Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Kristján Orri og Tomas léku frábærlega1. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri vann mikilvægan sigur á Fram Akureyri mætti suður í Safamýrina í dag og lék gegn Fram. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið enda eru Framarar í bullandi fallbaráttu og Akureyri að berjast við að sleppa við fallbaráttu og reyna að berjast um gott sæti í úrslitakeppninni. Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og voru fljótir að refsa okkar mönnum fyrir slakan sóknarleik, eftir rúmlega sex mínútur var staðan orðin 5-1 og Atli Hilmarsson tók leikhlé. Leikhléið svínvirkaði og fjórum mínútum síðar var staðan orðin jöfn 5-5. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru liðin hnífjöfn og skiptust á að leiða leikinn. Uppstilltur sóknarleikur var brösugur hjá báðum liðum og Tomas í marki Akureyrar og Kristófer í marki Fram voru að verja vel. Mörkin voru því aðallega að koma úr hraðaupphlaupum og seinni bylgjum. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 12-13 fyrir Akureyri, Tomas varði 12 skot og Kristján Orri var með 6 mörk og það úr 6 skotum. Síðari hálfleikurinn spilaðist svo mjög svipað og sá fyrri, Akureyri reyndar byrjaði betur og komst í 12-15 en heimamenn gáfu þá í og stuttu síðar voru þeir komnir yfir í 17-16. Bæði lið voru að missa boltann klaufalega og varnirnar stóðu vel. Þegar kortér lifði leiks leiddu Framarar 20-18 en þá kom magnaður kafli hjá okkar mönnum og þeir breyttu stöðunni í 21-24 þegar lítið var eftir. Framarar gáfust þó ekki upp og náðu þeir tvisvar að minnka muninn niður í eitt mark á lokakaflanum en mörk frá Nicklas Selvig og Sigþóri Árna kláruðu dæmið og lokatölur voru því 24-26. Það munaði mikið um frammistöðu Tomasar í markinu og varnarleikinn sem liðið spilaði, það sem skóp þennan sigur í dag var hversu vel liðið varðist sem og karakterinn að koma alltaf til baka þegar Framarar náðu forystunni. Þetta var kannski ekki besti handboltaleikur sem liðið hefur spilað en það er ótrúlega mikilvægt og sýnir karakter að vinna svona leiki þegar það gengur ekki allt upp.Sverre hvetur sína menn til dáða í varnarleiknum
Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 9 (2 úr vítum), Nicklas Selvig 7, Heiðar Þór Aðalsteinsson 3, Ingimundur Ingimundarson og Sigþór Árni Heimisson 2 mörk hvor, Bergvin Þór Gíslason, Halldór Logi Árnason og Þrándur Gíslason allir með 1 mark. Tomas Olason með 21 varið skot, eitt vítakast eins og áður segir.Mörk Fram: Stefán Baldvin Stefánsson 9, Garðar B. Sigurjónsson 3 (2 úr vítum), Ólafur Jóhann Magnússon 3, Elías Bóasson 2, Ragnar Þór Kjartansson 2, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Kristinn Björgúlfsson Arnar Freyr Ársælsson og Arnar Freyr Arnarsson allir með 1 mark. Kristófer Fannar Guðmundsson átti góðan leik í Fram markinu og varði 14 skot, þar af 1 vítakast. Tvö gríðarlega mikilvæg stig í hús og nú getum við einbeitt okkur að því að reyna að ná sem bestu sæti fyrir komandi úrslitakeppni. Næsti leikur er heima gegn toppliði Vals og verður sá leikur á óvenjulegum leiktíma, sunnudaginn 8. mars í Íþróttahöllinni. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook