulla hnefana. Jón og Dagur byrjuðu illa en óx ásmegin er á leið, sérstaklega Degi. Frosti spilaði vel í horninu og eins komst Valgarð vel frá sínu eftir að hann fékk tækifærið. Júlíus var öflugur í fyrri hálfleik en ógnaði lítið eftir það. Geir var sterkur og þó svo að hann hafi ekki skorað nema eitt mark þá fiskaði hann þrjú vítaköst og stjórnaði varnarleiknum. Ingi Rafn kom mjög öflugur inn í framlengingunni og hefði átt að fá að spreyta sig meira. Guðmundur stóð fyrir sínu í markinu að vanda og gerði vel í því að verja vítakastið í lok venjulegs leiktíma og hélt þannig spennunni í leiknum enn lengur.


Bikarmeistarar 1995, aftari röð frá vinstri: Sveinn Rafnsson, stjórnarmaður, Guðmundur B. Guðmundsson, gjaldkeri handknattleiksdeildar, Sverrir Björnsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Alfreð Gíslason, Patrekur Jóhannesson, Erlingur Kristjánsson, Helgi Arason, Leó Örn Þorleifsson, Erlendur Stefánsson og Þorvaldur I. Þorvaldsson, formaður handknattleiksdeildar.
Fremri röð frá vinstri: Valur Arnarson, Árni J. Stefánsson, liðsstjóri, Einvarður Jóhannsson, Sigmar Þröstur Óskarsson, ungur stuðningsmaður, Björn Björnsson, Jóhann G. Jóhannsson og Atli Þór Samúelsson. Á gólfinu fyrir framan liggur Valdimar Grímsson. Mynd: Morgunblaðið/Bjarni

Smelltu á eftirfarandi myndir til að lesa blöðin frá þessum tíma:



Einnig eru hér nokkrar myndir Þóris Tryggvasonar frá stemmingunni eftir leik.


Árni Stefánsson og Erlingur Kristjánsson með bikarinn


Sigmar Þröstur Óskarsson og Patrekur Jóhannesson alsælir

Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson