Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Halldór Logi hélt uppi merkinu á línunni í seinni hálfleik22. nóvember 2013 - Akureyri handboltafélag skrifarMagnaður sigur Akureyrar á ÍR í kvöld Það var heldur betur rafmögnuð spenna í Íþróttahöllinni í kvöld þegar Akureyri tók á móti bikarmeisturum ÍR. Akureyrarliðið kom nokkuð breytt til leiks frá síðasta leik, samningi liðsins við Serbann Vladimir Zejek hefur verið sagt upp og því sat Vladi á meðal áhorfenda í stúkunni. Það var hins vegar óvænt útspil að Hreinn Þór Hauksson mætti galvaskur til liðs við strákana en hann hafði tekið sér smá frí frá handboltanum og var ekki væntanlegur fyrr en eftir áramót. Þar að auki þá var þetta fyrsti heimaleikur þeirra Heimis Árnasonar og Friðriks Svavarssonar á tímabilinu en þeir hafa verið í röðum Hamranna á tímabilinu. Akureyri hóf leikinn af miklum krafti, spilað hraðan sóknarleik sem bar góðan ávöxt til að byrja með auk þess sem Jovan Kukobat var í miklum ham í markinu. Akureyri hafði frumkvæðið í leiknum og leiddi með tveim mörkum allt upp í 8-6 en þá komu fimm ÍR mörk í röð, þar af þrjú ódýr hraðaupphlaupsmörk og forysta gestanna skyndilega orðin þrjú mörk, 8-11.Kristján Orri skoraði fyrstu tvö mörk leiksins
En heimamenn brotnuðu ekki við þetta og minnkuðu muninn niður í eitt mark 12-13 og hélst sá munur fram að hálfleik en þá var staðan 16-17 ÍR í vil. Þrándur Gíslason var öflugur á línnunni, með 4 mörk, Andri Snær og Kristján Orri með 3, Bjarni og Valþór 2, Heimir og Sigþór Árni 1 mark hvor. Í markinu var Jovan kominn með tólf bolta. Akureyri hóf seinni hálfleikinn með látum, Þrándur Gíslason fékk reyndar sína þriðju brottvísun og þar með útilokun eftir 20 sekúndna leik. Manni færri jöfnuðu heimamenn í 17-17 með stórbrotnu sirkusmarki þeirra Andra Snæs og Bjarna Fritzsonar. Í kjölfarið var jafnt á öllum tölum upp í 21-21 en þá sigu ÍR ingar framúr og náðu þriggja marka forystu, 22-25 og 24-27 þegar tæpar tólf mínútur voru til leiksloka. Þrándur Gíslason var ekki alveg hættur afskiptum af leiknum þó hann væri kominn upp í stúku heldur reif hann upp stemminguna í húsinu með kröftugum trommuleik svo um munaði.Þrándur fór á kostum og náði magnaðri stemmingu í stúkunni
Strákarnir tóku vel við sér og jöfnuðu leikinn í 29-29 og aftur í 30-30 þegar sex mínútur voru eftir. Þær voru magnaðar, flott vinnsla í vörninni og Jovan, sem hafði ekki alveg fundið sig í seinni hálfleik hrökk heldur betur í gang og lokaði markinu. Það voru svo Halldór Logi Árnason og Kristján Orri Jóhannsson sem kláruðu leikinn með sitt hvoru markinu þannig hreint magnaður sigur 32-30 skilaði sér í hús og tvö langþráð stig. Allt liðið á hrós skilið fyrir mikla baráttu og það leyndi sér ekki að menn höfðu gaman að hlutunum og með því fylgdi stemming sem skilaði sér svo sannarlega. Andri Snær fór á kostum í vinstra horninu með fimm mörk úr fimm skotum auk þess að leggja upp tvö sirkusmörk. Gunnar Þórsson kom í hornið undir lokin og bætti við tveim góðum mörkum. Valþór Guðrúnarson var áræðinn í skyttunni og var valinn maður leiksins hjá Akureyri. Kristján Orri var að vanda með fínan leik í hægra horninu auk þess sem hann klippti Björgin Hólmgeirsson nánast út úr sóknarleik ÍR inga. Bjarni Fritzson var öflugur í seinni hálfleiknum eftir að hafa ekki látið fara mikið fyrir sér í þeim fyrri. Vörnin var lengst af mjög góð og greinilegt að innkoma þeirra Heimis og Hreins skilar miklu öryggi í liðið.Heimir og Hreinn létu ekki sitt eftir liggja í varnarleiknum
Mörk Akureyrar: Valþór Guðrúnarson 6 (2 úr vítum), Andri Snær Stefánsson 5, Bjarni Fritzson 5 (2 úr vítum), Kristján Orri Jóhannsson 5, Þrándur Gíslason 4, Halldór Logi Árnason 3, Gunnar Þórsson 2, Heimir Örn Árnason og Sigþór Árni Heimisson 1 mark hvor. Í markinu átti Jovan Kukobat frábæran fyrri hálfleik og tók síðan magnaðan kipp á lokamínútunum með samtals 16 varin skot, þar af eitt vítakast. Tomas Olason kom í markið um tíma í seinni hálfleik en náði ekki að verja.Hjá ÍR voru Arnar Birkir Hálfdánson og Guðni Már Kristinsson markahæstir með 7 mörk hvor. Sturla Ásgeirsson 5, Jón Heiðar Gunnarsson 4, Björgvin Þór Hólmgeirsson og Sigurjón Björnsson 3 mörk hvor og Kristinn Björgúlfsson 1 mark. Í markinu varði Arnór Freyr 7 skot og Kristófer 5 skot.Valþór tekur við matarkörfu sem leikmaður Akureyrar í kvöld
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook