Það var Einar Sigtryggsson, blaðamaður mbl.is sem stóð vaktina á leik Akureyrar og Vals í gærkvöldi og strax að leik loknum tók hann tali mann leiksins, Róbert Sigurðarson og einnig Guðlaug Arnarsson þjálfara Valsliðsins. Viðtöl Einars fara hér á eftir:
Róbert: Sverre kveikti í okkur
Róbert Sigurðarson hefur líklega aldrei spilað jafn vel og í kvöld þegar hann og félagar hans í liði Akureyrar lögðu Val í Olís-deildinni í handknattleik, 27:21. Róbert var tveggja manna maki í vörn liðsins en hann tók svo til við markaskorun þær fáu mínútur sem hann fékk að beita sér í sókninni. Til að setja smá krydd á frammistöðuna skoraði Róbert ótrúlega flott mark úr aukakasti eftir að leiktími fyrri hálfleiks var liðinn. Róbert var spurður um frammistöðuna. „Ég er búinn að bíða mjög lengi eftir þessum leik, alveg frá því í desember. Við fórum í jólafrí með skelfilegt tap á bakinu og ég er búinn að hugsa um þennan leik síðan þá. Tapið gegn Fram í lokaleiknum fyrir jól sat lengi í mér og ég undirbjó mig mjög vel fyrir þennan leik. Sverre var ekkert að breyta neinum áherslum í varnarleiknum. Við héldum bara áfram með það sem gekk vel hjá okkur fyrir áramót. Nú vorum við að vinna betur saman og allt gekk 100% upp. Við náðum allir mjög vel saman og það var gaman að spila vörnina,“ sagði Róbert við mbl.is.
Nú var Sverre sjálfur kominn á bekkinn, tilbúinn að koma inn í vörnina. Setti það pressu á ykkur hina? „Nei, það var engin pressa en þetta kveikti í manni. Við ungu strákarnir vildum ekkert vera að hleypa honum inná. Við vorum bara að gera þetta vel og hann þurfti ekkert að grípa inní. Það skipti líka miklu máli að við létum ekki reka okkur útaf, þar sem við unnum svo vel saman. Segjandi það þá verð ég að hrósa dómurunum í leiknum. Þeir voru mjög sanngjarnir og virtu það við okkur að við vorum ekkert að böggast í þeim. Það hjálpar alltaf að vera jákvæður og leyfa þeim að sinna sínu.“
Og næsti leikur? „Það er útileikur gegn FH á sunnudaginn. Við höfum spilað tvo svakalega leiki við þá í vetur og þetta verður örugglega alvöru leikur,“ sagði Róbert að skilnaði.
Róbert Sigurðarson átti sannkallaðan stórleik og var valinn maður Akureyrarliðsins
Guðlaugur: Við vorum agalausir
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, mátti sætta sig við tap í kvöld þegar Akureyringar lögðu lið hans í Olís-deildinni í handbolta. Valsmenn hafa verið áskrifendur að sigri á Akureyri síðustu árin en heimamenn voru nokkuð betri í kvöld og unnu 27:21. Guðlaugur sagði þetta um leikinn: „Akureyringarnir voru með hjartað í þennan leik. Þeir mættu vel gíraðir og börðust eins og ljón. Þeir verðskulduðu þennan sigur. Við vorum búnir að undirbúa okkur fyrir mikla baráttu og í sjálfu sér kom ekkert á óvart í leik þeirra. Varnarleikurinn hjá þeim var mjög þéttur og svo kom markvarslan með. Við hinsvegar vorum agalausir og ekki nógu góðir í vörninni. Það vantaði okkar helsta vopn sem er leikgleði og áræðni. Þegar það vantar þá eru allir leikir erfiðir,“ sagði Guðlaugur við mbl.is.
Nú hefur Hlynur Morthens verði að ganga frá Akureyringum síðustu ár. Hann varði nokkuð vel en ekki eins og oftast. „Hann stóð fyrir sínu. Vörnin var hins vegar ekki nógu öflug og það hjálpaði honum ekki. Menn voru ekki að standa sína plikt og einbeitingu vantaði. Það verður að lagast fyrir næstu leiki. Það er stutt á milli leikja núna og nóg framundan.“
Þið lentuð sex mörkum undir, minnkuðuð strax muninn í fjögur mörk og fenguð nokkrar sóknir til að nálgast þá meira. Það gekk hins vegar ekki. „Já, þá bara klikkuðum við á nokkrum góðum færum. Markvörðurinn varði bara frá okkur. Við áttum líka í brasi með að minnka muninn áður en þetta fór í sex mörk. Við vorum einfaldlega að klúðra færunum okkar og þeir gengu á lagið,“ sagði Guðlaugur Arnarsson.
Guðlaugur kíkir á leikklukkuna í veikri von um að enn sé tími til að klóra í bakkann
Robbi sýndi frábæran leik í kvöld
2. febrúar 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar
Frábær sigur á Val eftir HM fríið
Akureyri vann frábæran sigur á Val í KA-Heimilinu í kvöld 27-21 eftir að hafa leitt 13-12 í hálfleik. Liðið sýndi magnaða frammistöðu og átti sigurinn svo sannarlega skilinn. Róbert Sigurðarson gerði mark leiksins þegar hann kom Akureyri yfir undir lok fyrri hálfleiks með marki úr aukakasti þegar tíminn var liðinn. Sjón er sögu ríkari en markið má sjá hér fyrir neðan:
Nánari umfjöllun um leikinn er væntanleg síðar.
Fyrsti leikur eftir HM hlé
2. febrúar 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar
Bein útsending frá leik Akureyrar og Vals
Akureyri tekur á móti Val í fyrsta leik eftir HM frí í Olís deild karla í kvöld í KA-Heimilinu. Akureyri-TV sýnir leikinn beint og er hægt að sjá leikinn með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:
Heiðar Þór, Guðlaugur og Anton hafa allir leikið með Akureyri
2. febrúar 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins - heimaleikur gegn Val kl.18:00
Í dag hefst sem keppni í Olísdeild karla á nýjan leik og það er einmitt Akureyri sem ríður á vaðið með heimaleik gegn stórliði Vals. Það er rétt að vekja strax athygli á að leiktímanum var breytt fyrir nokkrum dögum síðan, leikurinn hefst klukkan 18:00 (en ekki á hefðbundnum tíma 19:00).
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig liðin koma til leiks eftir langt hlé en fyrir leikinn er staða þeirra þannig að Valur er í 4. sæti með 18 stig en Akureyri í 9. sæti með 11 stig.
Atkvæðamestir í markaskorun hjá Val hafa verið Anton Rúnarsson með 79 mörk og Josip Juric Gric með 68 mörk. Josip missti reyndar af fyrstu leikjunum í haust en hvor um sig er að skora ca 5 mörk í leik. Þar á eftir eru hornamennirnir Sveinn Aron Sveinsson og Vignir Stefánsson með 52 mörk hvor. Í markinu hjá Val er hinn síungi Hlynur Morthens sem oftar en ekki hefur reynst okkar mönnum erfiður en honum til halds og trausts er yfirleitt Sigurður Ingiberg Ólafsson.
Ef við skoðum tengsl Valshópsins hingað norður þá eru þar nokkur kunnugleg nöfn. Hornamaðurinn Heiðar Þór Aðalsteinsson hefur leikið 11 deildarleiki með Val það sem af er tímabilsins, en Heiðar Þór er næstleikjahæsti leikmaður Akureyrarliðsins frá upphafi. Markakóngur Vals, áðurnefndur Anton Rúnarsson lék með Akureyri tímabilið 2008-2009. Þá hefur þjálfarateymi Valsmanna ekki síður tengingu hingað, Guðlaugur Arnarsson lék í fjögur tímabil með Akureyri, allt frá 2009 til 2013 og það sem færri vita líklega er að Óskar Bjarni Óskarsson lék hér á árum áður eitt tímabil með KA.
Liðin mættust í Valshöllinni þann 22. október og var æsispennandi en að lokum unnu Valsmenn tveggja marka sigur, 24-22 með því að skora síðustu tvö mörk leiksins.
Bergvin Þór Gíslason í leik gegn Val í fyrra, verður Beggi með í kvöld?
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta í KA heimilið og styðja strákana af fullum krafti. Liðið hefur iðulega skapað rafmagnaða spennu í heimaleikjunum og því frábær skemmtun að taka þátt í fjörinu.
Akureyri TV Við reiknum með því að sýna leikinn í beinni útsendingu á Akureyri TV þannig að þeir sem ekki komast í KA heimilið ættu að fylgjast með hér á heimasíðunni þegar nær dregur. Við birtum tengil á útsendinguna á heimasíðunni skömmu fyrir leik.
Við vonumst til að sjá þig á leiknum í kvöld Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.
Fjörugir leikir þegar þessi lið mætast
30. janúar 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur Akureyrar og Vals - breyttur leiktími
Nú styttist í að Olís deild karla fari af stað eftir HM pásuna. Fyrsti leikur deildarinnar verður einmitt hér á Akureyri þegar stórlið Vals heimsækir Akureyri. Athugið að leiknum hefur verið flýtt um klukkutíma þannig að nýr leiktími er klukkan 18:00 en upphaflega var leikurinn settur á klukkan 19:00.
Við eigum eftir að fjalla betur um leikinn á næstu dögum en minnum á viðtal okkar við Sverre Andreas sem við birtum síðasta fimmtudag, sjá hér.