Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Nýju mennirnir settu svip á leikinn6. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarJafntefli gegn ÍR í kaflaskiptum leik Það er óhætt að segja að það hafi verið spenna í loftinu þegar Akureyri og ÍR mættust í Höllinni í gær. Langt hlé að baki og mannskapurinn ekki í mikilli leikæfingu. Akureyrarliðið með tvo nýja leikmenn í hópnum, Nicklas Selvig kom til landsins um síðustu helgi og hefur einungis æft þrisvar með liðinu og markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson loks að komast á kreik eftir erfið meiðsli. ÍR byrjaði betur og skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en Akureyri svaraði með næstu fjórum mörkum en ÍR jafnaði í 4-4 eftir tæplega 20 mínútna leik. Akureyrarliðið tók í kjölfarið völdin á vellinum, vörnin var sterk og aftan við hana var Tomas Olason frábær í markinu þannig að það sem eftir lifði fyrri hálfleiks skoraði ÍR einungis tvö mörk gegn sex mörkum heimamanna. Nicklas Selvig kom inná í hægri skyttuna, skoraði tvö góð mörk og greinilega flinkur leikmaður þar á ferðinni. Tomas var þó klárlega maður vallarins í hálfleiknum með yfir 60% markvörslu, varði m.a. vítakast en Akureyrarliðið klúðraði reyndar tveimur vítum í hálfleiknum. Hálfleikstölur 10-6 fyrir Akureyri.Tomas Olason lokaði markinu í fyrri hálfleik
Bjarni Fritzson átti í útistöðum við dómara leiksins og fékk brottvísun á síðustu sekúndunum, hann bætti svo um betur með orðaskaki við dómarana í hálfleiknum og fékk aðra brottvísun að launum, þannig að ÍR hóf seinni hálfleikinn tveimur leikmönnum færri. Akureyrarliðið hélt uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiks og var komið í vænlega stöðu, 15-9 og 16-10 eftir tíu mínútna leik og virtist vera að gera út um leikinn. En þar með hrökk allt í baklás í sókn heimamanna og ÍR skoruðu sex mörk í röð og jöfnuðu leikinn 16-16. Akureyri var reyndar um tíma tveimur mönnum færri sem svo sannarlega auðveldaði ÍR verkið. ÍR-ingar voru komnir á bragðið og komust tveim mörkum yfir 17-19 en þar með hrökk Akureyrarliðið í gang á nýjan leik og skoraði næstu fimm mörk og sneri stöðunni í 22-19 og aðeins fjórar og hálf mínúta til leiksloka. Sóknarleikur Akureyrar varð vandræðalegur í kjölfarið og tapaðir boltar urðu til þess að Bjarni Fritzson jafnaði í 22-22 með tveimur hraðaupphlaupum. Kristján Orri kom Akureyri yfir, 23-22 með góðu marki úr hægra horninu en það dugði ekki til því að Björgvin Hólmgeirsson náði að jafna fyrir ÍR í 23-23 sem urðu lokatölur leiksins. Eftir að hafa verið komnir með vænlega stöðu var vissulega súrt að fá ekki bæði stigin úr leiknum en tíu mínútna kaflinn um miðbik seinni hálfleiksins reyndist dýrkeyptur. En það var margt jákvætt í leik liðsins, Kristján Orri var magnaður í seinni hálfleiknum og Nicklas Selvig á klárlega eftir að reynast góð viðbót í sóknarleiknum. Hreiðar Levý lék síðasta korterið og minnti vel á sig eftir langa fjarveru frá vellinum.Fyrsta markið hjá Nicklas í uppsiglingu
Hreiðar Levy kominn í markið eftir langa fjarveru
Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 7 (2 úr vítum), Heimir Örn Árnason og Nicklas Selvig 4 hvor, Bergvin Þór Gíslason 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson og Þrándur Gíslason 2 mörk hvor og Sigþór Árni Heimisson 1 mark. Í markinu varði Tomas Olason 15 skot, þar af 2 vítaköst. Hreiðar Levý Guðmundsson varði 4 skot.Mörk ÍR: Björgvin Hólmgeirsson 6 (1 úr víti), Arnar Birkir Hálfdánsson 4, Bjarni Fritzson 4, Daníel Ingi Guðmundsson 4 (1 úr víti), Davíð Georgsson 2, Brynjar Valgeir Steinarsson, Eggert Sveinn Jóhannsson og Jón Heiðar Gunnarsson 1 mark hver. Svavar Már Ólafsson varði 10 skot, þar af 1 vítakast og Arnór Freyr Stefánsson varði 1 skot. Svavar Már var valinn maður ÍR liðsins og Kristján Orri maður Akureyrarliðsins og fengu báðir matarkörfu frá Norðlenska að launum.Kristján Orri fer inn úr hægra horninu
Það er stutt í næsta stórverkefni hjá Akureyrarliðinu því á sunnudaginn er heimaleikur gegn toppliði deildarinnar, Val en sá leikur er liður í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar þannig að þar er allt undir og ekkert nema sigur í boði í þeim leik. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook