Warning: Undefined variable $udleiks in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 16
Öruggur sigur Akureyrar á Stjörnunni - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Tomas, Mindaugas og Kristján Orri léku við hvern sinn fingur gegn Stjörnunni





10. nóvember 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Öruggur sigur Akureyrar á Stjörnunni

Einhvernvegin lá það í loftinu að við fengjum hagstæð úrslit í leik kvöldsins þegar Akureyri tók á móti Stjörnunni. Reyndar vantaði tvo mikilvæga leikmenn í Akureyrarliðið því bæði leikstjórnandinn Sigþór Árni Heimisson og skyttan öfluga Brynjar Hólm Grétarsson glíma við meiðsli og voru fjarri góðu gamni.
Patrekur Stefánsson var því í hlutverki leikstjórnandans og leysti það býsna vel af hendi. Nýr leikmaður kom inn í hópinn, Úkraínumaðurinn Igor Kopyshynskyi en kom raunar ekki við sögu í leiknum enda einungis búinn að taka þátt í einni æfingu fyrir leikinn.

Leikurinn fór fjörlega af stað, Akureyri skoraði fyrsta mark leiksins en Stjarnan svaraði með næstu tveimur og reyndist það vera eina skiptið sem Stjarnan hafði forystu í leiknum. Vörn Akureyrar og ekki síst Tomas Olason í markinu hreinlega skelltu í lás þannig að við tók 7-1 kafli Akureyrarliðsins og staðan orðin 8-3 eftir tæplega tuttugu mínútna leik.

Stjarnan klóraði lítillega í bakkann þannig að þegar flautað var til hálfleiks var staðan 10-7 fyrir Akureyri en reyndar aukakast eftir. Mindaugas Dumcius stillti sér upp andspænis öflugum varnarvegg gestanna en gerði sér lítið fyrir og skoraði fram hjá veggnum og Sveinbjörn Pétursson sá aldrei boltann fyrr en hann lá í markhorninu hjá honum, þannig að forysta Akureyrar var fjögur mörk, 11-7 þegar liðin gengu til búningsklefanna.


Mindaugas með aukakastið í lok fyrri hálfleiks

Raunar gátu Stjörnumenn þakkað Sveinbirni fyrir að forskot Akureyrar væri ekki meira því hann átti stórleik í markinu. En á móti kom að Tomas Olason átti ekki síður magnaðan leik í Akureyrarmarkinu og er heldur betur jákvætt að Tomas virðist hafa náð sér eftir meiðslin sem hann hlaut snemma tímabilsins.

Seinni hálfleikurinn hófst með áhlaupi Stjörnunnar sem skoruðu fyrstu tvö mörkin og minnkuðu muninn þar með í tvö mörk. En heimamenn voru ekkert á því að gefa færi á sér og juku forskotið í fimm mörk á ný, 15-10. Sá munur hélst áfram og varð munurinn raunar mestur sex mörk, 21-15 þegar Mindaugas skoraði sirkusmark og átta mínútur eftir af leiknum.
Stjörnumenn minnkuðu muninn í fjögur mörk og fengu kjörið tækifæri til að minnka muninn enn frekar þegar þeir fengu vítakast. Arnar Þór Fylkisson kom í markið og gerði sér lítið fyrir og varði vítið með tilþrifum.

Stjarnan fékk svo heldur betur tækifæri til að snúa leiknum þegar þrír Akureyringar voru reknir út af samtímis. En Tomas Olason hafði ekki sagt sitt síðasta, hann varði meistaralega dauðafæri Stjörnumanna og Akureyri fékk boltann. En það var línumaðurinn Friðrik Svavarsson sem stal senunni á lokasekúndunum þegar hann lyfti sér upp fyrir framan Stjörnuvörnina og þrykkti boltanum í netið án þess að Sveinbjörn kæmi nokkrum vörnum við.

Sanngjarn fjögurra marka sigur Akureyringa, 24-20 staðreynd og gríðarlega mikilvæg úrslit fyrir liðið. Það var fyrst og fremst stórbrotin vörn og markvarsla sem skóp sigurinn en raunar voru fjölmörg augnablik í sóknarleiknum sem glöddu augað. Áður var nefnt sirkusmark þeirra Stropusar og Mindaugas, Andri Snær og Kristján Orri settu upp annað þvert yfir teiginn og Róbert Sigurðarson brá sér aðeins í sóknina og átti sannkallað draumamark, klesst upp í samskeytin. Hann fékk reyndar að líta beint rautt spjald örfáum sekúndum síðar og lauk þar með þátttöku í leiknum.


Róbert Sigurðarson dúndrar á markið og skoraði þetta líka glæsimark

Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 6 (2 úr vítum), Mindaugas Dumcius 6, Friðrik Svavarsson 4, Andri Snær Stefánsson 3, Karolis Stropus 3, Garðar Már Jónsson 1 og Róbert Sigurðarson 1 mark.
Tomas Olason varði 19 skot og Arnar Þór Fylkisson spreytti sig á einu víti og varði það með tilþrifum.

Mörk Stjörnunnar: Ari Magnús Þorgeirsson 5 (2 úr vítum), Starri Friðriksson 4, Garðar Benedikt Sigurjónsson 3 (1 úr víti), Sverrir Eyjólfsson 3, Andri Hjartar Grétarsson 2, Ari Pétursson, Eyþór Már Magnússon og Stefán Darri Þórsson 1 mark hver.
Í markinu stóð Sveinbjörn Pétursson allan tímann og varði mjög vel, allavega 15 skot.

Tomas Olason var réttilega valinn maður Akureyrarliðsins en að öðru leyti er erfitt að taka aðra út úr hópnum því hver og einn skilaði sínu frábærlega og skein baráttan og leikgleðin af hverju andliti.


Tomas Olason besti maður Akureyrarliðsins fékk Norðlensku matarkörfuna

Hjá Stjörnunni var Ari Magnús Þorgeirsson valinn maður liðsins en Sveinbjörn Pétursson hefði svo sannarlega getað fengið útnefninguna líka.

Leikurinn var sýndur beint á Akureyri TV og er hægt að horfa á hann hér.

Næsti leikur Akureyrar er strax á sunnudaginn þegar liðið heldur suður á Seltjarnarnes og mætir þar Gróttu klukkan 16:00 í Hertz höllinni.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson