Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Bergvin hafði ástæðu til að fagna í gær2. október 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarHvað sögðu menn eftir Fram leikinn í gær? Það var þungu fargi létt af leikmönnum og stuðningsmönnum Akureyrar eftir frábæran leik gegn Fram þar sem fyrstu stig tímabilsins skiluðu sér í hús. Einar Sigtryggsson blaðamaður mbl.is og Stefán Guðnason sem var tíðindamaður visir.is ræddu við menn eftir leikinn. Byrjum á viðtölum Einars en hann ræddi við Andra Snæ Stefánsson og Guðlaug Arnarsson.Andri Snær: Áræðnir og einbeittir Andri Snær Stefánsson, fyrirliði Akureyrar, spilaði ekki mínútu í kvöld þegar lið hans vann langþráðan sigur gegn Fram í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld, 31:24. Hann vatt sér hins vegar í hressilegt viðtal eftir leik. „Við vorum alltaf að fara að vinna þennan leik. Við vorum bara þannig stemmdir. Við erum búnir að vera í ferli með okkar leik og byggðum þetta á seinni hálfleik okkar gegn FH. Við vorum áræðnir og óhræddir,“ sagði Andri Snær í samtali við mbl.is. „Það var sama á hverju gekk við misstum aldrei sjónar á markmiðinu, að hirða stigin og vinna. Það má segja að við höfum kallað fram allt það besta sem við ætluðum okkur,“ sagði Andri Snær enn fremur. „Einbeitingin var rosaleg og við skoruðum fjórir á sex, það lýsir bara andanum. Þetta var líka rosalega gaman og að sjá stemninguna sem myndaðist var frábært. Þetta var bara okkar dagur,“ sagði hinn eldspræki Andri Snær að lokum.Andri og félagar fögnuðu innilega undir lok leiksins
Guðlaugur: Þurfum að þroskast hratt Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, var ekki hress eftir slæmt tap liðs síns gegn Akureyringum í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik, 31:24. Hann var lengi með liðsmönnum inni í klefa áður en hann gaf sig á tal við blaðamann. „Við vorum bara ekki nógu góðir í kvöld og Akureyringar unnu verðskuldað. Við vorum ekki að spila okkar vörn og markvarslan var ekki nógu góð. Ég held að við höfum komið þeim á bragðið í fyrri hálfleiknum með því að klúðra dauðafærum gegn Hreiðari. Þeir efldust við það og voru bara með leikinn. Við gáfumst þó aldrei upp og héldum áfram. Strákarnir eru ungir í liðinu, meðalaldurinn um 20 ár og sá elsti 25 ára, en þeir þurfa að þroskast hratt og verða fullorðnir“ sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.Guðlaugur hafði ýmislegt að ræða við sína leimenn
Víkjum þá að viðtölum Stefáns Guðnasonar sem ræddi við Bergvin Þór Gíslason og Guðlaug Arnarsson:Bergvin: Frábær leikur af okkar hálfu „Þetta var frábær leikur af okkar hálfu. Við ákváðum það í hálfleik á móti FH að brjóta okkur aðeins út úr skelinni, gefa af okkur og fara að hafa gaman af þessu,” sagði Bergvin Þór Gíslason, alsæll er blaðamaður Vísis hitti á hann eftir leik. „Uppleggið fyrir þennan leik var einfaldlega að halda áfram því sem við vorum að gera þar. Stemmingin var frábær í kvöld og virkilega gaman að spila þennan leik. Allir strákarnir voru hrikalega flottir”. Bergvin sagði að öxlin væri að verða betri en hann hefur átt í vandræðum með hana. „Það er dagamunur á henni en hún var frábær í kvöld, ég skoraði meira að segja nokkur með langskoti. Það er fínt að troða smá sokk upp í þá sem töldu mig vera búinn sem leikmann.” Næsti leikur liðsins er gegn Gróttu og Bergvin vonast eftir áframhaldi á þessari spilamennsku. „Já ekki spurning. Grótta er með hörkulið, svipað okkur að getu. Það verður erfiður leikur á erfiðum útivelli en ef við sýnum þessa baráttu og gleði þá verður ekkert gaman að mæta okkur.”Bergvin fagnar einu af sjö mörkum sínum í leiknum
Guðlaugur: Strákarnir þurfa að þroskast andlega Það var þungt yfir Guðlaugi Arnarssyni, þjálfara Fram, þegar blaðamaður Vísis náði loksins tali af honum eftir leik. „Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með mína menn í kvöld. Ég hefði viljað sjá meiri grimmd og sjá okkur höndla aðstæðurnar betur.” Guðlaugur var vonsvikinn yfir viðbrögðum leikmanna sinna í kvöld. „Vissulega er ég með ungt lið í höndunum, meðalaldurinn í kringum 20 ár en megin þorrinn í þessum hóp er búinn að vera að bera uppi meistaraflokkinn síðustu þrjú ár. Þessir strákar eru virkilega góðir í handbolta en þeir þurfa að þroskast andlega og það hratt til að stíga það sem skref sem þeir geta stigið og eiga að stíga.” Guðlaugur segir að leikmenn liðsins hafi nægan tíma en Fram hefur nú tapað þremur leikjum í röð. „Mótið er þó bara nýbyrjað og engin ástæða til að örvænta, við höfum verið að spila vel heilt yfir. Við erum núna búnir að eiga tvo slæma leiki í röð og það er bara hlutverk okkar sem að liðinu standa og strákanna að rífa sig upp að nýju og mæta dýrvitlausir í næsta leik og sýna okkar rétta andlit og gera það allan leikinn.”Guðlaugur og Haraldur hugsi yfir gangi mála í leiknum
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook