Warning: Undefined variable $udleiks in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 16
Frábær síðari hálfleikur kaffærði Víkinga - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Hreiðar heldur uppteknum hætti í markinu fyrir aftan frábæra vörn



4. október 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frábær síðari hálfleikur kaffærði Víkinga

Akureyri mætti í Víkina og lék þar gegn Víkingum í 7. umferð Olís deildarinnar. Fyrir leikinn voru bæði lið með 2 stig og því ljóst að liðið sem færi með sigur af hólmi myndi fjarlægjast botninn í bili. Eftir jafnan fyrri hálfleik settu okkar menn í fluggírinn í þeim síðari og hreinlega kaffærðu heimamenn, lokatölur 21-30 og Akureyri búið að sigra tvo leiki í röð.

Hér má sjá svipmyndir frá leiknum úr fréttatíma RÚV

Akureyri byrjaði leikinn af miklum krafti og einbeitingin skein úr augum manna. Staðan var orðin 2-5 eftir nokkrar mínútur og var sóknin að ganga ákaflega vel ásamt því að vörnin var að loka á Víkingana. Heimamönnum tókst þó að koma sér betur inn í leikinn og með öguðum leik náðu þeir að snúa leiknum sér ívil og ná 9-7 forskoti.

En það er mikill karakter í okkar liði og menn voru ekki lengi að bregðast við þessum leikkafla Víkinga. Akureyrarliðið er farið að ná að nýta sér betur þessa góðu vörn og markvörslu með hraðaupphlaupum og seinni bylgju. Staðan var 13-14 þegar flautað var til hálfleiks og stefndi allt í hörkuleik enda hefur Víkingsliðið náð að hanga í öllum leikjum sínum til þessa.

En okkar menn ætluðu sér svo sannarlega öll stigin í dag og hófu síðari hálfleikinn með því að skora fyrstu 5 mörkin og allt í einu var leiknum í raun lokið. Víkingar náðu reyndar að minnka muninn niður í 3 mörk en þá gáfu okkar menn allhressilega í og hreinlega slátruðu leiknum. Niðurstaðan stórsigur 21-30 og ljóst að sjálfstraustið er komið í okkar lið og nú getum við litið fram á veginn.


Hörður var með þrjú góð mörk í dag. Mynd: Vísir/Vilhelm

Vörn Akureyrar var mjög góð heilt yfir í dag en Víkingar nýttu sér mikið línuspil í leiknum og var það helsta sem okkar menn áttu í erfiðleikum með. Fyrir aftan stóð Hreiðar Levý sem heldur áfram að eiga hvern stórleikinn á fætur öðrum og endaði með 16 skot sem er 46% markvarsla. Tomas Olason kom inná undir lokin og varði 2 skot.

Sóknarlega var Akureyri að leika fínan bolta, enn er töluvert í land en búið er að fækka mistökunum mikið og liðið er farið að keyra betur á liðin sem skilar fleiri mörkum. Bergvin Þór átti stórleik í dag og virðist sem að öxlin sé að plaga hann minna og minna sem eru frábærar fréttir, Beggi endaði með 7 mörk í dag og var mikil ógn af honum.


Bergvin stóð svo sannarlega fyrir sínu í dag. Mynd: mbl.is/​Eggert

Hinsvegar þarf liðið að fara að skoða hvernig stendur á vítanýtingu liðsins. Liðið hefur fengið 24 víti í þessum 7 leikjum sem búnir eru en hefur einungis nýtt 12 þeirra sem er ekki nógu gott. Ingimundur fékk að taka vítin í dag og byrjaði vel með því að skora úr fyrstu tveimur en svo klikkaði hann á seinni tveimur. Hingað til hafa Heiðar Þór og Kristján Orri séð um vítin.

Mörk Akureyrar: Bergvin Þór Gíslason 7, Halldór Logi Árnason og Kristján Orri Jóhannsson 4 hvor, Hörður Másson, Heiðar Þór Aðalsteinsson og Sigþór Árni Heimisson 3 mörk hver, Brynjar Hólm Grétarsson, Friðrik Svavarsson og Ingimundur Ingimundarson 2 mörk hver.
Í markinu vörðu Hreiðar Levý Guðmundsson 16 skot og Tomas Olason 2 skot.

Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 5, Hjálmar Þór Arnarson 5, Atli Karl Bachmann 3, Daníel Ingi Guðmundsson 3, Bjartur Guðmundsson 2, Ægir Hrafn Jónsson 2 og Víglundur Jarl Þórsson 1 mark.
Í markinu vörðu Magnús Gunnar Erlendsson 9 skot (2 víti) og Einar Baldvin Baldvinsson 7 skot.

En frábær leikur í dag, það tók smá þolinmæði að brjóta Víkingana á bak aftur en það gekk í síðari hálfleik og ef liðið spilar áfram svona verða stigin fjölmörg í vetur, áfram Akureyri!
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson