Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Það eru bara tvær umferðir eftir af deildinni6. apríl 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarSpennandi lokaumferðir í Olís-deildinni Akureyri mætir aftur í Hafnarfjörðinn á fimmtudaginn og mætir þá Haukum í næstsíðustu umferð Olís-deildarinnar. Það er gríðarlega mikið undir hjá báðum liðum en Haukar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn á meðan Akureyri er í hörku baráttu um að sleppa við umspilið. Staða liðanna í deildinni getur ennþá breyst á ýmsan hátt, það sem er þó ljóst á þessari stundu er að Haukar og ÍBV verða í tveim efstu sætunum, þó að Haukar standi betur að vígi þá á ÍBV ennþá möguleika á að ná deildarmeistaratitlinum. Valur er sömuleiðis öruggur um sæti í úrslitakeppninni en Fram og FH berjast um síðasta lausa sætið. Þá er ljóst að HK verður í neðsta sætinu og þar með fallið úr deildinni miðað við núverandi skipulag. Akureyri, FH og ÍR eru síðan í baráttu um að forðast næstneðsta sætið eða umspilssætið en öll þessi lið gætu hafnað í því. Staðan í deildinni er þannig núna: Nr. Félag Leikir U J T Mörk Hlutfall Stig - 1. Haukar 19 15 1 3 507 : 426 81 31 : 7 2. ÍBV 19 14 0 5 526 : 480 46 28 : 10 3. Valur 19 10 2 7 529 : 456 73 22 : 16 4. Fram 19 10 0 9 430 : 449 -19 20 : 18 5. FH 19 8 1 10 483 : 473 10 17 : 21 6. ÍR 19 8 0 11 507 : 518 -11 16 : 22 7. Akureyri 19 7 1 11 454 : 490 -36 15 : 23 8. HK 19 1 1 17 423 : 567 -144 3 : 35
Það er því margt og mikið undir í þessum tveim síðustu umferðum deildarinnar. Enda gilda þær reglur að alla leiki hvorrar umferðar skuli leika samtímis. Næstsíðasta umferðin fer fram fimmtudaginn 10. apríl klukkan 19:30 og þá eigast við: ÍBV – Valur, Fram – ÍR, FH – HK og Haukar – Akureyri. Lokaumferðin er svo mánudaginn 14. apríl klukkan 19:30 , leikirnir þá eru: Haukar – ÍBV, Valur – Fram, ÍR – FH og Akureyri - HK Eini möguleiki ÍBV á að ná deildarmeistaratitlinum er að Akureyri vinni Hauka á fimmtudaginn og síðan þarf ÍBV að vinna bæði Val á fimmtudaginn og einnig Hauka í seinustu umferðinni. Fram stendur betur að vígi en FH um sæti í úrslitakeppninni en þarf tvö stig úr leikjunum gegn ÍR og Val til að vera öruggt með sætið. Fái Fram eitt stig eða ekkert getur FH, sem er núna þrem stigum á eftir þeim komist uppfyrir Fram eða jafnað þá að stigum og þar sem FH stendur betur í innbyrðis viðureignum liðanna færi FH áfram á kostnað Fram. Það er því ljóst að Fram hlýtur að leggja alla áherslu á að vinna ÍR á fimmtudaginn til að tryggja sætið. Barátta Akureyrar, ÍR og FH um að forðast umspilssætið er býsna flókin og getur tekið á sig ýmsar myndir. Fái Akureyri fleiri stig en ÍR í þessum tveim lokaumferðum þá sleppur Akureyri og sömuleiðis ef Akureyri fær tveim stigum fleiri en FH þá sleppur Akureyri líka. Það má því búast við að leikur ÍR og FH í lokaumferðinni verði æsilegur. En Akureyri á sem sé eftir tvo leiki, Hauka á útivelli á fimmtudaginn og síðan HK hér á Akureyri mánudaginn 14. apríl, að sjálfsögðu munu strákarnir berjast fyrir öllum stigunum í báðum þessum leikjum og gulltryggja þar með að lenda ekki í umspilinu. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook