Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri burstaði ÍR (umfjöllun) - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2006-07

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - ÍR  33-24 (17-9)
DHL deild karla
KA-Heimilið
8. október 2006 klukkan: 16:00
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ó. Pétursson
Umfjöllun

Ásbjörn átti mjög flotta innkomu í dag

8. október 2006 - SÁ skrifar

Akureyri burstaði ÍR (umfjöllun)

Það var boðið upp á gríðarlega skemmtun á fyrsta heimaleik Akureyrar, sameinaðs liðs KA og Þór, þegar ÍR kom í heimsókn. Mikið af fólki var komið á leikinn og myndaðist góð stemmning á leiknum sem hjálpaði Akureyrarliðinu klárlega í dag. Jafnræði var framan af en í stöðunni 6-6 stingur lið Akureyrar af og staðan í hálfleik 17-9 í hálfleik. Akureyri vann leikinn svo örugglega 33-24.

Davíð Georgsson skoraði fyrsta mark leiksins en Goran Gusic jafnaði svo leikinn úr vítakasti. Jafnræði var svo með liðunum upp í 6-6 þó Akureyri væri alltaf skrefi á undan. Í stöðunni 6-6 og þegar 12 mínútur voru liðnar af leiknum kemur frábær leikkafli hjá Akureyri sem hreinlega vinnur leikinn fyrir þá. Næstu fimm mörk voru þeirra og staðan orðin 11-6. Yfirburðirnir héldu áfram og bættu Akureyri bara við muninn en liðið leiddi 17-9 í hálfleik. Seinustu 18 mínúturnar vann liðið sem sagt 11-3.

Í seinni hálfleik var svo aldrei spurning hvort liðið myndi vinna leikinn en Akureyri var bara miklu betra í leiknum. Þeir bættu enn við muninn og komust mest í 12 marka forystu nokkrum sinnum í seinni hálfleik en eftir 48 mínútna leik var staðan 27-15 fyrir Akureyri, hreint lýgilegar tölur. ÍR-ingar náðu aðeins að saxa á muninn í restina og vann Akureyri níu marka sigur 33-24.

Fyrst og síðast var það vörnin sem var frábær í dag. 15 mörk á fyrstu 48 mínútunum segja allt sem segja þarf en ÍR hefur alltaf verið þekkt fyrir að spila hratt og skora mikið. Akureyri náði alfarið að stöðva hraðaupphlaup ÍR-inga og 6 gegn 6 áttu gestirnir hreinlega ekki séns. Sá veggur sem Akureyri stillir upp í vörninni er með því rosalegra sem ég hef séð og hrein unun að horfa á vörnina. Segja má að liðið sé að gefa ansi skýr skilaboð til annarra liða deildarinnar með þessari vörn sinni en það mun enginn skora auðveldlega gegn liðinu í vetur ef þetta heldur svona áfram.

Bak við þessara stórfenglegu vörn stóð hinn 18 ára gamli Sveinbjörn Pétursson sem var frábær í dag. Hann var með 50% markvörslu í fyrri hálfleik og hafði varið 15 bolta fyrstu 46 mínúturnar. Þá kom ákeðið kæruleysi í varnarleik liðsins og færin sem Sveinbjörn fékk á sig allt öðruvísi. Í sókninni voru allir að skila sínu en markahæstur var Goran með 11 mörk og 5 úr vítum. Hann var öflugur í dag jafnt í horni sem skyttu. Goran náði vel saman við Aigars Lazdins sem var frábær í fyrri hálfleik. Áður hef ég ritað um seiglu Aigars og var hún alls ráðandi í dag. Hann er langt frá því að vera fljótasti handboltamaður í heimi en hann skilar svo sannarlega sínu. Aigars spilaði einnig mjög vel í vörn
Magnús Stefánsson var öflugur í dag og síógnandi með frábærum skotum sínum en hann sýndi mikinn karakter og reif sig svo sannarlega upp eftir slakan leik gegn Val. Hann átti kláran stjörnuleik og var mjög góður bæði í sókn og vörn. Alexey Kuzmins lék vel í dag og stjórnaði spilinu vel, þó finnst manni aðeins vanta uppá hjá honum en hann var þó mjög öflugur. Annar 18 ára strákur, Asbjörn Friðriksson, kom svo inn og átti stjörnu innkomu. Ásbjörn var óragur og duglegur við að sækja á markið og spila liðsfélaga sína uppi. Löngum stundum hélt hann Kuzmins á bekknum svo góður var hann en afar þýðingarmikið væri fyrir liðið að fá eins sterkan miðjumann og hann lék í dag inn af bekknum. Rúnar og Þorvaldur komu svo gríðar öflugir inn af bekknum og stjórnuðu vörninni óaðfinnanlega í dag.
Í hornunum byrjuðu Heiðar og Nikolaj. Báðir hafa spilað betur en Nikolaj var full mistækur. Heiðar fékk úr litlu að moða en hefði mátt standa vörnina betur í horninu. Andri Snær kom snemma inn fyrir hann og skilaði varnarhlutverkinu frábærlega en í sókninni fékk hann ekki heldur mikla sénsa.

Í heildina frábær leikur hjá Akureyri og virkilega jákvæður fyrsti leikur. Haldi liðið áfram að spila þessa vörn verður gríðarlega erfitt að vinna okkar menn. Vörn og markvarsla eru stærstu þættirnir í handknattleik í dag og er Akureyri til alls líklegt ef þetta heldur svona áfram.

Maður leiksins: Sveinbjörn Pétursson, fór rólega af stað en varði frábærlega þegar á leið og átti mikinn þátt í sigri Akureyrar.

Næsti leikur liðsins er við Hauka næstkomandi sunnudag á Ásvöllum. Við hvetjum svo fólk til að fylgjast vel með á síðunni en eftir örskamma stund koma viðtöl, myndir og fleira.

Tengdar fréttir

Áhorfendur fjölmenntu á leikinn og voru af öllum aldri

9. október 2006 - ÁS skrifar

Akureyri-ÍR: Myndir af áhorfendum

Áhorfendur mættu vel á fyrsta heimaleik karlaliðs Akureyrar Handboltafélags og var mikil stemmning á pöllunum þrátt fyrir að engar trommur væru í húsinu. Þórir Ólafur Tryggvason tók margar myndir af áhorfendum og birtast þær hér fyrir neðan. Heimasíðan hvetur fólk eindregið til að fjölmenna á leiki liðsins í vetur en næsti heimaleikur er 5. nóvember gegn Fylki.







































































Hörður Fannar barðist vel og mikið í leiknum

9. október 2006 - ÁS skrifar

Akureyri-ÍR: Myndir af leikmönnum

Karlalið Akureyrar vann mjög sannfærandi heimasigur á liði ÍR í gær. Þórir Ólafur Tryggvason tók nokkrar myndir af leikmönnum Akureyrar og birtast þær hér fyrir neðan. Heimasíðan vill þakka Þóri fyrir myndirnar en þær eru flottar eins og venjulega hjá honum.


Goran var markahæstur með 11 mörk


Maggi var mjög öflugur og setti 6 mörk


Hörður Fannar var sterkur í sókninni


Aigars Lazdins spilaði ákaflega vel í fyrri hálfleik


Hörður Fannar skoraði 4 mörk


Þorvaldur og Rúnar ræða saman á bekknum


Ásbjörn átti fantagóða innkomu og setti 4 mörk


Andri Snær skorar úr hraðaupphlaupi


Alexey Kuzmins bætti leik sinn frá leiknum við Vals


Heiðar skoraði eitt mark í leiknum


Bjarni Gunnar fékk að spila undir lokin


Sveinbjörn stóð vaktina í markinu og var valinn maður leiksins


Sævar var ansi sáttur með stöðuna undir lok leiks


Sævar, Hörður og Rúnar


Rúnar stjórnaði frábærri vörn í dag

8. október 2006 - SÁ skrifar

Rúnar: Ánægðastur með Sveinbjörn og Ásbjörn

Heimasíðan talaði við Rúnar Sigtryggsson þjálfara Akureyrar eftir leikinn í dag en hann var ansi sáttur. Rúnar spilaði sjálfur vörnin mikinn hluta leiksins og stjórnaði henni eins og sannur foringi. Ótrúlegt var að sjá þá fjóra fyrir miðju hennar en með þessum fyrstu tveimur leikjum má segja að Akureyri sé að gefa skýr skilaboð til annarra liða með varnarleiknum.

SÁ: Hvernig fannst þér fyrir heimaleikurinn hérna á Akureyri?
Rúnar: Hann var fínn. Ég er ánægður með mætinguna á fólkinu og bara hvernig leikmenn mættu stemmdir í leikinn. Mér fannst það mjög gott en ég hefði viljað sjá sóknarleikinn ganga betur. Menn eru ekki að ná nógu vel saman miðað við það sem við höfum gert.

SÁ: Munar það ekki að hafa svona góða mætingu áhorfanda?
Rúnar: Það munar alveg gífurlega og ef þetta heldur svona áfram þá töpum við ekki leik hérna á heimavelli, bara út af fólkinu. Strákarnir motiverast af þessu og leggja sig allan fram. Það er greinilegt að þeim líður mjög vel þegar þeir finna fyrir svona miklum stuðningi.

SÁ: Hvað varstu ánægðastur með hjá liðinu í dag?
Rúnar: Ég var ánægðastur með Sveinbjörn í markinu og innkomuna hjá Ásbirni. Tveir 18 ára strákar sem er verið að henda út í djúpu laugina og þeir standa fyrir sínu.

SÁ: Vörnin, hvað viltu segja um hana?
Rúnar: Hún á bara að vera svona. Ég er ánægður með hana en hún á bara að spila svona.

SÁ: Ef að við náum að spila svona þá verður ansi erfitt að vinna Akureyri í vetur, ekki satt?
Rúnar: Það á að vera það jú en þetta helst allt í hendur, sókn og vörn, og ég álýt að við séum á réttri leið en það er ennþá langt í land.



Sveinbjörn var valinn maður leiksins af heimasíðu Akureyrar

8. október 2006 - SÁ skrifar

Sveinbjörn: Vörnin er rosalega traust

Hinn 18 ára gamli Sveinbjörn Pétursson í marki Akureyrar átti frábæran leik í dag gegn ÍR. Hann var nokkrar mínútur að koma sér í gang en þegar það gerðist þá varði hann ótrúlega. 50% markvarsla í fyrri hálfleik og 43% í heildina segja allt sem segja þarf en Sveinbjörn hafði hreint ótrúlegan múr fyrir framan sig í dag. Við spjölluðum við Sveinbjörn eftir leikinn.

SÁ: Jæja Sveinbjörn, hvernig var að spila fyrsta leikinn hérna heima á Akureyri?
Sveinbjörn: Þetta er bara rosalega góð tilfinning. Klárlega allt annað en að spila í Höllinni þar sem 50-60 manns eru sitjandi út um allt. Þetta er bara allt önnur stemmning hérna.

SÁ: Það hlýtur að muna að hafa mikið af fólki með sér?
Sveinbjörn: Já, fólkið er alveg upp við mann og maður heyrir í hverjum einasta og þetta er alveg rosalega gott. Maður var pínu stressaður í byrjun en það fór bara af manni.

SÁ: Hvernig fannst þér liðið spila í dag?
Sveinbjörn: Mér fannst við spila mjög vel. Vörnin er náttúrulega rosalega traust og þá kom þetta hjá manni. Svo í seinni hálfleik var þetta farið að leysast upp í smá vitleysu en það sáu allir að þetta stefndi í sigur hjá okkur. Annars var þetta yfir höfuð bara mjög gott.

SÁ: Það hlýtur að muna að hafa svona múr fyrir framan sig?
Sveinbjörn: Já með þessa kappa Rúnar, Valda, Hödda, Magga og Aigars fyrir framan sig þá er þetta rosalega gott. Þeir eru mjög traustir fyrir.

SÁ: Þið hljótið að ætla að byggja á þessu?
Sveinbjörn: Já eins og sást á þessum leik og Valsleiknum þá var vörnin að smella alveg en gegn Val þá gekk ekki sóknin alveg. Núna gekk þetta allt upp og við verðum að halda þessu áfram.



Óli og félagar voru ekki góðir í dag en þeir rákust einfaldlega stóran vegg



8. otkóber 2006 - SÁ skrifar

Ólafur ekki sáttur við leikinn

Eftir leik Akureyrar og ÍR tókum við viðtal við Ólaf Sigurgeirsson leikmann ÍR og fyrrum leikmann KA. Ólafur var mættur aftur á sinn gamla heimavöll en þessi ferð hans var ekki til fjár. Hann var því ekkert alltof ánægður með lið sitt sem var langt frá sínu besta.

SÁ: Ólafur, það hefur varla verið gaman að koma aftur í KA-Heimilið í dag?
Ólafur: Og tapa? Nei, það var frekar leiðinlegt. Við stóðum okkur ekki vel.

SÁ: Hvað fannst þér mest að í ykkar leik?
Ólafur: Við vorum bara ekki að gera það sem ætluðum að gera fyrir leik. Sem var að keyra á og við vorum bara í einhverju rugli.

SÁ: Þið fáið ekki nema 1-2 mörk úr hraðaupphlaupum allan leikinn, það hlýtur að muna gríðarlega um það?
Ólafur: Já klárlega. Við náttúrulega erum hraðir og eigum náttúrulega að fá mörg mörk úr hraðaupphlaupum, við vorum svo sannarlega ekki að fá þau. Ég veit ekki af hverju en við verðum bara að skoða þetta.

SÁ: Varstu sáttur við eitthvað í ykkar spilamennsku í dag?
Ólafur: Nei, ekki neitt.

SÁ: Þið byrjuðuð vel með sigri á Haukum, ertu bjartsýnn fyrir veturinn með ÍR?
Ólafur: Já. Þetta er náttúrulega ungt lið en við vitum alveg hvað við getum og ég er bara bjartsýnn.


Bein Lýsing er í boði hér á síðunni frá leik Akureyrar og ÍR

8. október 2006 - ÁS skrifar

Bein Lýsing: Akureyri - ÍR

Fyrsti heimaleikur Akureyrar Handboltafélags fer fram í dag í KA-Heimilinu klukkan 16:00. Það verður gaman að sjá hvernig liðið kemur tilbúið til leiks en liðið þarf á sigri að halda til að komast strax á skrið. Leikur dagsins er gegn ÍR en ÍR sigraði Hauka í síðustu umferð. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu af leiknum sem hún hvetur fólk til að fylgjast með ef það kemst ekki á leikinn. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Rúnar og hans lærisveinar leika gegn ÍR á morgun kl: 16:00 í KA-Heimilinu. Þeir sem ekki komast geta fylgst með öllu um leikinn hér á síðunni

7. október 2006 - SÁ skrifar

1 dagur í leik: Akureyri - ÍR í beinni lýsingu

Á morgun fer fram fyrsti heimaleikur Akureyri í vetur en andstæðingar okkar verða sem kunnugt er ÍR. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni lýsingu hér á síðunni og er því tilvalið fyrir alla þá sem ekki komast á leikinn að fylgjast með. Eins og áður hefur komið fram þá verður beina lýsingin bætt til mikilla muna í vetur en Síminn ætlar að hjálpa okkur í því.

Leikur Akureyrar og ÍR fer fram í KA-Heimilinu klukkan 16:00 á morgun, sunnudag, og hvetjum við alla eindregið til að mæta á leikinn. Þá sem ekki komast á leikinn hvetjum við náttúrulega til að fylgjast með beinu lýsingunni á síðunni.

Tengdar fréttir:
Viðtal við Bjarna Frosta
2 dagar í leik: Allt um lið ÍR


Bjarni Frosta í leiknum gegn Val en þar varði hann vel

7. október 2006 - SÁ skrifar

Bjarni Frosta í viðtali

"Ef ég þarf ekki að koma meira inná þá er enginn sáttari en ég sjálfur" sagði Bjarni Frosason meðal annars í viðtali við heimasíðuna. Bjarni gekk skyndilega til liðs við Akureyri rétt fyrir tímabilið. Það kom mörgum mjög á óvart en Bjarna er ætlað að vera ungu markmönnunum til hjálpar þangað til Hreiðar Levý kemur aftur í meiðslum.

SÁ: Velkominn til Akureyrar Bjarni. Hvernig er að taka skóna fram að nýju og koma aftur í boltann?
Bjarni: Þetta eru nýir skór. Þetta er í raun ekkert að koma aftur í boltann. Það er bara þessi eina æfing og tveir leikir. Það rifjast upp ýmsar minningar, eigum við ekki bara að segja það.

SÁ: Það hlýtur að hafa komið þér persónulega mjög á óvart að fá þetta kall um að koma aftur og spila?
Bjarni: Rúni var búinn að vera hóta þessu alltaf í gamla daga að ætla að draga mig á flot aftur þegar ég væri orðinn gamall og hættur. Svo stóð hann við það helvítið á honum.

SÁ: Nú er þér ætlað að vera ungu markmönnunum til halds og traust þangað til Hreiðar kemur aftur. Hvernig líst þér á það verkefni?
Bjarni: Bara mjög vel. Ég er bara mest sáttur við að þurfa ekki að fara inn. Maður man það þegar maður var í þessu í gamla daga hvað það var mikilvægt að hafa einhvern svona sem hafði eitthvað vit á hlutunum og gat sagt manni til. Það hjálpar manni mjög mikið og ef ég þarf ekki að koma meira inná þá er enginn sáttari en ég sjálfur.

SÁ: Hvernig líkamlegu formi ert þú samt í?
Bjarni: Á ég að fara úr að ofan? Það er mjög dapurt. Hins vegar get ég alveg dottið í það að verja eitthvað. Maður bara spilar þetta öðruvísi en í gamla daga. Maður verður að nota gömlu reynsluna.

SÁ: Akureyrarliðið, hvernig líst þér á það?
Bjarni: Þetta eru stórir, sterkir og frískir strákar. Það náttúrulega tekur tíma að pússa saman þegar menn koma úr sitt hvorri áttinni. Þetta er lið sem vel á að geta spjarað sig í deildinni og á að geta gert góða hluti.

SÁ: Á þeim litla tíma sem þú hefur verið með liðinu, hverja telur þú vera helstu styrkleika liðsins?
Bjarni: Ég myndi segja líkamlegur styrkur. Þetta er stórt lið sem á að geta spilað fanta 6-0 vörn. Svo er að liðið nær því og fær markvörslu og hraðaupphlaup með þá er mjög erfitt að ráða við svoleiðis lið.

Við þökkum Bjarna innilega fyrir og bjóðum hann aftur innilega velkominn til Akureyrar.


Fyrsti heimaleikur karlaliðs Akureyrar er gegn ÍR

6. október 2006 - ÁS skrifar

2 dagar í leik: Allt um lið ÍR

Sunnudaginn 8. október mun karlalið Akureyrar leika sinn fyrsta heimaleik en liðið mun taka á móti ÍR. Leikurinn er liður í 2. umferð DHL-Deildarinnar en lið ÍR vann mjög svo sannfærandi sigur á Deildarbikarmeisturum Hauka í fyrstu umferð deildarinnar. Við skulum kíkja betur á lið ÍR.

ÍR var spáð áttunda og jafnframt neðsta sæti DHL-Deildarinnar fyrir tímabilið en eftir fyrsta leik tímabilsins er greinilegt að ÍR-ingar munu gera allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að spáin rætist. ÍR leikur eins og í fyrra mjög hraðan bolta og ef ekki er komið í veg fyrir hraðaupphlaup liðsins er það illviðráðanlegt. Hinsvegar ef það tekst að stöðva hraðaupphlaupin er eftirleikurinn mun auðveldari.

Árangur ÍR á síðustu leiktíð
Liðið endaði í 8. sæti DHL-Deildar með 25 stig, 2 stigum á eftir KA í 6. sæti og 12 stigum fyrir ofan Þór í 12. sæti.
ÍR sló út Víking/Fjölni í 32-liða úrslitum SS-Bikarsins en féll út í 16-liða úrslitum fyrir Fylki.

Leikurinn við Hauka
ÍR lék á heimavelli gegn Haukum í fyrstu umferð deildarinnar. Fyrirfram var búist við nokkuð öruggum sigri Hauka en ungt lið ÍR sigraði leikinn hinsvegar örugglega. Liðið lék öfluga 3-2-1 vörn og var með frumkvæðið í leiknum allan tímann. ÍR náði mest 9 marka forystu í leiknum en lokatölur voru 36-30.

Sjallamótið 2006
ÍR mætti til leiks á Sjallamót karla, þar gerði liðið fyrst jafntefli við Fylki (umfjöllun). Næst gerði liðið jafntefli við okkar menn í Akureyri (umfjöllun)og í síðasta leik sínum vann liðið verulega tæpan sigur á Akureyri 2 (umfjöllun). ÍR endaði í 2. sæti á Sjallamótinu á meðan Akureyri endaði í 3. sæti.

Helstu leikmenn liðsins
Björgvin Hólmgeirsson er vinstri skytta liðsins sem getur líka leikið á miðjunni, Bjöggi er einnig í ungmennalandsliði Íslands. Björgvin er litli bróðir Einars Hólmgeirssonar landsliðsmanns. Björgvin stóð sig frábærlega fyrir ÍR í leiknum gegn Haukum á dögunum og skoraði 12 mörk. Klárlega maður sem þarf að stöðva á sunnudaginn.

Ólafur Sigurgeirsson leikur í vinstra horni hjá ÍR en hann gekk til liðs við ÍR fyrir tímabilið frá KA. Ólafur er uppalinn í KA og er mjög öflugur hornamaður. Óli er snöggur og er góður að nýta færin sín og því veltur mikið á honum að keyra hraðann hjá ÍR.

Ragnar Helgason leikur í hægra horni ÍR og er ábyggilega sneggsti maðurinn í deildinni. Ragnar er virkilega skæður þegar hann er kominn í gang og fátt sem getur stöðvað hann. Hann er með góða fótavinnu og getur verið ansi skæður leikmaður.

Davíð Georgsson er vinstri skytta en getur líka leikið á miðjunni. Hann reyndist Haukum erfiður í leik liðanna á dögunum en þar gerði hann 11 mörk. Hann er vítaskytta liðsins og er mjög öruggur á línunni.

Markmenn ÍR eru þeir Þorgils Jónsson og Lárus Ólafsson og eru þeir báðir öflugir. Það er hreint ótrúlegt hversu marga góða markmenn ÍR hefur í röðum sínum en Hreiðar Levý markvörður Akureyri kom einmitt frá ÍR. Þeir Þorgils og Lárus vörðu báðir vel gegn Haukum og eru auðvitað lykilleikmenn í liði ÍR.

Erlendur Ísfeld er þjálfari liðsins en hann tók við liðinu fyrir tímabilið. Erlendur hefur lengi þjálfað yngri flokka hjá liðinu og gert það með góðum árangri. Eitt er víst að Erlendur er mjög góður þjálfari og er greinilega að gera góða hluti með hið unga lið ÍR. Ólafur Sigurjónsson er aðstoðarþjálfari.

Akureyri - ÍR, KA-Heimilið sunnudaginn 8. október klukkan 16:00

Við bendum fólki eindregið á að kaupa sér ársmiða á alla heimaleiki Akureyrar, það tryggir fólki öruggt sæti, kaffi og meðlæti í hálfleik og eftir leik, verðið er einungis 10.000 krónur. Hægt er að festa kaup á ársmiða fyrir leik Akureyrar og ÍR.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson