Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Það er svo sannarlega ekki öll nótt úti enn!29. mars 2017 - Akureyri handboltafélag skrifarAkureyri enn á lífi - úrslitaleikur á þriðjudaginn Óhætt er að segja að dramatíkin hafi verið allsráðandi í Olís-deildinni í kvöld. Trúlega hafa margir verið búnir að afskrifa möguleika Akureyrar á að halda lífi í draumnum um að forðast botnsæti deildarinnar. Það voru erfiðar stundir hjá strákunum í fluginu heim eftir leikinn því ef Stjarnan ynni Gróttu þá væri baráttan töpuð. Síðustu fréttir sem strákarnir höfðu áður en þeir þurftu að slökkva á símunum í flugvélinni voru að Stjarnan væri fimm mörkum yfir og stemmingin skiljanlega í daprara lagi í vélinni. En eftir nokkra stund gargaði Friðrik Svavarsson yfir alla vélina að leikurinn hefði endað 31-31 en jafnframt að hann væri búinn að slökkva aftur á símanum. Óhætt er að segja að þungu fargi hafi létt af mönnum og stemmingin heldur betur léttari það sem eftir var flugferðarinnar. Nú er sem sé ljóst að leikur Stjörnunnar og Akureyrar verður hreinn úrslitaleikur um 9. sætið í deildinni sem að öllum líkindum þýðir áframhaldandi veru í Olís-deildinni næsta tímabil. Sá leikur verður í TM-Höllinni í Garðabæ klukkan 19:30 á þriðjudaginn líkt og allir leikir lokaumferðarinnar. Það er óhætt að segja að nú sé ástæða til að fylgja strákunum á völlinn og tryggja að Akureyringar verði fjölmennir og láti duglega í sér heyra á pöllunum. Áfram Akureyri! Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook