Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Sigþór Heimisson jafnaði leikinn með tveim síðustu mörkum leiksins23. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarHáspennujafntefli Akureyrar og Vals Það var svo sannarlega langur aðdragandi að leik Akureyrar og Vals sem fór fram í gær. Upphaflega átti leikurinn að vera á fimmtudaginn en var frestað til föstudags vegna ófærðar. Sama ófærðin var á föstudaginn þannig að leiknum var aftur frestað til klukkan fjögur á laugardag og enn á ný frestað fram til klukkan 19:30 þann dag. Leikið var í KA heimilinu þar sem Íþróttahöllin var frátekin fyrir árshátíð starfsmanna Akureyrarbæjar. Þetta var fyrsti leikur Akureyrarliðsins í KA heimilinu síðan 4. október 2008 og virtust leikmenn finna sig vel á endurnýjuðu gólfinu þar og flott stemming meðal áhorfenda enda í mikilli nálægð við leikinn. Leikurinn var æsispennandi, og skiptust liðin á að hafa forystuna í fyrri hálfleik, Akureyri þó yfirleitt með frumkvæðið og náði nokkrum sinnum tveggja marka forystu. Valsmenn náðu að jafna og komast yfir en Þrándur Gíslason kom Akureyri yfir á allra síðustu sekúndubroti hálfleiksins og leiddi Akureyri 13-12 í hálfleik. Spennan hélt áfram í seinni hálfleiknum, jafnt á öllum tölum upp í 17-17 en þá náðu Valsmenn tveggja marka forskoti 17-19 og hélst sú staða í um sjö mínútur. Það var Daníel Matthíasson sem braut ísinn með marki eftir að Akureyri setti aukamann í sóknina á kostnað markvörslunnar. Þetta bragð að taka markvörðinn útaf til að fá aukamann í sóknina hafði gefist afar vel í síðustu tveim leikjum en það gafst ekki alveg jafn vel í þetta sinn þar sem Valsmenn náðu að skora tvívegis í röð í autt markið þar sem ekki náðist að skipta markverðinum inná í tæka tíð. Valsmenn náðu með þessu fjögurra marka forskoti 18-22 og tíu mínútur til leiksloka. Akureyri tók leikhlé enda ljóst að grípa þyrfti til aðgerða til að ekki færi illa. Það gekk eftir og með mikilli baráttu minnkaði munurinn niður í eitt mark 22-23. Valsmenn juku forskotið aftur í tvö mörk, 22-24 en Sigþór Árni Heimisson jafnaði leikinn í 24-24 með tveim glæsilegum gegnumbrotum. Valsmenn skutu yfir og Akureyri fékk síðustu sókn leiksins. Ekki tókst að koma almennilegu skoti á Valsmarkið og jafntefli því niðurstaðan. Leikurinn var báðum liðum afar mikilvægur og taugarnar því þandar til hins ýtrasta. Spennan lá í loftinu og leikurinn hin besta skemmtun fyrir áhorfendur sem mynduðu frábæra stemmingu sem klárlega hjálpaði heimamönnum í lokin þegar þeir unnu upp fjögurra marka forskot Valsmanna. Akureyrarvörninni gekk vel að hemja Guðmund Hólmar Helgason en Geir Guðmundsson, sem fékk að leika lausum hala reyndist mönnum erfiður, sérstaklega í upphafi leiks er hann skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum Valsliðsins.Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 6 (1 úr víti), Kristján Orri Jóhannsson og Sigþór Árni Heimisson 4 mörk hvor, Andri Snær Stefánsson, Valþór Atli Guðrúnarson og Þrándur Gíslason 3 mörk hver og Daníel Matthíasson 1 mark. Jovan Kukobat varði 10 skot, hann stóð í markinu allan tímann, nema þegar honum var kippt útaf fyrir aukasóknarmann og verður varla sakaður um tvö af mörkunum sem liðið fékk á sig.Mörk Vals: Geir Guðmundsson og Finnur Ingi Stefánsson 7 mörk hvor, Elvar Friðriksson og Vignir Stefánsson 2 mörk hvor, Alexander Örn Júlíusson, Bjartur Guðmundsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Hlynur Morthens, Orri Freyr Gíslason og Sveinn Aron Sveinsson 1 mark hver. Hlynur Morthens varði 9 skot í markinu og Lárus Helgi Ólafsson eitt skot. Geir Guðmundsson var valinn besti maður Valsliðsins og Sigþór Árni Heimisson Akureyrarliðsins. Báðir fengu að launum veglega matarkörfu frá Norðlenska eins og tíðkast á öllum heimaleikjum Akureyrar. Nú eru þrjár umferðir eftir af Olís-deildinni, Akureyri leikur næstu tvo leiki í Hafnarfirði, gegn FH og síðan Haukum en lokaleikurinn verður gegn HK hér norðan heiða. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook