Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Ingimundur og Andri Snær í viðtölum30. mars 2017 - Akureyri handboltafélag skrifarViðtöl og meiri umfjöllun um ÍBV leikinn Að sjálfsögðu var mikið fjallað um leiki gærkvöldsins í fjölmiðlum og þá ekki síst hörkuleik ÍBV og Akureyrar í Eyjum þar sem flestir reiknuðu með öruggum sigri heimamanna en Akureyringar gáfu allt í leikinn og úr varð hörkuleikur. Á endanum var það Andri Snær Stefánsson sem jafnaði metin með marki á lokasekúndunni og lokatölur 22-22. Hér á eftir skoðum við umfjöllum RÚV, mbl.is og visir.is. Sjáum fyrst þar sem búið er að setja saman umfjöllun RÚV og RÚV2 um leikinn ásamt viðtölum þeirra við þjálfara liðanna þá Ingimund Ingimundarson og Arnar Pétursson:Efni frá RÚV VIDEO Á mbl.is ræddi Guðmundur Tómas Sigfússon við Ingimund, Andra Snæ Stefánsson og Arnar Pétursson strax eftir leik:Ingimundur: Þeir gáfu gjörsamlega allt í þetta Ingimundur Ingimundarson, annar þjálfara gestanna, var ánægður með strákana sína eftir leik en liðið sýndi ÍBV enga virðingu á þeirra eigin heimavelli. Liðið hefði tekið öll stigin ef það hefði ekki verið fyrir ömurlega kafla inni á milli. „Fyrr í vetur hefði ég þegið stig fyrir leik, ég skal alveg viðurkenna það. Ég veit ekki hversu mikið þetta eina stig hjálpar okkur í dag en það er mjög sterkt að klára það. Ef við horfum á stöðuna í töflunni þá þurfum við að sjá hvort að þetta stig hjálpar okkur. Það veltur á úrslitum Stjörnunnar í kvöld, ef við hefðum ekki náð stigi og þeir náð jafntefli þá værum við úr leik.“Miðað við gengi liðanna á árinu bjuggust ekki margir við því að Akureyri yrði eitthvað annað en hákarlafóður fyrir Eyjamenn. „Ég er mjög ánægður með strákana, hópinn allan, það er margt sem að blæs á móti okkur þessa dagana. Ekki bara staðan í deildinni heldur ýmsir utanaðkomandi hlutir sem að eru skrýtnir. Við erum þéttir og þurfum að berjast fram í rauðan dauðann og sjáum hvort að við fáum ekki úrslitaleik á þriðjudaginn. Ef ég fæ strákana svona stemmda í þann leik, þá er ég mjög spenntur.“Ingimundur pollrólegur á hliðarlínunni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar mbl.is
Menn voru að spila fyrir félagið Hvað var Ingimundur ánægðastur með hjá liðinu í dag? „Viljinn og baráttan, það sást að menn voru að spila fyrir félagið og hvorn annan í dag. Þeir gáfu gjörsamlega allt í þetta, góður varnarleikur og það er ákveðið hrós fyrir okkur að fá bara 22 mörk á okkur á móti þessu kanónu-liði, sem spilar í 40 mínútur með sjö á móti sex í sókninni. Ég tel það mjög sterkt hjá okkar varnarmönnum og markmanni að halda ÍBV í 22 mörkum í undirtölu 60% af leiknum.“Ef það hefði ekki verið fyrir tvo glataða kafla hjá Akureyringum þar sem þeir tapa 5:0 og 4:0 þá hefði sagan verið önnur, það hlýtur að vera grátlegt að horfa á þessa kafla eftir leik. „Það voru vissulega slæmir kaflar hjá okkur en sterkt hjá okkur að koma til baka. Við vorum sjálfum okkur verstir, gerðum hluti sem við ætluðum að forðast að gera, við misstum einbeitinguna og buðum hættunni heim með lélegu sendingavali og skotum. Það er mjög hættulegt á móti ÍBV, þeir eru einstaklega fljótir fram og að refsa fyrir svona einföld mistök.“Kári Kristján Kristjánsson var ekki með Eyjamönnum í dag, telur Ingimundur það hafa hjálpað Akureyri? „Það veikir öll lið á Íslandi ef að Kári er ekki með þeim, lið utan landsteinanna líka, hann er auðvitað frábær línumaður og tekur mikið pláss til sín. Þeir voru að lauma inn á Magga og Sindra á línunni en klárlega skarð fyrir skyldi fyrir ÍBV að Kári sé ekki með þeim,“ sagði Ingimundur að lokum.Andri Snær: Búnir að vera ofboðslega miklir aular Andri Snær Stefánsson skoraði jöfnunarmark Akureyringa sem sóttu stig til Eyja í kvöld, 22:22, í Olís-deild karla í handknattleik. Markið kom á lokasekúndu leiksins en Akureyringar komu til baka undir lokin þegar flestir héldu að leiknum væri lokið.Andri spjallaði við mbl.is eftir leik og var í raun ekki viss um hvernig honum ætti að líða. Hann beið spenntur eftir úrslitum úr leik Gróttu og Stjörnunnar, en jafntefli í þeim leik tryggir hreinan úrslitaleik Akureyrar og Stjörnunnar um sæti í deildinni í síðustu umferðinni. „Nei, við vorum komnir hingað til Eyja til þess að taka tvö stig, við erum í þannig baráttu að við þurfum að vinna. Við ætluðum að vinna síðustu tvo leikina, þannig að það var frekar súrt að fá eitt stig. Ég er þó ótrúlega stoltur af liðinu, við sýndum frábæran karakter á móti, að mínu mati, langbesta liði deildarinnar í dag. Við getum verið með kassann uppi, þrátt fyrir að ná ekki ætlunarverki okkar í dag.“Andri Snær einbeittur á vítalínunni
Miðað við síðustu leiki liðanna í deildinni bjuggust fáir við því að gestirnir myndu taka eitthvað frá Eyjum. „Við erum búnir að vera ofboðslega miklir aular að klára ekki okkar leiki á móti Selfossi og Fram sérstaklega, það var mjög dýrt. Dýr stig í þeirri baráttu sem við erum í, á meðan eru ÍBV búnir að vera frábærir og eru með best spilandi liðið um þessar mundir að mínu mati.“Gestirnir sýndu ÍBV enga virðingu í upphafi leiks og komust meðal annars í 7:2 og 18:16 en lélegir kaflar eftir að Akureyri náði góðri forystu fóru með liðið í dag. „Já, það er alveg hárrétt, við vorum óskynsamir á nokkrum köflum í leiknum sem ÍBV nýtti sér mjög vel, enda refsa þeir fyrir öll mistök. Við héldum aganum í 93% af leiknum en við hefðum þurft 100% í dag.“Lið hafa ekki náð góðri markvörslu í Eyjum en Tomas Olason átti frábæran leik í rammanum í dag og hjálpaði Akureyri mjög mikið. „ÍBV er með mjög góðar skyttur og í raun valinn mann í hverju rúmi, þannig að það koma ekki mörg lið til Eyja og gera eitthvað. Tomas var mjög góður í dag og leiðinlegt að það hafi ekki skilað meiru.“Arnar: Við lentum í bullandi vandræðum Eyjamönnum mistókst að vinna það sem mörgum fannst vera skyldusigur á Akureyringum í kvöld þegar liðin áttust við í Olís-deild karla í handknattleik í Vestmannaeyjum. Akureyringar voru að berjast fyrir lífi sínu og voru betri á flestum sviðum í dag, en lokatölur urðu 22:22.Arnar Pétursson, þjálfari Eyjamanna, var alls ekki sáttur með spilamennsku liðsins og vill meina að liðið hafi tekið tröppu niður á við. „Við ætluðum okkur að sjálfsögðu bæði stigin, við ætluðum að halda áfram þeirri leið sem við vorum á fyrir leikinn en það klikkaði. Ég held að við höfum fallið á undirbúningsprófinu, við vorum klárlega ekki tilbúnir í þessa baráttu og þessa vörn sem Akureyringar spiluðu. Þeir voru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og gerðu það almennilega, við einfaldlega bökkuðum frá þeim. Við byrjuðum á því að gera tvö mörk á fimmtán mínútum sem er alls ekki boðlegt.“Arnar Pétursson órólegur á hliðarlínunni í jafnteflisleik liðanna í KA heimilinu fyrr í vetur
Eyjamenn lenda nokkrum sinnum undir en koma til baka með mjög góðum köflum sem bjarga stiginu fyrir þá. Heilt yfir þó ekki nógu góð spilamennska hjá liðinu. „Nei alls ekki, við vorum ekki að skila þessum leik nægilega vel. Þetta er klárlega trappa niður á við. Við höfum talað um tröppurnar upp á við sem við höfum tekið undanfarið en í dag var það niður á við. Við þurfum að stökkva nokkrar tröppur upp á við í næsta leik á móti Val.“Truflaði það liðsmenn ÍBV að flestir bjuggust við sigri þeirra í dag? „Kannski er það blanda af því. Við þurfum að takast á við það að eiga að gera eitthvað, það má vera að það hafi truflað okkur. Það má líka vera að góð spilamennska á móti Haukum í síðasta leik hafi orðið til þess að menn héldu að eitthvað væri komið sem er ekki komið. Þetta er þannig sport að ef menn eru ekki 100% klárir þá lenda þeir í vandræðum, við lentum í bullandi vandræðum á móti mjög baráttuglöðum og flottum Akureyringum.“Fyrst og fremst við sem féllum á prófinu Dómararnir virtust ekki setja nægilega góða línu í leikinn og virtist það trufla báða þjálfara á meðan leik stóð, þeir stoppuðu leikinn mjög mikið í síðari hálfleik og leikurinn náði ekki því flæði sem leikir ná oft. „Þeir akkúrat settu línu, sú lína náði yfir bæði lið. Akureyringar spiluðu betur á þeirri línu heldur en við, þeir nálguðust hana af meiri skynsemi og fóru alveg að henni. Við bökkuðum frá henni, mér fannst ekkert að þeirra störfum í dag, mér fannst þeir standa sig vel. Það voru fyrst og fremst við sem féllum á prófinu.“Eyjamenn eru ennþá taplausir eftir áramót í deildinni, Eyjamenn hljóta að vilja halda því áfram og koma á flugi inn í úrslitakeppnina. „Að koma á flugi inn í úrslitakeppnina er ekki það sem við erum að hugsa um. Við viljum bara sjá okkar leik verða betri og betri með hverjum leiknum sem við spilum. Við þurfum að svara fyrir þetta í næsta leik og sýna úr hverju við erum gerðir.“Kári Kristján Kristjánsson og Ágúst Emil Grétarsson voru ekki með liðinu í dag, hvers vegna? „Kári var í læknismeðferð í Reykjavík í gær, hann þarf þrjá eða fjóra daga til að jafna sig, Ágúst er meiddur.“ Að lokum kíkjum við á visir.is en þar ræðir Gabríel Sighvatsson einmitt við sömu aðila og við látum þau viðtöl fylgja með. Ingimundur: Menn voru að spila fyrir félagið og hvorn annan í dag Ingimundur Ingimundarson hjá Akureyri vildi tvö stig úr leiknum í dag en var samt ánægður með sína menn í dag. „Ég hefði þegið eitt stig fyrr í vetur, en ég veit ekki hversu mikið þetta eina stig hjálpar okkur í dag, engu að síður mjög sterkt að klára þetta, ef við horfum á stöðuna í deildinni það veltur bara á úrslitum Stjörnunnar í dag hvort þetta eina stig hjálpar okkur,“ sagði Ingimundur. „Ég er ánægður með strákana, það er svo margt sem blæs á móti okkur þessa dagana, hópurinn okkar er þéttur og við erum að berjast fram í rauðan dauðann og sjáum hvort við fáum ekki úrslitaleik á þriðjudaginn og ef ég fær strákana svona stemmda í þann leik þá erum við mjög sterkir,“ sagði Ingimundur.Varnarleikurinn var virkilega sterkur hjá gestunum í dag. „Viljinn og baráttan var ég ánægðastur með, menn voru að spila fyrir félagið og hvorn annan í dag, þeir gáfu gjörsamlega allt í þetta. Við spiluðum góðan varnarleik, það er frábært fyrir okkur að fá bara 22 mörk á okkur gegn ÍBV, ég tel það mjög sterkt,“ sagði Ingimundur.Slæmir kaflar hjá Akureyri hleyptu ÍBV aftur inn í leikinn oftar en einu sinni. „Það voru vissulega slæmir kaflar hjá okkur en sterkt hjá okkur að koma aftur til baka. Við vorum sjálfir okkur verstir, við vorum að gera hluti sem við ætluðum að forðast að gera. Við buðum hættunni heim með lélegu vali á sendingum og skotfærum. Það er mjög hættulegt gegn ÍBV, þeir eru einstaklega fljótir fram og eru fljótir að refsa fyrir svona einföld mistök,“ sagði Ingimundur.Kári Kristján Kristjánsson var ekki með Eyjamönnum í dag og sagði Ingimundur að það munað klárlega um hann. „Kári er frábær línumaður, hann tekur mikið pláss til sin, þeir voru nú að lauma inn á bæði Magga og Sindra á línuna en klárlega skarð fyrir skildi að Kári sé ekki með.“ sagði Ingimundur að lokum.Andri Snær: Við sýndum frábæran karakter gegn langbesta liðinu í dag Andri Snær Stefánsson skoraði lokamark leiksins og tryggði sínum mönnum stig í leiknum. Hann var þó ekki sáttur með að fá einungis eitt stig í dag. „Nei, við vorum komnir til Eyja til þess að taka tvö stig, við erum í þannig baráttu að við þurfum að vinna og ætluðum að vinna síðustu tvo leikina. Frekar súrt að fá eitt stig en ég er ofboðslega stoltur af liðinu, við sýndum frábæran karakter gegn langbesta liðinu í dag og við getum verið með kassann uppi þó okkur hafi ekki tekist ætlunarverkið í dag,“ sagði Andri.„Við erum búnir að vera ofboðslega miklir aular að klára ekki okkar leiki, á móti Selfossi og Fram sérstaklega, og það voru mjög dýr stig í þessari baráttu og á meðan eru ÍBV búnir að vera frábærir og eru að mínu mati með besta liðið um þessar mundir en við vorum allan tímann að fara að mæta hingað til þess að vinna en því miður tókst það ekki í dag,“ sagði Andri.Akureyri var mestmegnis yfir í leiknum en leyfði ÍBV að komast aftur í leikinn með slæmum köflum inn á milli. „Það er alveg hárrétt, við vorum óskynsamir á nokkrum köflum í leiknum sem ÍBV nýtti sér mjög vel enda refsa þeir fyrir hver mistök, annars héldum við aganum í 93 prósent af leiknum en við hefðum þurft 100 prósentin til þess að vinna,“ sagði Andri. „ÍBV er með mjög góðar skyttur og í raun og veru með valinn mann í hverju rúmi, það koma ekki mörg lið til Eyja og gera eitthvað en Tomas var mjög góður í dag og leiðinlegt að það hafi ekki skilað meiru.“ sagði Andri Snær að lokum.Arnar: Við féllum bara á prófinu Það var enginn sáttur með einungis eitt stig í dag og það átti líka við um Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. „Við ætluðum okkur að sjálfsögðu bæði stigin og halda áfram á þeirri leið sem við vorum á fyrir leikinn en það klikkaði.“ sagði Arnar. „Ég held að við höfum fallið á undirbúningsprófinu, við vorum klárlega ekki undirbúnir fyrir þennan fæting og þessa vörn sem Akureyringarnir spiluðu, þeir eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og við einfaldlega bökkuðum svolítið út úr þeim. Tvö mörk á 15 mínútum er bara ekki boðlegt,“ sagði Arnar.Arnar segir að spilamennskan hjá liðinu hafi heilt yfir ekki verið nógu góð. „Nei, alls ekki, þetta eru klárlega tröppur niður á við, ég hef alltaf talað um tröppurnar upp á við sem við höfum verið að taka undanfarið og núna tókum við klárlega tröppur niður á við og við þurfum að stökkva upp á við í næsta leik,“ sagði Arnar. „Við þurfum að læra að takast á við það að eiga að gera eitthvað, það má vel vera að það hafi truflað okkur og það má vel vera að mjög góð spilamennska gegn Haukum í síðasta leik hafi látið menn halda að það væri eitthvað komið sem var það ekki. Þetta er bara þannig sport að ef menn eru ekki 100 prósent klárir þá lenda menn í vandræðum og við lentum í bullandi vandræðum gegn baráttuglöðum og flottum Akureyringum,“ sagði Arnar.Arnar fannst dómararnir standa sig vel í dag en margir vildi meina að vafasamir dómar hefðu fallið og að þeir hafi ekki leyft leiknum að flæða nógu mikið. „Mér fannst þeir setja góða línu sem á við um bæði lið. Mér fannst Akureyringarnir spila betur á þeirri línu en við og nálguðumst hana af meiri skynsemi. Mér fannst ekkert að þeirra störfum í dag og við féllum bara á prófinu,“ sagði Arnar.Arnar vill að sjálfsögðu ná í sigur fyrir úrslitakeppnina sem er framundan. „Við viljum sjá okkar leik verða betri og betri, við þurfum aðeins að svara fyrir það í næsta leik og sýna úr hverju við erum gerðir, við þurfum að rífa okkur upp úr þessu,“ sagði Arnar.Kári Kristján Kristjánsson var ekki með í dag og það sama átti við um Ágúst Emil Grétarsson. „Kári var í læknismeðferð í Reykjavík í gær og þarf nokkra daga til að jafna sig og Ágúst er meiddur,“ sagði Arnar um stöðuna á þeim tveimur. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook