Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Sævar var sáttur í leikslok22. mars 2013 - Akureyri handboltafélag skrifarHvað sögðu menn eftir Aftureldingarleikinn? Andri Yrkill Valsson , blaðamaður mbl ræddi við menn leiksins þá Heimi Örn Árnason og Davíð Hlíðdal Svansson eftir leikinn. Sömuleiðis fylgja hér vídeóviðtöl við Sævar Árnason og Konráð Olavsson.Heimir: Getum þakkað fyrir þetta sæti „Fór það svo hátt? Já þú segir nokkuð,“ sagði uppgefinn Heimir Örn Árnason, leikmaður Akureyrar, þegar blaðamaður mbl.is tjáði honum að hann hefði skorað 11 mörk í sigrinum á Aftureldingu í kvöld, 29:25. „Ég var sprunginn eftir tuttugu mínútur, ég veit ekki hvaðan ég fékk þessa orku fyrir restina,“ sagði Heimir ennfremur og sagðist ekki muna eftir síðasta skipti sem markaskorun hans fór upp í tveggja stafa tölu. Leikurinn var jafn og spennandi, jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 13:13. Akureyringar höfðu frumkvæðið í síðari hálfleik þó Mosfellingar hafi bitið vel frá sér um miðbik hans. „Þessir ungu strákar á móti okkur eru ótrúlega liprir og gáfust aldrei upp, létu okkur sannarlega hafa fyrir hlutunum. Maður sér núna hvernig þeir hafa staðið í toppliðunum, þetta eru hörku strákar,“ sagði Heimir.Heimir stóð í ströngu allan leikinn
Akureyringar hafa valdið nokkrum vonbrigðum á tímabilinu, en liðið hefur lent í miklum skakkaföllum. „Þetta ömurlega tímabil er loks að klárast. Það hefur verið mjög furðulegt í alla staði og það mun taka einhver ár að jafna sig á þessum vonbrigðum með bikarleikinn þar sem við gerðum alveg upp á bak. En þetta losar um pressuna að vera búnir að tryggja okkur. Ég er því sáttur í dag en mjög vonsvikinn með tímabilið.“ Það var greinilegt að þungu fargi var létt af Heimi og félögum þar sem sætið í deildinni var loks tryggt. „Í vetur stendur kannski upp úr þessir góðu leikir við FH, ég skil ekki hvernig við unnum þá svona oft. Miðað við okkar spilamennsku í vetur og hvað við höfum verið mistækir þá getum við alveg þakkað fyrir þetta sæti um miðja deild, við vorum lengst af í ruglinu en við náðum að bjarga okkur.“ Eins og áður sagði átti Heimir stórleik bæði í vörn og sókn en hann var þó ekki viss um framhaldið hjá sér. „Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég haldi áfram eða hvað, það fer eftir því hvernig sumarið fer í mig. Þetta er auðvitað alltaf skemmtilegt en það verður allt að koma í ljós,“ sagði Heimir Örn Árnason í leikslok.Davíð: Þetta er ekki búið „Þetta er ekki búið ennþá,“ sagði Davíð Hlíðdal Svansson, markvörður Aftureldingar, við mbl.is eftir að Akureyringar sendu liðið í botnsæti N1-deildar karla í handknattleik með sigri norðan heiða, 29:25, í kvöld. „Þetta var mikilvægur leikur og við vildum auðvitað vinna, en þetta er ekki búið. Það er einn leikur eftir og við verðum bara að gefa okkur alla í hann, við erum ekkert fallnir.“ Davíð fór mikinn á milli stanganna í fyrri hálfleik og varði 14 skot þó aðeins hafi dregið af honum eftir hlé. Jafnt var í hálfleik og var Davíð nokkuð sáttur með spilamennskuna framan af. „Ég get ekki kvartað mikið. Við erum að spila á rosalega ungum og óreyndum hóp og við vorum að spila vel, sérstaklega framan af leik. Vörnin var heldur mistæk þar sem við gáfum þeim heldur auðveld skot og það skipti sköpum, eins og hún er yfirleitt góð þá klikkaði eitthvað núna. Það var erfitt að elta í síðari hálfleik en fyrst við náðum að jafna þá vonaði ég nú að við næðum að halda áfram á því. Skoruðum fjögur mörk í röð og það vantaði bara herslumuninn að við kæmumst yfir og þá hefðum við kannski fengið aðeins meiri trú á þetta. En þeir gáfu í og þá þyngdist róðurinn fyrir okkur, en við erum baráttulið og við gefumst aldrei upp. Við áttum þó alveg nokkra dropa eftir á tankinum að mér fannst og hefðum getað endað þetta betur.“Davíð Svansson fékk viðurkenningu sem besti maður Aftureldingarliðsins
Afturelding mætir Val í lokaumferðinni í hreinum úrslitaleik um sæti í deildinni, þar sem Val nægir jafntefli. Liðið sem endar ofar þarf þó að fara í umspil við lið úr 1. deildinni. Davíð segir allt undir gegn Val. „Nú er bara einn leikur eftir og þá er að sjá hvort við viljum halda okkar sæti í deildinni eða ekki. Það segir allt sem segja þarf, við verðum að vinna þann leik,“ sagði Davíð Hlíðdal Svansson, markvörður Aftureldingar.Vídeóviðtöl Þjálfararnir Sævar Árnason og Konráð Olavsson voru teknir tali af Sport.isSævar Árnason: „Gríðarlegur baráttuleikur“ Sævar Árnason, einn þjálfara Akureyringa, sagði leikinn í kvöld hafa verið mikill baráttuleikur og það hafi verið mikilvægt að vinna á heimavelli.VIDEO Konráð Olavsson: „Fannst margt jákvætt í okkar leik“ Konráð Olavsson, þjálfara Aftureldingar, fannst þrátt fyrir tapið margt jákvætt í leik sinna manna.VIDEO Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook