Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Atli hefur fylgst með útileikjum liðsins í vetur31. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarAtli Hilmarsson í viðtali við Morgunblaðið Endurkoma Atla Hilmarssonar í þjálfarahlutverkið vekur að sjálfsögðu athygli í handboltaheiminum og hefur Atli hafti í mörgu að snúast við að svara spurningum fréttamanna síðan spurðist út að hann væri hugsanlega á leiðinni norður á ný. Hér fer á eftir viðtal Sindra Sveinssonar , blaðamanns Morgunblaðsins sem birtist í blaðinu í dag:Atli Hilmarsson: Býr mun meira í liðinu „Ég hef búið á Akureyri drjúgan hluta ævinnar og átt þar mjög farsælan feril sem þjálfari. Mér er mjög hlýtt til þessa félags og langar til að endurgjalda því,“ sagði Atli Hilmarsson sem í gær var ráðinn þjálfari Akureyrar Handboltafélags á nýjan leik. Atli stýrði liðinu síðast tímabilið 2011-2012 og reiknaði þá með því að starfa ekki frekar sem þjálfari. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavík og starfar í Landsbankanum, en taugin norður í íþróttahöllina á Akureyri er sterk. „Það kom til mín beiðni frá félaginu og mér fannst ég þurfa að hjálpa til ef ég gæti. Það er auðveldara fyrir mig en marga aðra, þar sem ég var í þessu starfi fyrir stuttu og þekki allt í kringum það,“ sagði Atli, sem flytur einn norður og stýrir Akureyri út tímabilið. „Ég er í fullri vinnu í Landsbankanum sem ég fæ að halda áfram á Akureyri. Þetta er sama fyrirkomulag og þegar ég þjálfaði Akureyri síðast, og ég þakka mínum vinnuveitanda fyrir það að fá þennan séns,“ sagði Atli. Atli tekur við af Heimi Erni Árnasyni sem hefur ákveðið að taka fram skóna og spila með Akureyrarliðinu, en það situr í 6. sæti Olís-deildarinnar með 6 stig eftir 8 leiki. „Ég er mjög ánægður með það að Heimir skuli gefa sig í þetta, það er ekkert sjálfgefið. Hann er sá leikmaður sem ég hef líklega þjálfað lengst í gegnum tíðina, fyrst hjá KA og svo Akureyri,“ sagði Atli, sem verður með Sverre Jakobsson sem spilandi aðstoðarþjálfara rétt eins og Heimir. „Ég þjálfaði hann líka hjá KA á sínum tíma og þekki hann mjög vel. Þó að hann sé núna í landsliðsverkefni þá höfum við náð að spjalla saman og ég held að þetta samstarf verði í góðu lagi,“ sagði Atli, sem er öllum hnútum kunnugur nyrðra og náði góðum árangri sem þjálfari KA og síðar Akureyrar, sem hann gerði að deildarmeistara vorið 2011.Atli fagnar góðum sigri með Akureyri vorið 2012
Þarf að kynnast nýjum mönnum Leikmannahópurinn er hins vegar talsvert breyttur frá því hann stýrði liðinu síðast og inn komnir menn á borð við Ingimund Ingimundarson og Elías Má Halldórsson, ásamt yngri leikmönnum. „Ég þarf að kynnast þessum nýju leikmönnum og aðeins að mynda mér skoðun á þeim. Ég er svo sem búinn að sjá nokkra leiki með þeim í vetur en það var bara sem hlutlaus áhorfandi. Ég held að það búi miklu meira í þessu liði en það hefur sýnt hingað til og ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú að þetta er mikið af nýjum mönnum sem þurfa að finna sig saman. Það tekur alltaf tíma,“ sagði Atli. Samningur hans við Akureyri gildir til vors eins og áður segir: „Ég hef enga trú á að ég geri fleiri samninga heldur en þennan. Ég hélt að vísu að þetta væri líka búið núna en mér fannst ég þurfa að hjálpa til úr því að leitað var til mín. En það eru engin áform um að halda áfram eftir þetta tímabil.“ Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook