Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Kristján Orri átti góðan leik í dag5. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarEins marks tap fyrir ÍBV í spennuleik Það verður ekki tekið af leikmönnum liðanna að þeir buðu upp á æsispennandi leik í dag þó gæði handboltans væru ekki alltaf í hæstu hæðum. Akureyri byrjaði af miklum krafti og var með fimm marka forystu eftir tæplega tuttugu mínútna leik, 10-5. Fram að þessu hafði leikur liðsins verið afar góður jafnt í vörn sem sókn.Kristján Orri Jóhannsson með mark úr hraðaupphlaupi
En þar með hrökk flest í baklás, fjölmargir boltar töpuðust í sókninni og ÍBV gekk á lagið og smám saman unnu þeir upp forskotið, jöfnuðu í 12-12 og komust í kjölfarið yfir. Sverre skoraði sitt annað mark úr síðasta skoti hálfleiksins og jafnaði með því stöðuna í 14-14. Í seinni hálfleik hélt barningurinn áfram, jafnt á flestum tölum en Eyjamenn með frumkvæðið. Markvarslan var afar lítil hjá báðum liðum og hjálpaði ekki til að sóknarmönnum Akureyrar voru afar mislagðar hendur, ekki var hægt að henda reiður á fjölda sókna sem fóru forgörðum , tapaðir boltar auk þess sem ýmsir dómar féllu ekki með liðinu.Elías Már Halldórsson með eitt af þrem mörkum sínum
Eftir að staðan var jöfn 27-27 þegar átta mínútur voru til leiksloka hrökk Kolbeinn markvörður ÍBV í form og varði nokkur dauðfæri og má segja að frammistaða hans á lokamínútunum hafi tryggt Eyjamönnum sigurinn í leiknum sem lauk 32-33. Vissulega vonbrigði eftir flotta byrjun að halda ekki út og fá stig út úr leiknum. Þrátt fyrir 32 skoruð mörk sem ætti að duga til að vinna leik sem þennan þá voru sóknarmistökin óheyrilega mörg og í mörgum tilfellum refsað með hraðaupphlaupum í bakið.Áhorfendur lifðu sig inn í leikinn - hér fór trúlega eitthvað úrskeiðis
Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 8 (2 úr vítum), Sigþór Árni Heimisson 8, Halldór Logi Árnason 5, Brynjar Hólm Grétarsson og Elías Már Halldórsson3 mörk hvor, Sverre Andreas Jakobsson og Þrándur Gíslason 2 mörk hvor og Heiðar Þór Aðalsteinsson 1 úr víti. Þetta eru tölurnar samkvæmt leikskýslu en lýsendum leiksins ber raunar saman um að Kristján Orri hafi skorað 9 en Sigþór Árni 7. Tomas Olason varði 9 skot, þar af 1 vítakast. Bjarki Símonarson kom í markið hluta af seinni hálfleik og varði 1 skot.Mörk ÍBV: Theodór Sigurbjörnsson 9 (1 úr víti), Andri Heimir Friðriksson, Einar Sverrisson Hákon Daði Styrmisson og Svavar Kári Grétarsson 5 mörk hver, Dagur Agnarsson og Magnús Stefánsson með 2 mörk hvor. Líkt og með markaskorun Akureyrar þá eru þessar tölur skv. leikskýrslu en trúlega er einhver ruglingur í henni því Magnús Stefánsson skoraði 3 mörk skv öllum lýsendum, þeim ber hins vegar ekki saman um hver er með aukamark á sér. Kolbeinn Arnarsson varði 7 skot í markinu en Henrik Vikan Eidsvag fékk ekki skráð á sig varið skot. Eftir þrjá heimaleiki í röð er næsti leikur Akureyrar á útivelli en liðið mætir Fram laugardaginn 11 október. Sjá fjölmargar ljósmyndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum .
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook